Gripla - 01.01.1990, Blaðsíða 55
OSKAR BANDLE
UM ÞRÓUN ÖRVAR-ODDS SÖGU1
1- Þegar ég las Örvar-Odds sögu í fyrsta skipti sem tiltölulega ungur
og óvitur maður, fannst mér hún mjög skemmtileg, með köflum meira
að segja bráðskemmtileg, en þegar ég las hana í annað sinn, var hún
allt í einu orðin að heldur þurrum lestri. En þegar ég fór að rannsaka,
hvernig á þessu gæti staðið, kom brátt í ljós að hér hafði verið um að
ræða yngri og eldri gerð, sem hlutu að vera nokkuð mismunandi, en í
fávisku minni hafði mér ekkert verið kunnugt um það. Varð mér nú
Ijóst, að hér lá fyrir dálítið skemmtilegt vandamál, að talsverð þróun
hlyti að hafa átt sér stað milli eldri og yngri gerðar sögunnar, en hvorki
í útgáfum né bókmenntafræðilegum ritum var mikið að finna um
þetta. í útgáfu R.C. Boers (Boer 1888) fann ég að vísu ættarskrá hand-
ritanna með þeim upplýsingum, að:
S (Stokkhólmshandritið, perg. 7, 4° frá byrjun 14. aldar) væri bæði
elsta handritið og elsta og jafnframt stysta gerð,
A, B (frá 15. öld) geymdu yngri og lengstu gerð, en
M (frá síðari hluta 14. aldar) lægi einhversstaðar á milli.
En um þróun sögunnar, aðallega milli eldri og yngri gerðar, stóð þar
svo sem ekki neitt.
1.1. Að því er mér skilst, hefur ekki mikið verið skrifað um Örvar-
Odds sögu, að minnsta kosti ekki í bókmenntafræðilegum ritum. Eins
og kunnugt er, voru fornaldarsögur afar vinsælar á fyrri hluta 19. ald-
ar, þegar Carl Christian Rafn bjó þær til útgáfu í þremur bindum 1829-
30, og bæði rómantísk og eftirrómantísk skáld voru hrifin af hetjuanda
og fornlegum svip þessara sagna. En þegar á leið, urðu aðrar sögur yf-
irsterkari, sérstaklega íslendingasögur, að minnsta kosti að því er
varðar vísindalegar rannsóknir, enda vel þekkt að menn hafa ekki fyrr
en á síðustu áratugum fengið nýjan áhuga á fornaldar-, riddara- og
ævintýrasögum og þess konar bókmenntagreinum.
1 Fyrirlestur fluttur við Háskóla íslands 22. október 1984.