Heima er bezt - 01.05.1960, Blaðsíða 31
Kaffi fékk fólkið aldrei, nema þegar Sveinki fór á
milli.
Asdís var sárgröm yfir ástæðum sínum. Hún gat
ekki gleymt því, sem Bogga hafði gloprað út úr sér.
Hún fann að það var sannleikur. — Stundum lét hún
gremjuna bitna á Geirlaugu og reifst við hana yfir því,
að iáta fólkið ekld hafa kaffi. Slíkt væri eklcert líf.
Geirlaug sagði, að það væri víst ekki gott við því að
gera. Ef Kristján hefði mikla löngun til að láta vinnu-
fólkið fá kaffi, þá gæti hann látið hita það fram frá.
„Það var alltaf gert hér áður fyrr,“ bætti hún við.
„Ég skyldi hafa hest heima og skeiðríða fram eftir
með kaffi handa fólkinu, ef ég óttaðist ekki að barnið
yrði látið gráta allan tímann. Þú ert nú meiri ótugtin
að vilja ekki hugsa um drenginn, hvað sem á liggur.“
Þessu anzaði Geirlaug engu. Þetta deiluefni var orðið
of vanalegt til að eyða að því orðum. Og Geirlaug ætl-
aði ekki að láta af sinni sltoðun. A krakkanum skyldi
hún aldrei snerta, þó að hún fyndi að það væri óréttlátt
að kenna honum um heimilisbölið. En hún gat samt ekki
heyrt hann gráta, þá veifaði hún eða kallaði til móður
hans.
Þegar þurrkur var, kom Kristján heim um miðaftan
og tók saman með Asdísi það, sem hún var búin að
þurrka. Hann var ánægður yfir að sjá hana úti. Það
gekk ótrúlega fljótt undan henni. En ekki gat hann
hugsað sér að búa með henni sem eiginkonu. Hún var
þó hreint ekki ólaglegur kvenmaður, því hún hafði
fríkkað mikið við það að verða móðir og var búin að
fá mikið hár, sem er prýði hverrar konu. En í saman-
burði við Rósu var hún luraleg og óviðkunnanleg í fram-
komu og sjálfsagt mjög fákunnandi innanbæjar.
Einn morguninn, þegar Kristján var að leggja af stað
á engjarnar, sagði hann við Geirlaugu: „Nú er von á
„Skálholti“ á Eyrina í dag. Ef þú heyrir til þess eða
sérð möstrin, þá settu einhverja veifu á túnhliðið hérna
fyrir ofan. Ég sé það framan af engjunum.“
Um nónbilið heyrðist í skipinu.
Geirlaug var að skola þvott úti við læk og nennti
ekki heim fyrr en hún var búin að því. Það lægi sjálf-
sagt ekki það á að hengja þessa veifu upp. Þegar hún
kom heim, sá hún að Ásdís var búin að festa upp veif-
una. Þær mættust á bæjarhlaðinu.
Geirlaug fokreiddist: „Hvað kom þér eiginlega þetta
við?“ sagði hún. „Þú varst ekki beðin að gera það.“
Ásdís skellihló: „Ég heyrði, þegar hann talaði um
það við þig,“ sagði hún, hreykin yfir því að geta þó
einu sinni gert kerlinguna reiða.
„Þú reynir að sletta þér fram { allt, sem þér kemur
þó ekkert við,“ sagði Geirlaug.
„Ætli það geti ekki skeð að mér komi það meira við
en þér,“ sagði Ásdís og fór með hrífuna út á túnið til
þess að rifja.
Þegar Geirlaug var búin að hengja upp þvottinn, þá
kom hún með hrífuna sína út og fór að rifja, en ekki þó
sama flekkinn og Ásdís.
Ásdís hljóp í einum spretti heim öðru hvoru til þess
að hlusta eftir drengnum. Þetta var ónæðissamt, og hún
óskaði að Geirlaug væri heldur heima, því að þá þyrfti
hún ekki að vera á þessum sífelldu hlaupum. Hún léti
hana vita ef hann vaknaði, þótt hún væri ónotaleg að
flestu leyti.
Þær voru að enda við að rifja, þegar Ásdís rak upp
undrunaróp, því að hún sá til ferða húsbóndans ofan af
engjunum. Hann rak þrjá hesta á undan sér, og einn
þeirra var Bleikur. Hann hafði sjaldan verið beizlaður
þetta sumar.
„Hvað ætli standi eiginlega til fyrir Kristjáni mínum,“
kallaði hún til Geirlaugar.
Geirlaug anzaði engu, þó að hún heyrði vel til Ásdís-
ar og væri jafn forvitin og hún. Hvað væri nú á seyði?
Þær luku jafnsnemma við flekkina og flýttu sér báð-
ar heim til bæjar.
Ásdís fór inn til að vitja um soninn, sem nú var vakn-
aður.
Geirlaug beið á hlaðinu þangað til hrossin voru kom-
in heim.
Kristján snaraðist af baki og bað Geirlaugu að halda
undir reiðing með sér út úr skemmunni. Reiðinginn
lagði hann á einn hestinn, söðul Boggu á Bleik og hnakk
kaupamannsins á þriðja hestinn.
„Það er engu líkara en það sé komin krossmessa og
að þú ætlir að fara að sækja þér nýtt vinnufólk,“ sagði
Geirlaug.
„Það má víst sækja vinnufólk á hvaða tíma sem er,“
anzaði hann. Henni virtist hann óvanalega léttbrýnn.
„Þú mátt búast við að það fjölgi við matborðið hjá þér.“
Svo fór hann inn og hafði fataskipti og rakaði sig og
reið síðan út í kaupstað.
Ásdís gapti af undrun, þegar hún kom fram í dyrnar
og sá á eftir honum út melana: „Hvern ætlar hann að
fara að sækja, Geirlaug? Þú hefur hlotið að spyrja hann
að því,“ sagði hún.
„Ég spurði hann einskis, en hann sagði bara að það
færi að fjölga á heimilinu, en mér finnst það vera nógu
margt,“ anzaði Geirlaug. Það var talsverður húsmóður-
blær á svarinu. Var auðheyrt, að það var hún, sem
hafði yfir öllu þessu fólki að segja.
„Skyldi það nú vera Rósa, fyrst hann vogar sér að
taka þann bleika traustataki? “ spurði Ásdís.
„Það er ótrúlegt að hún sé á ferð hingað,“ sagði Geir-
laug stutt í spuna.
„Ójá, heldur er nú ótrúlegt að hún láti sjá sig hér eftir
ferðalagið í vor. En hver getur það þá verið? Strákang-
inn?“ Hún flissaði. „Gaman að sjá, hvernig honum
verður við, þegar hann sér bróður sinn.“
Það hnussaði eitthvað í Geirlaugu. Hún fór inn í bæ
án þess að svara. Hún vissi hreint ekki, hvers hún ætti
að vænta. Henni fannst það alveg óhugsandi að það gæti
verið Rósa. Líklega var að það væri Jón litli, en varla
riði hann í söðli. Þetta var torráðin gáta.
Geirlaug forðaðist að vera nærri Ásdísi. Hún stakk
upp á hverri vitleysunni af annarri, en tíminn ætlaði
aldrei að líða, þar til lausn fengist á þessu vandamáli.
Heima er bezt 175