Heima er bezt - 01.05.1960, Blaðsíða 34

Heima er bezt - 01.05.1960, Blaðsíða 34
Þá heyrðist í ungbaminu í innsta rúminu. „Hvað er nú þetta?“ sagði gamla konan. „Er sem mér sýnist og heyrist, að bóndasonurinn sé hér í fram- baðstofunni?“ Hartmann gamli rak upp stór augu. „Er þá ekki meira um að vera en þetta, að hann láti hana sofa hjá vinnu- konunum?" spurði hann og leit til Geirlaugar. „Hvar áttirðu von á að sjá hana?“ spurði hún. „Náttúrlega inni í húsinu hjá honum. „Eg hef nú aldrei séð annað eins.“ Geirlaug hló kuldahlátri. „Mér þykir ólíklegt að ég eigi eftir að sjá það, að hann hafi hana í hjónarúminu. Þó er ekki hægt að vita, hvað smekkleysið gengur langt.“ „Nú, það er svona hljóðið í þér, gamla mín,“ sagði Hartmann. „Þú tekur upp þykkjuna fyrir Rósu. Það er nú líklega öðruvísi hugur hans til hennar.“ „Það er vel líklegt,“ svaraði Geirlaug. Gamla konan var komin inn að rúminu til sonarsonar síns: „Ósköp hefur hún mikið ofan á blessuðum litla kroppnum. Hann er alveg blóðrauður og kófsveittur undir þessum ósköpum,“ tautaði hún. „Þetta er náttúrlega myndar- og efnisbarn, þykist ég vita,“ sagði Hartmann. „Ekki skal ég svara því,“ sagði Geirlaug. „Ég hef ekki litið á hann ennþá. Hef aldrei snert á reifabarni á ævi minni.“ „Hvers konar bölvað viðrini ertu, manneskja? sagði Hartmann. „Það er svona. Ég hef aldrei haft neina löngun til að eignast barn eða að hugsa um annarra krakka.“ Gamla konan hagræddi barninu. „Ég finn nú ekki betur en að hann sé rennblautur, blessaður unginn. Svei þeirri móður, sem lætur barninu sínu líða svona. Það væri betra að hamast ögn minna í útiverkunum." „Það eru ekki allar mæður eins og þú, sem alltaf varst vakandi og sofandi að amstra við þína kjúklinga. Fyrr getur nú gott verið!“ Geirlaug þóttist sjá, að þarna myndi nýja ófriðar- bliku draga upp yfir heimilið, ef gamla konan færi að finna að því við Ásdísi, hvernig hún hugsaði um barnið. Hún skaut því skildi fyrir hana, þó að slíkt væri óvana- legt: „Hann hlýtur að vera nýbúinn að bleyta sig. Mér hefur sýnzt hún hugsa vel um hann.“ „Það getur verið að þú hafir þar rétt fyrir þér,“ sagði Arndís. „Hann er að minnsta kosti vel útlítandi. Þetta verður bráðfallegt barn. Hann líkist honum föður sín- um mikið. Og þarna eru hreinu fötin hans og bleiurnar. Það er prýðilega vel þvegið hjá henni.“ Geirlaug lofaði Ásdísi að njóta lofsins, en sjálf þvoði hún alltaf smábarnsfötin. Þegar búið var að koma heyinu saman, komu feðg- arnir og Ásdís heim, kafrjóð af vinnugleði. „Þú hefur þó vonandi til heitt kaffi á könnunni handa okkur, ráðskona góð,“ sagði Hartmann. „Það er alveg við suðu á katlinum,“ sagði Geirlaug. „Ágætt, þú skalt taka það með í reikninginn, að nú er kominn kaffikarl á heimilið. Varla verður hann geð- góður, ef hann fær ekki sopann sinn.“ „Það er nú bara lítið, sem ég legg til af kaffi,“ sagði Kristján, „enda er það ekki oft hitað. Ég álít það ekki hollt að vera sífellt að sloka í sig kaffi.“ „Ég anza nú ekki svona löguðu,“ sagði faðir hans. „Ég býst við að það séu ekki margir á mínum aldri hressari en ég, þó að ég hafi þambað kaffi alla mína ævi. En móðir þín, sem sífellt sötrar í sig saltvatn eða grasate, er sílasin. Hún þarf ekki annað en að heyra einhverja pest nefnda, þá er hún búin að fá höfuðverk. Það er alltaf byrjunin. Það væri líklega einhver í mínum spor- um orðinn þreyttur af að búa við slíka vesöld.“ „Hún var nú ekki allt ævin hennar, aumingjans, svar- aði Kristján. „Mig langar til að henni líði eitthvað betur hjá mér, ef hægt væri.“ „Hún þægi það líklega. Svona, láttu mig hafa kvarn- argreyið, Geirlaug. Ég skal mala. Þú hefur nóg að gera að taka til sykurinn. Það væri nú bærilegt að fá kleinur með kaffinu. Við erum svei mér búin að vinna fyrir sætu kaffi.“ „Ég segi það líka,“ sagði Ásdís. Það voru til ldeinur, og þær voru látnar á borðið með kaffinu. Kristján spurði eftir móður sinni og Geirlaug sagði að hún svæfi. „Hún er náttúrlega þreytt eftir ferðavolkið,“ sagði hann. „Ég vona að hún kunni vel við sig, svo að hún þurfi ekki að hrekjast burtu aftur. Ég vona að þið stúlkurnar reynið að vera góðar við hana, svo að hún uni sér.“ Svo fór hann inn í baðstofu. Móðir hans leit upp, þegar hún heyrði umganginn. „Var ég að vekja þig?“ spurði Kristján og settist fyrir framan hana á rúmið og strauk yfir vanga hennar. „Ég var að segja það frammi, að ég vonaði að þú kynnir svo vel við þig, að þú flyttir ekki frá mér aftur.“ „Ég hef sofið vel og er orðin hressari. En mikið finnst mér vanta, þegar Rósa er ekki hér lengur. Hún var svo ljúf og góð.“ „Það finna allir, sem þekktu hana, að hér er skarð, en viltu nú ekki fá þér kaffisopa til að hressa þig á? Pabbi vildi fá kaffi, enda var hann búinn að vinna fyrir því.“ „Kannske ég fái þá svo sem hálfan bolla.“ Ásdís kom inn með kaffið til hennar. „Hér lúrir þú í rólegheitum á meðan við drífum saman heyið undan rigningunni. Hér kem ég með kaffi handa þér, gamla mín. Reyndu nú að ýta sænginni ofan af þér,“ sagði hún glottandi. Gamla konan hafði ekki augun af henni meðan hún var að setjast upp og taka við bollanum. „Þetta er alltof mikið. Ég talaði um hálfan bolla.“ „Hvað munar um að súpa úr svona fingurbjörgum. Ég vil láta fólkið drekka og borða vel, en náttúrlega verður það að vinna vel líka.“ „Já, þetta segir þú, hraust og ung stúlkan, en það hafa ekki allir heilsu þína og skerpu. Hinir verða að borða lítið. Að öðrum kosti er séð eftir því sem ofan í þá fer.“ Framhald. 178 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.