Muninn

Volume

Muninn - 01.11.1996, Page 22

Muninn - 01.11.1996, Page 22
Skáldsagan er nefnilega víöfemt form, þar er mönnum ekkert mannlegt óviðkomandi. Þá er það ekki síður merkilegt hvernig menn reima skóna sína heldur en þessar stóru og miklu tilfinningar. Á mælistiku skáldsögunnar skiptir allt máli. Skömmu eftir að þú lýkur prófi í bókmenntum og sagnfræði gefur þú út tvær Ijóðabækur. Stóð þér aldrei beygur af hörðum heimi rithöfunda? Nei, nei. Þegar ég var að byrja að skrifa, þá var mjög mikil frjósemi í loftinu, mikið að gerast. I upphafi 9. áratugarins komu nýir tónar inn í bókmenntirnar. Ég held að margir á mínum aldri, fólk á ýmsum sviðum lista, í bókmenntum, tónlist og myndlist, hafi mörgum fundist að okkar tími væri kominn eins og hjá Jóhönnu Sigurðardóttur. Okkur fannst við hafa önnur skilaboð en þeir sem voru á undan okkur. Þess vegna held ég að mörgum hafi fundist upp renna spennandi, ögrandi og skemmtilegur tími. Ljóðabækurnar voru að koma, pönkbylgjan var í gangi, miklar sviptingar og pólitísk barátta í gangi. Þá bjó ég líka í Kaupmannahöfn. Þar átti sér stað mikið uppgjör í bókmenntunum. Jafnaldrar mínir létu í sér heyra. Þó þessir menn þekktu ekki hvern annan þá var einhver skyldleiki þarna á ferð. Kynslóðin á undan okkur sem menn hafa kallað '68 kynslóðina hafði barist fyrir gildum sem mér þykir fullrar virðingar verð, en samt sem áður mátti hugsanlega leita skýringanna þangað, því jafn frjó og þau voru, var komin einhver ógurleg stöðnun í þann pólitíska þankagang sem þessi kynslóð var fulltrúi fyrir. Þetta birtist í því sem menn kölluðu nýraunsæi í bókmenntum eða social realisma sem byggðist á því að bókmenntirnar áttu að vera málpípur sjónarmiða. Áttu að setja fram ákveðin viðhorf sem leiddu hið sanna í Ijós. En eins og ég hef verið að segja þá er það ekki hlutverk bókmenntanna. Þeirra verksvið er meira þessi leit mannsins að sambandi við heiminn. Svörin sem þessi kynslóð á undan var með, ekki bara í bókmenntunum heldur í þjóðfélagsumræðu og þankagangi var svolítið einsleit. Svo kemur fyrirbæri eins og pönkið sem var svolítið eldgos í þetta allt. Það tengist eldri listformum eins og futurismanum í rússnesku byltingunni og súrrealismanum síðar. Auk þess hafði ég alltaf verið mjög hrifinn af hinum svokölluðu íslensku atómskáldum og þessum nútímahöfundum. Sem unglingur hafði ég mikið lesið Guðberg Bergsson og Thor Vilhjálmsson. Það var miklu meira púður í þeim bókmenntum en þessum félagsmálastofnunarbókmenntum. Sem unglingur hafði ég lesið mikið af bókmenntum sem einhvers konar pólitískan rétttrúnað. Fimmtán ára gamall las ég Halldór Laxness og Þórberg Þórðarson sem kommúnistaáróður en síðar sem bókmenntir. Þessi pólitíski boðskapur er orðinn aukatriði, þótt hann sé þarna og allt í lagi með það. Hvernig hafa gagnrýnendur tekið þér og þínum verkum? Það hefur verið skrifað mikið um bækurnar í áranna rás af því þær hafa verið gefnar út í fleiri löndum og þannig fengið mikla umfjöllun. Það er náttúrulega atvinnusjúkdómur að höfundum finnst þeim alltaf verið illa tekið. Höfundar eru alltaf að agnúast út í gagnrýnendur en með tímanum verða þeir rólegri gagnvart gagnrýni. Mér finnst gagnrýnendur verði að hafa sitt svigrúm og sitt frelsi. Ég er ekkert ósáttur við þá eða þeirra umfjöllun. Það var að vísu á tímabili að ákveðnir aðilar voru uppteknir af að kyngreina bókmenntirnar. Þá vorum við karlhöfundar fulltrúar einhverskonar strákabókmennta og konur áttu að skrifa dýpri bókmenntir. Þessi andstæða var eins og stærðfræðiformúla, fundin upp í dósaverksmiðju. Ég held að karlar og konur séu að skrifa á nákvæmlega sömu forsendum, séu í svipaðri leit. Síðan voru menn að agnúast út í það að höfundar notuðu t.d. bernsku sína, það þótti voðalega ófínt. Ef menn gleyma bernskunni þá daga þeir einhvers staðar uppi á reginfjöllum um haustnótt. Það er alltaf verið að búa til formúlur og setja upp einhverjar umferðarreglur sem orðin eiga að aka eftir en það er hlutverk orðanna að brjóta allar slíkar reglur. Svona dillur ganga alltaf yfir. Höfundurinn verður að hafa skráp til að taka við þessu og vera bara pollrólegur. Er þetta þá ekki eitthvað sem þú byggir upp með aidrinum og reynslunni ? Ef að menn eru sannfærðir um eitthvað, eins og t.d. ég sem kem úr vinstri öfgahópum eins og Fylkingunni, kann maður vel við að vera í minnihluta. Þegar stjórnmálasamtökin sem ég var í buðu fram í kosningum fengu þau 149 atkvæði og mér þótti nú bara stíll yfir því. Áttu þér einhvern uppáhalds rithöfund ? Þeir eru gríðarlega margir. Ég hef nefnt Laxness og Þórberg og Guðberg og Thor. Það má heldur ekki gleyma Gunnari Gunnarssyni og fjöldanum öllum af íslenskum sagnaskáldum og sama gildir um Ijóðlistina. Ég byrjaði að lesa bækur Sigfúsar Daðasonar sem unglingur. Ætli það séu ekki þær bækur sem ég er alltaf að lesa, þótt þær séu ekki miklar að vöxtum eða blaðsíðutali. Maður gæti líka nefnt fleiri Ijóðskáld, alveg frá rómantísku skáldunum Jónasi Hallgrímssyni og svo skáld eins og Tómas Guðmundsson sem ég er mjög hrifinn af og Stein Steinarr. Fornsögurnar les ég alltaf og einstaka bókmenntaverk, hreinar perlur eins ævisögu Tryggva Emilssonar sem hefst hér á Akureyri. Þannig mætti lengi telja. Erlend skáld spanna allt frá rokkskáldum upp í há-klassísk skáld, allt frá John Lennon og Bob Dylan upp í William Shakespeare og fæ ég jafn mikið út úr hvoru tveggja. Ég hef síðan verið mjög hrifinn af seinni tíma sagnaskáldum, þjóðverjanum Gunther Grass og Kólumbíumanninum Gabriel Garcia Marquez. Við getum einnig nefnt Borges og fleiri og fleiri. Ég hef verið mjög upptekinn af Norðurlandahöfundum. Einn af mínum uppáhalds höfundum er Færeyingurinn William Heinesen. Er enginn einn rithöfundur sem þú getur bent á og hefur fylgt þér lengi ? Ég nefndi Sigfús Daðason. Eins liggur maður alltaf í verkum Halldórs Laxness og er alltaf að lesa hann út frá ýmsum sjónarhornum. Seinni árin hef ég ekki aðeins verið hrifinn af honum sem miklu sagnaskáldi heldur líka sem ritgerðasmið. Ég er mjög hrifinn af ritgerðum hans þar sem blandað er saman þekkingu og skáldlegu hugarflugi. Ekki beint vísindalegt en byggist á langri sögulegri þekkingu, miklum lærdómum sem menn hafa dregið t.d. út frá sagnalist og mannþekkingu sem ekki verður vigtuð og mæld. Það sem er t.d. áhugavert við höfund eins og Halldór Laxness er hve víðfemur hann er, hann er nánast á öllum sviðum. Þaö er svo stórkostlegt fyrir okkur að hafa slíkan höfund. Það var talað um það hér áður að skrifa í skugganum af Laxness og erlendis var ég einhvern tímann spurður um þetta. Ég sagðist aldrei hafa séð neitt nema sólargeisla frá honum. Maður lítur á hann sem jákvæðan áhrifavald. Laxness hefur samt aldrei haft áhrif á mig í þá veru að ég væri að reyna að skrifa eins og hann eins og oft henti unglinga að ætla að verða eitthvað voðalega hátíðlegur. „Ungi maðurinn stendur á brautarstöðinni og skimar í allar áttir" og eitthvað svona. Þetta er bara heil akademía, íslenskar bókmenntir og öll okkar sagnahefð. [22] MUNINN HAUST 1996

x

Muninn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Muninn
https://timarit.is/publication/429

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.