Heima er bezt - 01.04.1961, Blaðsíða 19

Heima er bezt - 01.04.1961, Blaðsíða 19
upphaf 20. aldar gerist hún fjölþættari og verður því að rekja hvern þátt um sig. a. Sigurður Sigurðsson og Akureyrarþáttur. Á þeim árum, sem Sæmundur Eyjólfsson skoðaði skóga á Norður- og Austurlandi var unglingspiltur í Fnjóskadal að fást við garðrækt og afla sér þekkingar á ræktun og gróðri. Þetta var Sigurður Sigurðsson á Draflastöðum, sem urn skeið varð arftaki Sæmundar í að fræða menn um skóga landsins og fyrsti brautryðj- andi nýrrar aldar í því að rækta erlenda viði á íslandi. Árið 1900 birtist grein í Andvara eftir Sigurð um Skógana í Fnjóskadal. Má segja að hún marki að nokkru tímamót í viðhorfum manna til skógræktar á íslandi. Þarna er skóginum lýst rækilega, rakin saga þeirra, og sýnt fram á, svo ekki verður hrakið, að þeir höfðu eyðzt sakir illrar meðferðar og vankunnáttu í hirðingu þeirra. Þá eru í fyrsta sinn á íslandi birtar mælingar, er sýna hversu mikill sé ársvöxtur birkisins í íslenzkum skógi, og hve mikill viðarauki skapist þannig á hverri dagsláttu skóglendis. Út frá þessum forsendum er síð- an reiknað, hve mikils arðs megi vænta af skógrækt. Vafalítið hafa ýmsir rekið upp stór augu, er þeir sáu þessa útreikninga, sem törvelt var að mótmæla. Og allmjög stungu niðurstöður Sigurðar í stúf við fullyrð- ingar síra Arnljóts fáum árum áður, að skógar væru ekki til gagns og naumast til prýði. Ritgerð Sigurðar er rökföst og samin af áhuga og staðgóðri þekkingu, og þeim framkvæmdahug, sem ætíð einkenndi höfund hennar og skipaði honum í fararbrodd íslenzkra rækt- unarmanna á fyrstu áratugum aldarinnar. Þegar hér var komið sögu, hafði Sigurður numið skógrækt í Noregi og síðar en ekki sízt haft forstöðu um stofnun fyrstu trjáræktarstöðvarinnar á íslandi, sem gerð var að undirlagi Páls Briems amtmanns á Akureyri. Þá hafði Sigurður einnig skrifað grein um skógrækt í Búnaðar- ritið og bent þar á möguleikana á að flytja inn erlendar trjátegundir. Er þar einnig í fyrsta sinn færður fram raunsær grundvöllur í því efni með samanburði á lofts- lagi og öðrum lífsskilyrðum hér á landi og ýmsum stöðum í Noregi. En þessi fyrstu afskipti Sigurðar af skógræktarmál- unum voru einungis inngangur að öðru meira. Árið 1903 var Ræktunarfélag Norðurlands stofnað, og var vinna hafin í tilraunastöð þess þá um vorið. Frum- kvæðið að stofnun þess átti Sigurður Sigurðsson, varð hann nú fyrsti framkvæmdastjóri þess og sá maðurinn, sem markaði tilraunastarfsemi félagsins um alllangt skeið. Einn höfuðþátturinn í tilraunum félagsins fyrstu árin var trjáræktin. Auk sinnar eigin gróðrarstöðvar fékk félagið til eignar og umráða hina eldri trjárækt- arstöð, þegar amtsráðin voru niðurlögð, en þar höfðu trén dafnað vel undir umhirðu og gæzlu Jóns Chr. Stephánssonar timburmeistara. Það sýnir í nokkru stefnu Sigurðar í Ræktunarfélaginu, að þegar í fyrsta ársriti þess birtir hann Leiðarvísi um gróðursetningu tfjáa í kringum bæi. Um nær 20 ára skeið var mikið kapp lagt á tilraunir með trjárækt í gróðrarstöð Rækt- unarfélags Norðurlands. En síðar dró úr þeim, og þær lögðust niður, bæði þegar önnur verkefni kölluðu að, og aðrir aðilar tóku að fara með þau mál. En fyrstu tvo tugi aldarinnar voru tilraunirnar á Akureyri meðal hinna merkustu trjáræktartilrauna í landinu. Og þótt þeim væri minna sinnt síðar þá uxu þar viðarteinungar úr grasi og ukust að laufi og limi, og vöktu undrun og aðdáun þeirra, er sáu, meðan enn var lítið um erlendan trjágróður í landinu. Alls voru reyndar um 20 teg- undir erlendra trjáa í Gróðrarstöð Ræktunarfélagsins. Fíafa margar þeirra náð góðum þroska, og var þó síð- ur en svo, að vel væri ætíð vandað til um val stofna og heimkynni þeirra. í ársskýrslum félagsins er greint frá þeim árangri, sem náðist, en langfyllsta skýrslan um það efni er eftir Jakob H. IJndal 1916. Eru í henni margar merkar athuganir sprottnar af reynslu þessara fyrstu ára stöðvarinnar. Meðal annars má nefna það að ársvöxtur grenis og þó sérstaklega lerkis hafði reynzt fyllilega sambærilegur við ýmsa staði í skógræktarlönd- um erlendis. Margar ágætar athuganir eru þar um vöxt trjánna, og þær hættur, sem að þeim kynnu að steðja, hversu unnið skuli að trjárækt og hvað helzt beri að varast, samkvæmt fenginni reynslu. Var það hvort tveggja að Jakob var maður athugull og hinn bezti til- raunamaður, og mátti því treysta orðum hans. Hann hvetur menn mjög til trjáræktar, en gerir þó í fyrstu einkum ráð fyrir trjárækt við bæi og hús. Hann dregur þá ályktun af fenginni reynslu, að hér megi rækta bæði birki og lerki sem skógartré í ábataskyni, og telur lík- lcgt að svo verði gert í framtíðinni. Einnig bendir hann á að enn muni vera óíundin lönd, sem vænlegt væri að sækja trjáplöntur til, og hefur þar einkum Norður- Canada og Alaska í huga. Hefur hann reynzt sannspár í flestu af því, er hann ræðir í þessari ritgerð sinni, og er því vert, að henni sé á loft haldið. Greinina endar Jakob á hvatningarorðum til manna um að efla trjá- ræktina og segir að lokum: „Það er eitt menningaratriði og menningarmark þessarar þjóðar, hvernig það tekst.“ Lítill vafi er á því, að trjáræktin hjá Ræktunarfélagi Norðurlands ásamt hvatningarorðum þeirra Sigurðar Sigurðssonar og Jakobs H. Líndal átti drjúgan þátt í að skapa trjáræktaráhuga á Akureyri, sem varð mjög al- mennur um skeið, þótt hann dofnaði síðar. En ekki vakti árangurinn, sem náðist í Gróðrarstöðinni nokkra áhugaöldu lengra frá. Og enn voru þeir margir, sem börðu höfði við stein og sögðu, að ekkert væri að marka þótt tré gætu vaxið við „alla virt“ þar í garði Gróðrarstöðvarinnar. Þau myndu allt eins kala og deyja, þegar þau væru komin út á landið. En þeim góðu mönnum gleymdist að líta í gilbrekkuna efst f Gróðrarstöðinni, þar sem barrskógur óx og dafnaði hægt en slysalaust án nokkurrar umhirðu annarrar en friðunar. Framhald. Heima er bezt 127

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.