Heima er bezt - 01.04.1960, Page 13

Heima er bezt - 01.04.1960, Page 13
send til þess að særa eða að ná sér niðri á náunganum, heldur um fram allt til þess að vekja hlátur og góðlát- legt ganian í grámósku hversdagsleikans. Nokkru ntun einnig hafa um það valdið, að aldrei hlífði hann sjálfum sér né sínurn veikleika í kveðskap sínum. Menn vissu gjörla, að hjartað, sem sló að baki orðanna, var fullt góðvildar en ekki sýkt af græsku eða hundingjahætti, sem er allt of títt meðal Islendinga, þegar þeir varpa fram fyndni eða gamanmálum, hvort heldur í bundnu máli eða óbundnu. Eg spurði kunningja minn þar vestra að því, hvort K. N. hefði ekki ort reglulegar níðvísur eða klám, eins og mörgum góðum hagyrðingi hefur verið hætt við. Sagðist honum svo frá, að hann hefði ekki gert mikið að því, en helzt hefði það verið, er hann var ölvaður í meira lagi. Kvaðst hann kunna svo ljótar vísur eftir K. N., að hann vildi ekki láta mig heyra þær. Þótt ég reyndi að sannfæra þennan kunningja minn um, að ég væri engan veginn viðkvæmur í þcim efnum, sat hann fast við sinn keip og var ófáanlegur til að láta mig heyra nokkra slíka stöku. Veit ég ekki hvort honum gekk fremur til, að hann vildi ekki setja blett á minn- ingu K. N. með því að halda slíkum kveðskap á loft, eða hann vildi ekki taka sér illyrði í ntunn. Má vera að hvorttveggja hafi valdið, en þó hygg ég fremur hið fyrra. Síðar heyrði ég tvær slíkar vísur eftir K. N., og ef þær eru rétt sýnishorn af þeirri tegund skáldskapar hans, er lítill skaði skeður, þótt hann glatist með öllu. Vísur þessar voru samanseymd stóryrði og klúryrði, án fyndni og þess skapþunga, sem einn getur gefið níðvísum gildi. Mátti af þeim marka, að slíkur kveð- skapur hefur legið fjarri skaphöfn hans. En var K. N. þá skemmtilegur maður? Svarið var ætíð hið sama, að svo hefði hann ekki verið hversdags- lega. Hann hefði verið heldur þurr á manninn, fáskipt- inn og fálátur, bæði innan heimilis og utan. Þó brá þar frá, ef börn áttu í hlut. Hann var barngóður með af- brigðum, eins og raunar kemur greinilega fram í kveð- skap hans. Heimilið, sem hann dvaldist á, var barn- margt. Unni hann börnunum eins og hann ætti þau, og þau kunnu vel að meta, hvernig að þeim var búið af hans hálfu. En svo fór honum sem mörgum, að jafnan hafði hann mest dálæti á yngsta barninu hverju sinni. Erfðu börnin þannig hvert eftir annað þann dóm hans, að vera bezt og skemmtilegast af systkinahópnum. í raun réttri þarf naumast að lýsa K. N. nteð öðru en þessu tvennu. Gaman hans er svo græzkulaust, að engum sárna skeyti hans, þótt þau hæfi í mark, og börnin eiga hug hans allan. Þeir menn, sem gæddir eru slíkum einkennum, eru góðir menn. K. N. var blásnauður aila ævi sína, þótt aldrei ætti hann fyrir öðrum að sjá en sjálfum sér. Kvað svo rammt að því, að oft var naumast að hann ætti önnur föt en ígangsklæði þau, sem hann gekk í daglega að erfiðis- vinnu, fjósverkum, þreskingu og öðrurn sveitastörfum. Ekki er mér kunnugt um, hvort hann var kröfuharður um kaup fyrir vinnu sína. En sívinnandi var hann, hversu sem goldizt hefur. En á hitt voru engar dulur Geir-heimilið á Garðar, þar sem K. N. dvaldist lengst. dregnar, að hann var ölkær í meira lagi, og má vera að það hafi ráðið úrslitum um fjárhag hans. Sjálfur ræðir hann oft þennan brest í kveðlingum sínum, og sagt var mér, að hvergi gerði hann meira úr honum en efni stóðu til. Hvarf hann stundum að heiman svo dögum skipti, og spurðist þá ekki til hans fyrr en hann kom heim seint og síðar, oft lasinn og ætíð illa til reika. En þótt K. N. væri fálátur hversdagslega, var hann fljótur að breytast, ef öl var á könnu. Þá var sem ham- urinn hryndi af honum, fyndnin leiftraði í hverju svari og vísurnar flugu jafn hratt og talað var. Var það allra manna mál, að hann hefði verið öllum skemmtilegri og meiri gleðigjafi, ef hann var mátulega hýrgaður af víni. En þegar hann þreytti drykkjuna til lengdar, fór honum sem fleirum, að hann varð þreytandi, enda varð hann oft lasinn við drykkinn, einkum er á leið ævina. En allt um það var persónuleiki hans sá, að menn fyrirgáfu honum víxlsporin og opnuðu honum heimili sín, hvern- ig sem hann bar að garði. En ekki hvarf hann þó til ann- arra en þeirra, sem hann taldi sanna vini sína, en sjálfur var hann maður trölltryggur í lund. Að ytri sýn var K. N. hinn gjörvulegasti. Mikill að vallarsýn og fríður sýnum. Svipmót hans og fas allt bar vitni gáfna hans og andlegra yfirburða. Og fagur vitnis- burður er það um sveitunga hans, að þeir kunnu að meta hann og breyttu eftir því. K. N. er grafinn að Eyfordkirkju, en við hana var hann sjálfur grafari um langt skeið. Við kirkjuna er honum reistur minnisvarði. Var hann gerður fyrir al- menn samskot meðal Vestur-íslendinga, bæði sveitunga hans og annarra, en vini átti hann og aðdáendur hvar- vetna um byggðir íslendinga vestan hafs. Sýnir það hugarþel þeirra til hans, hversu vel þeir brugðust við um samskotin til minnisvarðans. En vel má cinnig minn- ast þess, að hann var í lifanda h'fi aufúsugestur, hvar sem hann kom. En óbrotgjarnastan minnisvarða hefur hann sjálfur reist sér með kveðskap sínum, gamanseminni og alvörunni, sem hann fléttar svo meistaralega saman, og því, að hann orti öðruvísi en hinir. Heima er bezt 121

x

Heima er bezt

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.