Eimreiðin - 01.01.1968, Page 65
Oddný Guðmundsdóttir:
ÁST í MEINUM
Fjarskyldur ættingi, miðaldra maður,
sitt marglyndi harmaði og var ekki glaður.
— Flónska er, hvernig þú, frændi minn, lætur.
Forboðinn ávöxtur kvað vera sætur.
Þá brást hann við gramur og byrjaði svona:
— Mér birtist að óvörum töfrandi kona.
Eftir það var ekki svefninn mér sætur.
Samvizkan píndi mig andvaka um nætur.
Það lá við ég kæmi ekki kaffinu niður.
Það kitlaði og draup gegnum langsoltin iður.
I eyrunum suðaði ónotakliður.
Yfirleitt hvergi var stundlegur friður.
Allt snerist rangt frá þeim örlagadegi.
Eg ók út í ræsi af þráðbeinum vegi.
Þau verk, sem ég hafði þá viku á prjónum,
ég vann eins og fjandinn með öfugum klónum.
Afbrýðin fór um mig báli og brandi.
Eg brann eins og jurtin í glóheitum sandi,
var hnípinn og sljór eins og hundur í bandi
og hræddari en fangi í óvinalandi.
Áhættan gerði mig æstan og villtan,
áfengisþyrstan og skemmtanatrylltan.
Þá reyndi ég lagsmenn að lymsku og glettum.
Oft lugu þeir upp á mig skrýtlum og prettum.