Eimreiðin - 01.01.1929, Page 102
82
HALLGRÍMUR
EIMREIÐIN
— Beint úr leið? sagði Bjarni dauflega. Ég fer alveg rétt
Ég hélt auðvitað því sama fram sem áður. Og ég*benti
honum á áttavitann á næstu vörðu.
Ég grilti aðeins í hana. Því að veðrið var enn að versna.
I stað logndrífunnar var farið að hvessa. Vindurinn lék sér
illúðlega með þann snjó, sem var laus, blandaði honum saman
við ofanhríðina og lamdist áfram í hörðum strokum. Þá sá
ekki út úr augunum. En svo rofaði ti! við og við.
Ég tók í Bjarna, til þess að snúa honum við að vörðunni,
skipaði honum að koma með mér og gerði mig svo valds-
mannslegan, sem mér var unt. Því að mér leizt, sannast að
segja, ekki á hann.
En hann vildi ekki koma með mér. Það var eins og honum
væri þess varnað að taka vörðurnar til greina.
— Sérðu ekki manninn á undan okkur? Ég veit, að hann
fer rétt. Við verðum að fara almenna mannavegi, sagði hann.
Ég er ekkert hjátrúarfullur. Ég er ekki heldur neitt kjark-
minni en alment gerist. En ég kannast við það, að mér rann
eins og kalt vatn milli skinns og hörunds. Mér fanst það óvið-
feldið að standa í blindbyl uppi á háheiði, með hálfbrjálaðan
mann, og rífast við hann um ofsjónir, sem virtust vera að
teygja hann út í opinn dauðann.
— Þektirðu þennan mann? spurði ég í standandi vandræðum.
— Nei. Ég hef aldrei séð framan í hann. Hann hefur altaf
gengið á undan okkur og snúið við mér bakinu. En við
verðum að fara sömu leiðina og hann.
— Af hverju veiztu það?
— Heldurðu svo sem ekki, að harm rati? sagði hann með
sannfæringar-vissu vitskertra manna.
Mér virtist maðurinn eins og dáleiddur — þó að ég hafi
aldrei séð mann í því ástandi. En hver hafði þá dáleitt hann?
Var það einhver ósýnilegur fjandi? . . . Nei, ég ætlaði ekki
að fara að hugsa mér neina vitleysu.
Ég sá, að ég átti einkis annars úrkosta en reyna að rjúfa
dáleiðsluna, eða hvað það nú var, sem að manninum gekk,
og koma honum undir áhrif frá sjálfum mér. Mér fanst, að
það yrði ég að gera með viljakrafti. Og ég beitti honum að
því leyti, sem ég hafði tök á. Ég hélt yfir honum svo hvassa