Muninn

Árgangur

Muninn - 01.11.1996, Síða 71

Muninn - 01.11.1996, Síða 71
Hugvekja Það var árið 1972 er maður að nafni Helgi Hóseasson sá ástæðu til þess að segja sig úr lögum við gvuðinn og ésúinn. Hann sagði sig úr þjóðkirkjunni en gat með engu móti fengið skírn sína afmáða. Eftir að hafa mótmælt þessu lengi og ítrekað var hann dæmdur í geðrannsókn. Var þessi dómur hæstaréttar, með gvuðinn í stafni, óeðlilegur? Eða eru vegir hæstaréttar kannski jafn órannsakanlegir og vegir gvuðsins? Hvort heldur sem er þá ætti öllum að vera það fullljóst að afskipti ríkisins af trúmálum eru með öllu óafsakanleg. Sérstaklega þegar horft er til þess hversu sundurleit þjóðkirkjan er. Kirkjunnar menn koma sér ekki saman um það hvort gvuðinn sé karl eða kona eða þá hvort ésúinn hafi verið með Ijóst hár og liðað eða brúnt og hrokkið. Einnig er hörundslitur ésúsins á reiki. Vegir kirkjunnar manna, þegar kemur til þess að leysa vandamál, eru vægast sagt órannsakanlegir. Það sést best á nýlegum dæmum úr Langholtssöfnuði. Þar gengu illdeilur prests og organista svo langt að kirkjunnar menn tóku upp á því að senda prestinn, séra Flóka Kristinsson, úr landi. Svona vinnubrögð eru út í hött og þar að auki fokdýr. Það sést best á því að dvöl séra Flóka Kristinssonar í Beneluxlöndunum kosta íslenska ríkið um það bil 5 milljónir króna á ári. Nánast engin þörf er fyrir hann þarna og formaður Islendingafélagsins í Lúxemburg segir að á hverju ári fylli prestsþörfin upp í 3 dagsverk, það er að segja: 3 dagsverk á ári, krónur 5 milljónir fyrir hinn íslenska skattborgara. Er eitthvert vit í því að ríkið sé að eyða peningum skattborgaranna i það að reka trúfélag og greiða þannig leið fyrir fokdýrum lausnum vandamála, sem að ekkert lát virðist á að upp spretti? Svo virðist einnig sem kirkjunnar menn keppist um það að reisa sem stærstar kirkjur til þess að þær megi rúma sem mest af kærleika hins hvíta gvuðs, sem er víst svo mikill. Væri ekki ráðlegra að verja fjármunum þeim sem í þetta fara í uppbyggingu og rekstur spítala, skóla, vega, dagheimila, flugvalla, meðferðarheimila o.fl. o.fl.. Varðandi fermingar: Það stendur ekki stafkrókur í biblíunni um fermingu barna. Fermingin er gömul kaþólsk siðvenja sem var felld niður hér á landi við siðaskiptin, en var svo endurvakin á árunum 1736 -1745 sem einhverskonar lestrarátak eða fullnaðarpróf. Fermingin hefur sem sagt ekkert sérstakt gildi sem trúarleg athöfn og í raun er hún á undanhaldi hjá lúterskum kirkjum víðast hvar í heiminum. Ekkert brottfararsnið er þó á fermingunni hér uppi á íslandinu góða, enda hafa fermingar, i gegnum tíðina, ávallt gefið prestum drjúgan skilding í aðra hönd. Fermingin var áður fyrr og er enn í dag próf. Áður fyrr voru börnin prófuð i lestrarkunnáttu en nú fer prófið þannig fram að pressað er á börnin úr öllum áttum að ferma sig og svo er þeim heitið gulli og grænum skógum ef að þau láta að því verða. Það er sem sagt verið að athuga hversu auðveldlega þau ofurseljist mammoni og hans hyski. Fermingarumstangið er orðið úrkynjað og siðlaust. Ef að einhver skyldi sá vera til sem að ennþá heldur að fermingin, með tilheyrandi fjárútlátum, hafi eitthvert gvuðlegt gildi þá vinsamlegast gefi hann sig fram við lögreglu. Siðvenjur hafa ávallt skipað stóran sess í lífi voru, Frónara. Þess vegna þykir það alveg sjálfsagt mál að börn fermist við 14 ára aldur, þannig hefur það einfaldlega alltaf verið. En er það siðferðislega rétt að skíra börn við ungan aldur og bjóða þeim síðan upp á það að fermast við 14 ára aldur? Ljóst er að börnin eru ekki tilbúin að meðtaka trú 14 ára, því víst eru þau viðkvæm á því stigi lífsins og auðvelt er að hafa áhrif á einstaklinga á þeim aldri, áhrif sem vara alla ævi. Hefur meginþorri þessara einstaklinga þá einhverntíma eitthvert tækifæri til þess að velja og hafna samkvæmt sinni innri köllun? Einnig er Ijóst að á þessum aldri býður umhverfið sjaldan upp á mikil frávik, þess vegna eru einstaklingar sem kjósa að hafna fermingu oft litnir hornauga. Þetta vita menn vel og til þess að forða börnum frá óhóflegri drykkju og tóbaksneyslu, sem og annarri firringu, voru sett ákveðin lög sem banna börnum undir 16 ára aldri að reykja og vera úti á kvöldin. Einstaklingar undir 16 ára aldri eru einfaldlega ekki taldir vera nógu þroskaðir til þess að taka sínar eigin ákvarðanir. En eru [4 ára gömul börn i raun tilbúin til þess að helga líf sitt æðri máttarvöldum? Ég tel svo ekki vera. Ég er þeirrar skoðunar að banna ætti fólki undir 16 ára aldri (sjálfræðisaldrinum) að fermast. Best þætti mér einnig að skírnar/fermingaraldurinn yrði færður upp í 20 ár. Að þessu uppfylltu og að fokdýrum gjöfum slepptum þætti mér gaman að sjá hvursu margir myndu velja hinn mjóa grýtta veg gvuðsins takkfyrirogbless. [71] MUNINN HAUST 1996

x

Muninn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Muninn
https://timarit.is/publication/429

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.