Heima er bezt - 01.05.1960, Blaðsíða 29

Heima er bezt - 01.05.1960, Blaðsíða 29
inn og keypti sér öl fyrir fimm krónurnar. Síðan fór hún þaðan út aftur en vissi þá ekkert, hvað hún ætti af sér að gera, því heim ætlaði hún aldrei framar. Fyrir utan dyrnar rak hún fótinn í eitthvað og datt, stóð upp aftur, en datt á ný og gat þá ekki staðið á fætur. Þá kom einhver til hennar og reisti hana á fætur. Meira man hún ekki. En hvað hefur svo gerzt? Hvar er hún stödd? Ekki á sjúkrahúsi, nei. Ekki í fangahúsi, nei, þaðan af síður. Þetta hlýtur að vera á einhverju heimili. Hún litast bet- ur um í kringum sig og kemur auga á fötin sín, sem liggja á stól við rúmið. Ætti hún að smeygja sér í þau og laumast svo á brott héðan án þess að gera frekar vart við sig? Nei, hér fer svo vel um hana í þessu rúmi. Hún ætlar að liggja kyrr, þangað til einhver kemur og skýrir henni frá, hvar hún sé niður komin. Henni er hræðilega illt í höfðinu, og hún er kveljandi hungruð, það finnur hún betur, eftir því sem hún vakir lengur. Hvað á hún að gera? Hún skammast sín fyrir að láta fólk í þessu ókunna húsi sjá sig, en því er sjálf- sagt kunnugt um, hvernig ástatt er fyrir henni, fyrst hún er hér niðurkomin, og það er bezt að vera kyrr. En hvað á hún að gera, þegar hún fer héðan? Hún hefur ekki önnur úrræði en að fara aftur heim til stjúpu sinnar, fá ný högg, láta hana reka sig á dyr, leita síðan á náðir áfengisins og lifa áfram við sárustu eymd og kvöl. Hún grúfir höfuðið niður í koddann og grætur. Frú Eygló gengur að dyrunum á gestaherbergi sínu, drepur léttu höggi á hurðina og lýkur henni síðan upp með hægð. Næturgesturinn hvílir kyrr á sínum stað, grúfir andlitið niður í koddann og bærir ekki á sér. Frú Eygló gengur að rúminu og segir hlýrri röddu: — Góðan daginn. Stúlkan lyftir andlitinu upp frá koddanum og lítur tárvotum augum á frú Eygló. — Góðan daginn, svarar hún lágt. Þær horfast í augu nokkur andartök, og frú Eygló les ómælisdjúpa kvöl í augum ungu stúlkunnar. — Hvernig líður þér? spyr frú Eygló. Stúlkan hristir aðeins höfuðið og andvarpar sárt. — Hvar er ég stödd? segir hún. — í húsi séra Ástmars Þórs. Kannast þú nokkuð við hann? — Já, ég hef heyrt hann nefndan. Er hann ekki prest- ur héma í bænum? — Jú. — En hver ert þú? — Ég heiti Eygló og er konan hans. Hvað heitir þú, vina mín? — Ég heiti Fjóla. Af hverju er ég hér? — Manstu ekkert, hvernig það atvikaðist að þú komst hingað? — Nei, viltu segja mér það? — Við hittumst niður í bæ seint í gærkvöldi, og ég bauð þér að koma heim með mér og gista hérna í nótt. — Varst það þú, sem reistir mig upp fyrir utan sjopp- una? — Já- — Jæja. Svo man ég ekki meira hvað gerðist. En í morgun vaknaði ég hér í þessu hlýja og mjúka rúmi. Ósköp hefur þú verið góð við mig. Svona hefur enginn komið fram við mig annar en þú. — Það var aðeins gleði fyrir mig, að þú skyldir gista hjá mér. En áður en við ræðum þetta frekar, ætla ég að sækja þér einhverja hressingu. Frú Eygló hraðar sér fram úr herberginu, en Fjóla liggur kyrr, og tárin leita fram í augu hennar á ný. Þetta hlýtur að vera góð kona. Svona góðri óviðkomandi manneskju hefur hún aldrei kynnzt fyrr. Hún minnir helzt á móður hennar. Eitthvað barnslega hreint og heilagt losnar úr læðingi í sál Fjólu. Hve hana langar til að halla höfðinu að brjósti þessarar góðu konu og trúa henni fyrir kjörum sínum. Én hún fær ekki tíma til að hugleiða þetta nánar. Frú Eygló kemur aftur inn í herbergið til hennar með heitan drykk og smurt brauð á bakka. Flún setur bakk- ann á lítið borð við rúmið og býður gesti sínum að gera svo vel að fá sér hressingu. Fjóla tekur þegar til matar og seður sitt sára hungur. Hún fyrirverður sig fyrir, hve matlystug hún er, en hún er fullviss um, að þessi góða kona hneykslast alls ekki á því. Loks er Fjóla orðin mett. Hún þakkar fyrir matinn og hallar sér aftur út af á koddann. Frú Eygló sezt á rúmið fyrir framan Fjólu og segir þýðlega: — Áttu heima hjá foreldrum þínum? — Hjá pabba. Mamma mín er dáin. Framhald. • • VILLI Heima er bezt 173

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.