Muninn

Árgangur

Muninn - 01.11.1996, Síða 41

Muninn - 01.11.1996, Síða 41
AA.alawi er land sunnarlega í Afríku. Þar búa margar milljónir manna við allt önnur lífsskilyrði en við eigum að venjast. Svo ef þið viljið halda áfram að ímynda ykkur frumskógarrómantík í Afríku, þá skuluð þið ekki lesa lengra. Ykkur til gleði og yndisauka tók ég viðtal við piltung nokkurn hér í skóla sem fór og upplifði hina raunverulegu Afríku. Magnús Dagur Ásbjörnsson bjó í rúmlega tvö ár í Lilongwe, höfuðborg Malawi ásamt fjölskyldu sinni. Ásbjörn pabbi hans vann við þróunarverkefni þar og fylgdi fjölskyldan honum út. Þau bjuggu í húsi byggðu úr múrsteinum sem var þannig að hurðir pössuðu ekki endilega í dyrnar, froskar, köngulær, rigning og rok áttu greiða leið inn og út. Rafmagnið kom og fór annars lagið eftir eigin hentugleik og vatnið úr krönunum varð að sjóða og helst sía áður en það varð drykkjarhæft. Maggi gekk í breskan skóla og kynntist ekki sálarlífi innfæddra strax þar sem hann nýfermdur varð að einbeita sér að því að læra ensku áður en hann gæti byrjað að hafa mikil samskipti við þá. Magnús var í bekk með krökkum frá fjölmörgum þjóðlöndum af öllum kynþáttum og trúarbrögðum. Þar lærði hann hvað mest af samskiptum sínum við bekkjarsystkini sín burtséð frá námsefninu. Maggi kvað það ekki hafa verið erfitt að kynnast þeim þar sem þau voru vön því að fá nýja öðruvísi krakka í bekkinn og þrátt fyrir byrjunarörðugleika hafi hann strax eignast góða vini sem hann heldur ennþá sambandi við í dag. Innfæddum kynntist Magnús samt, en þó aðallega í gegnum fólkið sem vann á heimili hans. Nú gætu sumir hugsað: „ Já, var bara lifað flott eins og nýlenduherrar?" En þannig var það nú ekki. Fjölskyldan reyndi að hafa sem flesta í vinnu og borga þeim eins mikið og þau höfðu efni á bara til að halda friðinn og koma í veg fyrir öfund í bænum. Þau höfðu næturvörð, garðyrkjumann, kokk og þvottakonu (það ber að taka það fram að þó að það hafi ekki verið stráþak á bústað Magnúsar, þá var engin þvottavél til). Garðyrkjumaðurinn James er Magnúsi sérstaklega hugleikinn. Hann var frábær manngerð og varð mikill vinur heimilisfólksins en það var vegna hans sem þau kynntust mikið siðum og venjum innfæddra. Garðyrkjumaðurinn dó í bílslysi og fjölskylda Magnúsar hjálpaði til við að undirbúa útförina. Eftir hana voru þau í miklu betri tengslum við fólkið í þorpinu. Seinna frétti Maggi að besti vinur James sem hann kynntist við útförina hefði eignast son og skírt hann James Magnús. Malawar eru eins og annað fólk. Það þarf að vinna traust þeirra og líklega var fjölskylda Magga mjög hjálpleg því að vandamál þjónustufólksins voru á endanum orðin daglegur hausverkur heimilisfólksins, til dæmis voru þau beðin að leggja blessun sína yfir ástarsamband kokksins áður en hann gifti sig. Hrollkaldur veruleiki í heitu Afríku. Maggi vann sem sjálfboðaliði í einu besta sjúkrahúsi landsins á vegum skólans. Þar gerði hann sér best grein fyrir fátækt landsins og öðruvísi hugsunargangi íbúanna. Magnús var nú ekki bara látinn horfa á og þegja heldur var hann notaður við hin ýmsu störf. Einn daginn vann hann við að greina eyðnismit og af þeim 36 sem rannsakaðir voru þann dag voru 26 með alnæmisveiruna. Hann varð vitni að þvi þegar læknar urðu að útskýra fyrir sjúklingum sínum að læknismeðferðin sem þeir þörfnuðust væri það dýr að siðferðislega væri ekki hægt að réttlæta það að veita þeim hana. Fyrir sama pening væri hægt að bjarga mörg hundruð malaríusjúklingum og berklasjúklingum. Hann horfði líka á læknana reyna að sannfæra fólk um að sniðganga gamlar ættarvenjur til þess að bjarga lífi sínu. Eitt sinn kom höfðingi úr einhverju þorpinu með drep í fæti inn á spítalann. Læknarnir útskýrðu fyrir honum að það þyrfti að taka drepið af, þ.e.a.s. smá hluta af fætinum, en þeir urðu að fá samþykki hans fyrir því. Höfðinginn sagðist aðeins leyfa það ef sonur hans og erfingi samþykkti það líka. Það hefði kannski ekki verið nein fyrirstaða ef sonurinn hefði ekki verið vöruflutningabílstjóri úti á landi sem ekki var vitað hvenær kæmi heim og átti ekkert kalltæki. Drepið færðist alltaf ofar í fótinn og stefndi í að eyðileggja nýrun og drepa manninn að lokum. Eftir árangurslaust þref læknanna við karlinn var Maggi líka byrjaður að reyna að tala hann til í gegnum túlk og að lokum féllst hann á aðgerðina. Allir læknar sem áttu að koma nálægt skurðaðgerðinni hættu því sem þeir voru að gera og hófust strax handa því það lá á. Maggi var fenginn í það að halda í hönd mannsins og passa að hann ylti ekki af borðinu í átökunum því fóturinn var tekin af við nára, svo lengi hafði dregist að fá vilyrðið. Því miður var það um seinan, og læknarnir vissu það en þó lengdist líf hans um nokkur ár. Þessi dvöl á spítalanum hafði örugglega hvað mest áhrif á Magnús því áður hafði hann ekki getað hugsað sér að verða læknir en á eftir sá hann hvað hann gæti gert mikið gagn sem slíkur. Annars hyggur hann á nám í alþjóðasamskiptum og að vinna í framtíðinni að þróunarmálum. Þá gæti hann sameinað starf sitt og áhugamál sem er að ferðast og kynnast öllu mögulegu og ómögulegu í heiminum. [41] MUNINN HAUST 1996

x

Muninn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Muninn
https://timarit.is/publication/429

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.