Heima er bezt - 01.04.1960, Page 30
er ekki svo mikið eftir að taka saman. En að senda
Boggu, sem ekkert kemst áfram,“ sagði hún gröm.
Geirlaug hljóp upp að Bala og bað Stínu að vera hjá
sér þangað til þetta væri allt afstaðið. Hún gerði það.
Yfirsetukonan kom fljótlega. Hún heimtaði hreint í
rúmið. Aslaug sagði eins og var, að hún ætti ekkert í
rúm. Það yrði að tala um það við Geirlaugu.
Það var ekki um annað að gera en að opna tauskáp-
inn, þó að hún væri ekki vel ánægð yfir því.
Yfirsetukonan sagði, að sér sýndist vera af nógu að
taka þarna.
Geirlaug flýtti sér út í fjós. Það yrði ekki langt þang-
að til hún mætti fara að ná í kýrnar. Það tæki þó nokk-
urn tíma. En þetta var allt óþarfa kvíði, því að áður en
hún var búin að skilja mjólkina, var fæddur sonur inni
í baðstofunni.
Stína gamla var búin að finna eldspýtur og kveikja
ljós inni.
Geirlaugu fannst hún vera hetja að geta verið við
þetta.
Nú þurfti enn að rífa út úr tauskápnum og láta í
rúmið. Þvílíkt umstang!
Þegar heyskaparfólkið kom heim, gat Geirlaug sagt
því þær gleðifréttir, að það væri allt búið fyrir Ásdísi
vesalingnum. Það var óvanalegt að hún talaði svona
hlýlega í hennar garð.
Kristján sendi Boggu inn í hús eftir rúmfötunum sín-
um. Hann ætlaði að sofa fram í stofu meðan þetta
„vesen“ væri þarna í baðstofunni.
Þá datt yfirsetukonunni það í hug, hvort ekki mætti
færa Ásdísi og barnið inn fyrir. Það væri svo heppilegt,
þar sem ofninn væri þar. Þá yrði hægt að hita upp, ef
það kóinaði í veðri. Hún bjóst við að Kristján hefði
ætlazt til þess, fyrst hann hefði flutt sig fram.
Stína laumaðist fram og minntist á þetta við Geir-
laugu. Hún bara hristi höfuðið yfir þessari fjarstæðu:
„Það er nú líklega eitthvað, sem honum hefur aldrei
dottið í hug, að flytja þessa manneskju inn í hjóna-
rúmið,“ sagði Geirlaug. „Það er að minnsta kosti bezt
að láta það bíða til morguns og tala þá um það við
Kristján.“
En Kristján lét ekki sjá sig inni í baðstofunni næsta
dag, og ekki spurði hann hvernig Ásdísi liði.
Geirlaug var í slæmu skapi yfir öllum þessum við-
bjóðslega þvotti, sem var í bala fram í eldhúsi. Hún
sagði yfirsetukonunni, að sér dytti ekki í hug að þvo
þennan óþverra. Það yrði einhver annar að gera.
„Nú, það er náttúrlega nokkuð, sem mér kemur eltki
við,“ sagði hún. „En ertu ekki ráðskona hér á þessu
heimili?“
„Nei, ég er bara vinnukona hér,“ sagði Geirlaug.
„Það er engin húsmóðir hér eins og þú veizt.“
„En þá er það húsbóndinn, sem verður að sjá um að
Ásdísi verði sýnd sú umönnun, sem hún þarf. Hún er
hér vistráðið hjú, og þá á hún að fá kostnaðarlaust að-
hlynningu í hálfan mánuð. En þar sem hann lætur ekki
sjá sig, get ég ekki talað um það við hann.“
„Hún gat víst haft sig í burtu áður en hún lagðist,“
sagði Geirlaug klökk af gremju, „eða þá að hann getur
fengið einhverja aðra en mig til að þvo þetta.“
„Kannske Bogga geti þvegið þetta?“
„Nei, það getur hún varla. Hún er nú líka niðri á
engjum. Honum þykir nú sjálfsagt fáliðað þegar Ás-
dísi vantar,“ sagði Geirlaug.
„Þú skalt nú bara láta skynsemina ráða, Geirlaug
mín. Þú varst sjálf rúmföst í fyrravor og það víst leng-
ur en hálfan mánuð. Hvernig heldurðu að þér hefði
liðið, ef enginn hefði viljað gera þér neitt til þægðar?“
„Það voru víst nærri sex vikur sem ég var frá verk-
um,“ sagði Geirlaug, „svo að Kristján hefði víst ekki
verið skyldugur til að hafa mig allan þann tíma. En
hann hefur alltaf verið mér almennilegur húsbóndi, og
ég skal ekki heldur draga það af honum, sem hann á.
Það eru nógu margir, sem hnjóða í hann, þó að ég geri
það ekki.“
„Þú borgar honum það þá með því að hugsa vel um
litla drenginn og móður hans,“ sagði yfirsetukonan.
„Bara að honum sé þá nokkur þægð í því,“ sagði
Geirlaug og fór út.
En yfirsetukonan gekk til baðstofu og lagði sig. Hún
var þreytt. Hún þóttist viss um að Geirlaug væri að
þvo frammi.
Hún vaknaði þegar fólkið kom í miðdagsmatinn.
Ásdís var líka vöknuð. Hún hlustaði eftir hverju
hljóði, sem barst framan úr maskínuhúsinu. — Skyldi
ekki húsbóndinn koma inn til að sjá son sinn? hugsuðu
þær báðar.
En enginn kom og ekkert heyrðist talað yfir mat-
borðinu.
Loksins kom Geirlaug með mjólkurgraut í skál og
smurt brauð og kartöflur á diski handa sængurkonunni.
„Hér kemur matur handa þér,“ sagði hún. „Geturðu
hjálpað þér sjálf? Ekki kann ég að mata þig.“
„Þá reis yfirsetukonan upp og færði sig inneftir til
Ásdísar.
„Mér þykir þú ekki ætla að kappala mig, ef ég á
ekki að fá meira en þetta,“ sagði Ásdís. „Ég verð að
borða vel, svo ég geti mjólkað honum syni mínum.“
„Þú getur fengið meiri mat ef þú þarft,“ sagði Geir-
laug;
Þá heyrðist eitthvað í litla karlmanninum. Ásdís varð
eitt gleðibros ofan í reifastrangann: „Nú ætlar hann að
fara að vakna,“ sagði hún.
„Þú ert ekki farin að sjá hann enn þá, Geirlaug mín,“
sagði yfirsetukonan í gælurómi. „Þetta er mesti mynd-
arkarlmaður, skal ég segja þér.“
„Ég er nú heldur lítið hrifin af þeim, á meðan þau
eru svona lítil,“ sagði Geirlaug og sneri til dyra. „Þú
kemur svo fram að borða, þegar þú ert búin að stjana
við þau, þessi mæðgini,“ sagði hún frammi í göngunum.
„Hún er nú alltaf með fýlu við mig, þessi kerlingar-
álka,“ sagði Ásdís. „Hefurðu nokkuð minnzt á það við
þau, að ég yrði flutt inn í húsið?“
„Ég hef engan séð nema Boggu. Ég náði í hana, þeg-
ar hún ætlaði að fara að grípa hrífuna í morgun. Ann-
ars hefði ég ekki getað búið um þig, því að ekki treysti
138 Heima er bezt