Kirkjuritið - 01.06.1958, Page 12
250
KIRKJURITIÐ
austan Jórdan, og teygir sig suður eftir meðfram ánni og Dauðahafinu
allt suður undir Akabaflóa. Þarna, sem ég stend niðri á ströndinni, sé ég
ekki stórfenglegustu sýnina og J)á, er tignarlegasta lítur í Galíleu: Fjalla-
risann mikla í norðri, með snæhjálminn, sem lýsir eins og hvitagull uppi
í sólskini og bláum himinljóma, —- Hermon, fjall ummyndunarinnar. En
það blasir við eins og heilagur vörður í norðri, þegar komið er nokkuð
upp í hálsana, og hefir frá örófi alda verið eftirlæti og augnayndi Galíleu-
búa.
Nei, Genesaretvatn á engan sinn líka meðal stöðuvatna Norðurálf-
unnar. Það er löngu hætt að vera ævintýravatn æskuhugmynda minna,
en það er ekkert fjallavatn á Islandi, í Noregi eða Sviss, sem er líkt þvi.
Og munurinn er fólginn í því, að Genesaretvatn og Dauðahafið liggja i
raun og veru i hitabeltinu, þó að þau séu svona norðarlega. Fjöllin um-
hverfis Genesaretvatn ná upp i temprað og kaldtemprað loftslag, en þau
standa með rætur sínar i stöðuvatni, þar sem bananar, pálmar, bambus og
evkalyptus vagga krónum sínum i blænum á ströndinni.
En það, sem dýpst orkaði á huga minn, var hinn kyrrláti eyðifriður,
sem þarna hvílir yfir öllu. Hingað og þangað höfum við farið fram hjá
dyngjum af dökku grjóti, sem þarna eru viða meðfram ströndinni. Það
eru rústir, leifar gamalla bæja og þorpa, sem enginn veit nafn á. Dálitlir
evkalyptuslundir standa enn hjá grjótdyngjunum, þar sem einu sinni voru
Magdala og Betsaída. Um Kórazin veit enginn. Einnig hér í Kapernaum
eru nokkur evkalyptustré út með ströndinni, en annars fátt, sem minnir
á forna gróðurdýrð. Fjöllin hinum megin, Gergesafjöllin, gegnumskorin
af giljum og dölum, eru eins og einhver hrikaleg rismynd rauðgullinnar
og fjólublárrar auðnar, sem er storknuð í eilífri kyrrð. Enginn fugl sést
á sveimi. Það er eins og lífið hafi óafturkallanlega lokið sögu sinni hér.
Og þó rikir hér einhver ósegjanlegur friður, sem á ekkert skylt við
kulda dauðans, og fegurð slík, að ég sá enga aðra eins i Landinu helga.
Og allt er þetta með sama svip og yfirbragði og þá, er Jesús kaus Kaper-
naum að heimkynni. Vatnið er hið sama og fjöllin hin sömu. Og ljós-
brigðin hin sömu þá eins og þau, sem í dag leika á fleti vatnsins og breiða
slæður af gulli og purpura yfir Gergesafjöllin, þegar kvöldar. Á vöng-
um hans lék sami létti blærinn, eins og sá, sem í dag líður yfir þessar
strendur, og stormveðrin, sem stundum brjótast skyndilega ofan af fjöll-
unum og breyta vatninu í sjóðandi iðu. Það var þessi náttúra og það líf,
sem hún ól, sem lagði honum í hendur efnið í hinar ódauðlegu líkingar
hans, og þessar sýnir, sem glöddu augu hans við árbrún hvers dags, sem
hann dvaldi hér, og kannski það eina, sem gladdi þau.