Eimreiðin - 01.01.1929, Síða 92
72
FRÁ SÓLEYJUM
EIMREIÐIN
Fusijama. Ótal sagnir hafa myndast um þenna himinháa
varða í miðju landi, sem ekki er í neinu samhengi við hin
fjöllin og er hálfu hærri en flest þeirra. Það er heilög skylda
og óskrifuð lög að fara að minsta kosti einu sinni á æfinni
upp á Fusijama og færa guðunum fórnir þar. A hverjum
degi, frá 10. júlí til 15. ágúst, fara um þrjú þúsund pílagrímar
upp á Fusijama.
Fusijama líkist digrum, stýfðum sykurtopp. Frá Gotemba,
sem er 15 hundruð fet yfir sjávarmál, er ekki nema 10
klukkustunda gangur upp á fjallið, en það er 12 þúsund og 4
hundruð feta hátt, eða 1650 metrum hærra en Öræfajökull.
Gefur því að skilja, að brattinn er mikill og jafn alla leið;
lítur fjallið afar hrikalega út, þegar maður kemur að því.
Ekki hefur verið hiti í Fusijama nokkur hundruð ár. Gígurinn
er 560 feta djúpur; við gengum í kringum hann á þremur
stundarfjórðungum. Gróðurríki er nú mikið kringum fjallið, en
alveg er gróðurlaust niður í miðjar hlíðar, og er gjall í jarð-
veginum í margra mílna fjarlægð.
Við vorum þreytt um kvöldið, 13. ágúst, þegar við lögðum
okkur til hvíldar í kofanum, rétt fyrir neðan efstu fjallsbrúnina.
Ekki varð okkur þó svefnsamt um nóttina; breytingin á loft-
þyngslum var svo mikil, pílagrímar voru að koma alla nóttina,
og svo var okkur kalt. Þegar við lögðum af stað um morg-
uninn var 36° C. hiti, en 0° C. á fjallinu um kveldið. Tæpa
tvo mánuði á sumrin tekur Fusijama af sér snæhettuna, skafl-
arnir í gígnum þiðna þó aldrei fyllilega.
Síðasti áfanginn er drjúgur, og lögðu allir á stað kl. 3 um
nóttina. Himininn var heiður og tungl í fyllingu. Var útsýnið
ótakmarkað og ógleymanlega fagurt í tunglsljósinu um nóttina,
engu síður en í sólskininu um morguninn.
Pílagrímarnir uppi á Fusijama sjá manna fyrstir morgun-
roðann yfir ölduni Kyrrahafsins, sólrás nýs dags. — Aðeins
einu sinni hefur íslendingur átt því láni að fagna að vera
í þeirra hóp.
Olafur Olafsson.