Heima er bezt - 01.08.1983, Qupperneq 28
UM HÖFUNDINN
Höfundur frásagnarinnar, Magnús Árnason, fæddist í Reykjavík
16. júní 1884 og lést í Vesturheimi 12. sept. 1953. Foreldrar
hans voru þau Árhi Magnússon og Elín Sighvatsdóttir, en hann
missti þau snemma og var tekinn í fóstur hjá fjölskyldu Benedikts
Sveinssonar, alþingismanns. Þar var hann samtíða syninum,
Einari Benediktssyni skáldi, og varð þeim vel til vina. Magnús
mótaðist af þessu mikla menningarheimih og varð sérstaklega
ljóðelskur. Hann hélt til Danmerkur með Einari, fullnumaði sig
í danskri tungu og mun þar einnig hafa lært iðn sína, húsa-
málun.
Magnús Árnason kom til Kanada árið 1911, þá 26 ára að
aldri. Strax á fyrsta árinu varð hann fyrir þeirri harkalegu lífsreynslu
sem hann lýsir á þessum minnisblöðum.
Árið 1911, 29. marz, fór ég frá Islandi til Kanada. Þá var
ég 26 ára gamall í atvinnuleit, eins og fjöldinn sem til
Kanada flutti á þeim árum.
Um miðjan apríl byrjaði ég að vinna, fyrst með skóflu við
kjallaragröft að húsum. Það var vinna sem margir snið-
gengu hér í Winnipeg, þótti nokkuð erfið og þar af leiðandi
oft fáanleg.
Ekki get ég sagt að mér félli sú vinna vel. svo ég gaf það
bráðlega upp, og byrjaði að mála hús, því það hafði ég lært
dálitið í heimalandinu. Það var mjög mikið byggt hér í
Winnipeg, en það entist bara sumarmánuðina, og um
haustið, eða um miðjan nóvember var orðið svo kalt að allir
hættu við þá iðn, og þá var ekki um annað að gjöra en vinna
eitthvað annað, því eins og sakir stóðu þá dugði ekki að
leggja árar í bát, því ekki var kaupið svo hátt í þann tíma að
mikið yrði lagt fyrir.
Við vorum þrír landarnir að heiman sem héldum hóp-
inn, Guðmundur Filippusson og bróðir hans, Filippus
Filippusson, sem kom á sama skipi og ég að heiman. Guð-
mundur kom vestur árið áður og stundaði húsamálningu
hér, en Filippus var við pipulagningar. Við ræddum um
það hvað nú tæki við yfir veturinn, og okkur kom saman
um það, að við yrðum að fara að leita eftir vinnu utan
bæjarins, og það var aðeins um þrennt að velja: fiskiveiðar
á Winnipeg-vatni, bændavinnu, —hirða um nautgripi, eða
þá út í skóg fyrir járnbrautarfélag.
Okkur var sagt að vinnan á vatninu væri köld og vond í
alla staði, sem var þó ekki rétt — ég hef reynt það síðan og
kann ekkert illa við þá vinnu, og sé nú eftir að ég skyldi ekki
taka hana. Bændavinnan var illa borguð og við henni ekki
vanir, svo við létum hana eiga sig. Okkur leist nú skárst á
skógarhöggið, og ásettum okkur að reyna það og láta þar
við sitja. Og svo göngum við niður í bæ og sjáum þar
auglýsingu ískrifstofuglugga:„Gooí/a.x'me« wanted — $50
dollars a month. “
Okkur leist vel á kaupið, og vorum þá ekkert að hugsa
um að við kunnum ekki neitt með exi að fara. Félagið
bauðst til að borga fargjaldið aðra leiðina. sem var $ 15
dollarar að enda járnbrautar og svo var tekið fram að ganga
þyrfti 30 mílur frá brautarenda að kofunum sem við áttum
að halda til í. Og þriggja mánaða tíma urðum við að vinna
þar í það minnsta, og það skrifuðum við undir. Þetta var nú
nokkuð djarft af okkur, þar sem við kunnum ekki neitt til
þessarar vinnu, en réðum okkur sem þaulvana menn. Það
var sem þá vantaði, og kaup var ekki borgað nema góðum
mönnum. Við vorum fullir af æskuþrótti og vanir að vinna
harða vinnu — og allir á bezta aldri, og okkur fannst það
vera nógu góð meðmæli til að byrja með.
Okkur var sagt að hafa með okkur teppi til að sofa við og
skammbyssu til að verja okkur fyrir úlfum í Ontario-skóg-
unum, en þangað áttum við að fara. Og ferðbúnir áttum við
að vera 22. desember, þá bjuggust þeir við að vera búnir að
fá þessa 60 menn sem þá vantaði — matreiðslumenn,
hestamenn og fleira.
Svo kom dagurinn, kaldur og hreinn, frostið var 30 fyrir
neðan —sem þeir kalla hér. [Aths. -^30° Fahrenheit =
u.þ.b. -t-35° C]. Snemma morguns er okkur pakkað inn í
C.N.1 járnbrautarvagninn, og þar ægði öllu saman:
Norskum, sænskum, frönskum, Belgum, Finnum. Göllum
og Negrum. Það þótti okkur löndunum heldur ruddalegur
lýður og lyktin ekki sem bezt, og átti þar bezt við eins og
kallinn sagði: „Það var hart að velja um andrúmsloftið, því
saman blandast súrt og þykkt, svita-, hland- og skítalykt.“
— Og ofan á allt þetta bættist, að fjölda margir voru
drukknir og orðbragðið ekki heflað. eins og oft vill verða
þegar Bakkus er annars vegar.
Ferðin gekk slysalaust til St. Johns.2 Það hét smábær og
þar endaði járnbrautin. Það var farið að skyggja og við
sáum ekki vel hvernig þar hagaði til. En hótelhjallur var
þar, sem allir ruddust inn í og gólfplássið rétt mátulegt fyrir
okkur alla. Þar lágum við hlið við hlið í öllum klæðum og
var það lítið betra en úti, því allir urðu að standa upp af og
til og berja úr sér hrollinn.
Um morguninn var staðið upp kl. 6 og borðað í flýti. og
svo lagt af stað út í snjóinn sem tók í miðjan legg. og nú átti
að ganga 30 mílur, sem urðu okkur nokkuð erfiðar og
langar. færðin þung, ótroðinn snjór og upp hæðir að ganga.
Okkur kom saman um að brjóta slóðina til skiptis og ganga
svoleiðis hver á eftir öðrum. Þann dag gengum við allan án
260 Heimaerbezt