Eimreiðin - 01.01.1954, Síða 74
54
DULMÁL
EIMREIÐIN
Galdra-Manga bjó með séra Tómasi manni sínum í 10 ár, og
gat hann við henni þrjá syni, sem ættir eru frá komnar, úrvals
hraustleika og gáfufólk. Tómas prestur andaðist 1670 háaldraður.
Hann var nær sjötugur, er hann giftist Galdra-Möngu. Þau bjuggu
fyrst á Sandeyri og síðan í Unaðsdal, og þar bjó Margrét í ekkju-
dómi eftir lát manns síns, þar til synir hennar voru uppkomnir.
Sögð var hún kostur góður, búkona mikil og hagsýn og hafði
góðar forsagnir á öllu, er gera skyldi. Hún sótti sjálf sjó og var
formaður á fari og svo aflasæl, að það eitt út af fyrir sig þótti
ekki einleikið. Nýjar sögur af henni komust á kreik í nýjum
gervum, eins og enginn belgur hefði verið dreginn á höfuð henni
og henni aldrei drekkt verið. Þjóðsagan lætur ekki sitt fólk sálast
alveg. Minning þess lifir lengi undir sól að sjá. Möngufoss er
lifandi minnisvarði mikillar söguhetju, er lengi mun lifa á íslandi.
í febrúar 1954.
J. M. Eggertsson.
*
Dulmál.
Hlusta, hlusta ég af öllu megni,
ekkert heyri, nema þyt í regni,
stormsins dyn og stríðan hörpusláttinn,
stunur hafsins, þungan andardráttinn.
En í gegnum stormsins sterku raddir
strjúka veikir tónar, lífi gœddir,
sama lag og söng hún amma forðum:
sami rómur, sami blœr á orðum.
Ljósir fletir lýsa yfir þilið,
leiftra, hverfa áður fœ ég skilið,
út úr dags- og draumavilund minni
dularmálið flýgur liverju sinni.
Þorbjörg Árnadóttir,
frá Skútustöðuin.