Heima er bezt - 01.08.1983, Qupperneq 11

Heima er bezt - 01.08.1983, Qupperneq 11
Um áratugaskeið hafði faðir minn á hendi póstferðir um Eyjafjörð og vöruflutninga á hafnir norðanlands. Að sumrinu gengu ferðir þessar oftast vel, en ísasumurin 1915 og 1916 var oft erfitt að fara þessar ferðir, þurfti að þræða milli jaka stundum heilu dagana, og var báturinn oft í mikilli hættu, þar sem straumur var mikill í firðinum. Oft komumst við ekkert áfram og urðum að liggja dögum saman, svo sem við Hrísey, Hjalteyri, Hlaðhamarsvík og víðar, einkum þegar norðan stormur var, þá þjappaðist ísinn saman og oft fylgdi norðanáttinni hríðarveður, þótt sumar væri. Isinn var oftast þéttastur á innanverðum firð- inum og erfiðast að fara þar um, gat komið fyrir að heill dagur færi í að komast frá Oddeyrinni og út fyrir Sval- barðseyri. Til þessara ferða hafði faðir minn 3 báta, sem notaðir voru jöfnum höndum, eftir því hvernig á stóð. Að frátöldum isaárunum get ég ekki sagt að við lentum í verulegri hættu nema einu sinni. Það var að hausti til og við vorum komnir út í Ólafsfjörð, á leið til Siglufjarðar. Gríðarlegur stórsjór var og lítt fært inn og út fjörðinn, en logn var. Þótti ekki ráðlegt að fara til Siglufjarðar fyrr en birti að morgni. Var þá sami stórsjórinn, en ennþá logn. Út af Siglunesi mættum við stórum norskum kútter á heim- leið. Við vorum að beygja fyrir Helluna, þegar ofsastormur af norðri brast á. Hefði hann komið lítið eitt fyrr, hefðum við ekki þurft að kemba hærurnar, því þarna var kominn einn af verstu haustgörðum norðanlands, og lágum við veðurtepptir á Siglufirði í marga daga. En af norska skipinu, sem við mættum, er það að segja, að það fannst á hvolfi suður af Grímsey, eftir garðinn. Grímseyingar reyndu að draga það á bátum sínum til eyjarinnar, en það tókst ekki, enda ekki nema um litla mótorbáta að ræða. Óli Bjarnason í Grímsey var einn af þeim, sem fóru út að skipinu, og ræddi ég við hann síðar um þetta mál. Eftir 1 eða 2 sólarhringa var skipið horfið, mun hafa sokkið. Úr því að minnst er á Grímsey, kemur mér í hug eftir- minnileg ferð þangað. Grímseyingar fóru kaupstaðar- ferðir til Akureyrar, aðallega vor og haust. Á vorin með egg og dún en á haustin með fugl og sjávarafurðir. Sendi faðir minn bát í þessar ferðir um árabil. Nú fór báturinn út í Grímsey eitt haustið, en þá skall á eitt af þessum alþekktu norðanveðrum með stórhríð. Þegar báturinn kom ekki heim á tilsettum tíma, var hann talinn af, því vitað var að við Grímsey gat hann ekki verið ofansjávar íslíku veðri. Þar var þá engin höfn, og um nothæfar hafnir á heimleiðinni var ekki að ræða, að okkar dómi. nema þá Hrísey, en þangað var hægt að ná í síma. Liðu svo um 3 dagar að ekkert fréttist um bátinn. Eftir garðinn kemur báturinn allt í einu fyrir Oddeyrar- tangann, og trúðu menn vart sínum augum. Ferðalagið gekk þannig, að rétt eftir að farið var frá Grímsey, hvessti skyndilega og jós upp sjó og stórhríð að skella á. Ekki var viðlit að snúa við og að halda áfram inn fjörðinn var einnig talið vonlítið. Var því reynt að ná Þorgeirsfirði, því með því móti væri kannske hægt að bjarga fólkinu, sem var talsvert margt. Þetta tókst og var lagst við tvenn legufæri og bjuggust menn við hinu versta. Þrátt fyrir mikinn storm og hafsjó lá báturinn af sér garðinn. I bátnum var fjöldi Grímseyinga, eins og fyrr segir, ásamt skipshöfn en skipstjóri var mágur minn Jón Halldórsson, reyndur skipstjóri. Þorgeirsfjörður er opinn fyrir hafátt, en grynnsli í fjarðarkjaftinum, sem taka af mesta stórsjóinn. Þarna var nú legið af sér storminn og hríðina, við hinn versta aðbúnað. Þetta var að vísu nokkuð stór bátur, en að hálfu opinn og aðstaða til svona tafar því lítil sem engin, en allir sluppu heilir á húfi til Akureyrar. Ekki bætti það úr áhyggjum okkar um bátinn að hundur, sem vélstjórinn átti og alltaf hafði fylgt honum í öllum ferðum um sumarið, hljóp burt og hvarf, þegar fara átti frá bryggjunni á Akureyri. Sumarið eftir frostaveturinn 1918 var grasspretta afar léleg hér Norðanlands. Faðir minn átti tún hér ofan við bæinn, þar sem nú er hluti af Þórunnarstræti, og hafði 2 kýr, til þess að hafa næga mjólk til heimilisins, sem var mannmargt. Nú var sýnilegt að ekki myndi fást meira en eitt kýrfóður af túninu það sumarið, og fékk hann því leigðar slægjur í Drangey á Skagafirði. Fór hann svo með piltum sínum á einum af flutningabátum sínum vestur til heyöflunar og vorum við Einar bróðir minn þá 15 ára og ég með í ferðinni. Farið var með fullfermi af skepnufóðurs síld, sem skipað var upp á Selvík á Skaga og þar voru fengnir 3 vanir sláttumenn til aðstoðar. Heyskapurinn í Drangey gekk vel. Skagamennirnir slógu, en við rökuðum saman og bundum heyið blautt. Erfiðast var að koma böggunum niður í bátinn. Það heppnaðist ekki að henda bagga fram af bjarginu, niður í fjöruna, hann tættist í sundur á leiðinni niður. Varð því að renna böggunum niður í bátinn á tvöföldum vað, en til þess þurfti að flytja bátinn austur fyrir eyjuna. Faðir minn fékk 3 systursyni sína frá Nöf við Hofsós til aðstoðar við að koma heyinu niður í bátinn og voru þá 11 manns, sem unnu við þetta. Við bræðurnir vorum í bátn- um, ásamt skipstjóranum. Tókum við á móti böggunum, leystum þá og tróðum í lestina, á meðan hún tók við, en á þilfarið settum við baggana óleysta. Fjórir dagar fóru í heyskapinn, þar af einn dagur við að renna niður böggunum. Síðan var sláttumönnunum skilað upp á Skaga og haldið heim. Var heyið þurrkað á túni, þar sem nú er Geislagatan, og reyndist það afbragðs fóður. Heimaerbezl 243

x

Heima er bezt

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.