Heima er bezt - 01.08.1978, Page 31

Heima er bezt - 01.08.1978, Page 31
bæjarsund eins og venjulega, þegar hann taldi hættu á ferðum. Hænsnin, sem áttu bækistöð á girtum palli yfir kálfastíunni, fengu ekki að fara út fyrr en gauraganginn lægði. Þau görguðu og skræktu af öllum kröftum. Goði drundi og haninn galaði eins og einsöngvari í blönduðum kór. Valgerði varð að orði: — Þetta eru nú meiri vortón- leikarnir og ekki allar raddirnar jafn fagrar. — Nei, sagði Snæbjöm, — Þær eru allar jafnljótar. — Brói; Að þú skulir segja þetta, sagði systir hans stórmóðguð. — Mér þykir svo indælt að hlusta á þetta allt saman. Heyrirðu ekki líka fuglasönginn og sérðu ekki að sólin er farin að skína á allt og alla? Þetta er svo dásamlegt, að ég get ekki lýst því. — Þú með alla þína rómantík, sagði bróðir hennar stríðnislega og hló. — Svona eru þessar stelpur alltaf. — Bíddu bara; hvæsti Þrúða. — Ég skal svei mér taka í lurginn á þér og þar með flaug hún á hann og var svo snögg að hann var dottinn á rassinn, áður en hann vissi af. Sem betur fór lenti hann ekki í fjóshaugnum, heldur rétt hjá honum. — Ef ég hefði dottið í forina, hefðir þú farið þangað á eftir, sagði hann ískyggilega rólega. — En þú sleppur í þetta sinn. Annars var ég bara að stríða þér. Ég hef gaman af þessu. Séra Halldór kvaðst ennþá hafa mikla ánægju af þessu líka sem hann kallaði skemmtiþátt vorsins og enginn vildi missa af. Nú fóru eldri kýrnar að lýjast og finna gróður- ilminn, sem var svo heillandi, að þær hættu öllum galsa og fóru að narta í grængresið. — Æ, nú er ekkert gaman að þessu lengur, sagði Hannes. — Þær eru eins og virðulegar frúr í kaffiboði. — Við látum þær vera á túninu fram að helgi sagði prestur- inn. Úthaginn er lítið sprottinn og það þarf að gefa þeim á kvöldin, en kálfamir mega liggja úti. — Komið þið nú öll inn, sagði frúin. — Fáið ykkur kaffi. Mér er satt að segja ekki of heitt. Á borð var borið smurt flatbrauð og stærðar jólakaka, ásamt vel heitu, ilmandi rjómakaffi. — Við gerum okkur dagamun, þegar svona stórvið- burðir eiga sér stað, sagði frúin og brosti. — Mér dettur í hug, að stundum hafi nú verið hrópað ferfalt húrra af minna tilefni en þessu, en við sleppum því nú. — Já, sagði Þrúða. — Ef Brói hefði dottið í mykjuna, skyldi ég hafa hrópað að minnsta kosti fimm sinnum húrra. — Ekki nema einu sinni, sagði bróðir hennar. — Þú hefðir verið komin þangað sjálf áður. — Hættið þessu pexi börn, sagði frúin myndug. En með sjálfri sér kímdi hún. Hún vissi sem var, að þau máttu hvorugt af hinu sjá og kom vel saman, þótt þau tækju smábrýnur og væru langt frá sammála um alla hluti. Nú yrðu þau senn fullorðin og þá tækju önnur viðhorf til lífsins hugi þeirra, eins og gengur. 18. KAFLI Nú fór í hönd erfið og annasöm vika í Hvammi og unnið af kappi utanbæjar og innan. Gleði og eftirvænting lá í loftinu og örvaði fólkið til starfa. — Hér er mikill gestaþefur, sagði Kristján og strauk skeggið ánægjulegur í bragði. Hreingerningar voru langt komnar og eftir helgina átti að ganga varpið. — Við náum þessu öllu og meiru til, sagði Þrúða, sem dró ekki af sér. Á kvöldin laumuðust stúlkumar fram á bæjarloftið, leyndardómsfullar á svip. Jafnvel Hannes fékk ekkert að vita Hann stríddi þeim óspart og hélt því fram að þær stunduðu kukl og væru langt komnar með að vekja upp draug að dæmi Sæ- mundar fróða, sér til aðstoðar við húsverkin. Þær væru þeir dæmalausu amlóðar, sem engu kæmu í verk. Þrúða sagði mjög alvarleg, að hann skyldi tala varlega, annars sendu þær á hann púkann, strax og hann væri orðinn nógu magnaður. Hún útmálaði þetta svo sann- færandi, að honum leist ekki á blikuna. En forvitnin kvaldi hann eftir sem áður. Von bráðar komst leyndarmálið upp. Einn morguninn mættu stúlkumar óvenju hátíðlegar á svipinn, en bros- glampinn í augunum leyndi sér ekki. Þær voru allar í hinum, ókvenlegu og ósiðlegu síðbuxum. Hannes rak upp stór augu, en hann steinþagði. — Þú ert eins og þú hafir séð draug, sagði Þrúða og gretti sig framan í hann. — Þessi útgangur á ykkur er á við meðal draug, ansaði hann. — Þið eruð eins og skoffín í þessu. — Gott hjá ykkur stúlkur, sagði Kristján og sló á lærið — Þið látið ekki sitja við orðin tóm. Frúin kom inn í þessu og gleymdi að bjóða góðan dag, er henni varð litið á dóttur sína. Hún horfði á þær feins og strangur rannsóknardómari á sakamenn. Auðséð var að henni líkaði framtakssemi þeirra ekki alltof vel. — Fyrst þið viljið endilega klæðast eins og „arabiskir heiðingjar“ og villimenn, þá þið um það. En ég bið ykkur að muna það, að ég leyfi ykkur ekki að fara af bæ í þessari „múnderingu". Hún þagnaði og varp öndinni, og bætti við: — Guð veit hvort þetta er ekki eitt af því er koma skal. Ég efast ekki um að þægilegt sé að vinna í þessum klæðnaði bæði úti og inni, en best mun hann henta að vetrinum í fann- fergi og gaddi. Þrúða leit þakklátum augum til móður sinnar. Frúin brosti með sjálfri sér yfir þessu einstæða uppá- tæki þeirra. Dísa var hálf miður sín og tók í huganum á sig alla sök. Ranka leit hikandi en örlítið sposk til Sigurbjöms, en hann brosti aðeins og horfði með velþóknun á hina ítur- vöxnu, æskubjörtu blómarós, er roðnaði undir heitu augnaráði hans. Heima er bezt 279

x

Heima er bezt

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.