Tímarit lögfræðinga - 01.08.1978, Page 5
ÁRNI BJÖRNSSON
Árni Björnsson héraðsdómslögmaður og lög-
giltur endurskoðandi andaðist í Reykjavík hinn
24. júlí s.l. aðeins fimmtugur að aldri. Árni
fæddist hinn 6. ágúst 1927 í Reykjavík, sonur
hjónanna Björns E. Árnasonar Iögfræðings og
löggilts endurskoðanda og Margrétar Ásgeirs-
dóttur.
Árni varð stúdent frá Menntaskólanum í
Reykjavík vorið 1947, en hóf að því loknu laga-
nám í Háskóla íslands og lauk því námi vetur-
inn 1953.
Björn faðir Árna hafði frá árinu 1930 rekið
eigin endurskoðunarskrifstofu, og að laganámi
loknu hóf Árni störf á endurskoðunarskrifstofu
föður síns. Störfuðu þeir þar saman, þar til
Björn andaðist 23. nóvember 1967, en þá tók
Arni við rekstri endurskoðunarskrifstofunnar, sem enn ber nafn föður hans.
Þó að Árni yrði héraðsdómslögmaður hinn 2. júlí 1954, varð aðalstarf hans á
sviði endurskoðunar, enda krafðist hinn umfangsmikli rekstur endurskoðun-
arskrifstofunnar allra starfskrafta hans. Hefur fyrirtæki þeirra feðga frá fyrstu
tíð verið meðal traustustu og virtustu endurskoðunarskrifstofa hér á landi.
Hélt Árni vel merki föður síns á loft. Mun það vera einróma álit allra, er þekktu
Árna, að hann hafi verið mikilsvirtur í starfi sínu, vel lærður, athugull, ráða-
góður og hafi manna best leyst úr erfiðustu vandamálum. Þó að Árni væri
hæglátur maður, sem lítið vildi hafa sig í frammi, var sóst eftir honum til
margskonar trúnaðarstarfa. Hann var formaður Stúdentaráðs Háskóla íslands
1950—1951. Síðar starfaði hann mikið að málefnum Rauðakrossins og var
sæmdur heiðursmerki félagsins 1975. Hann var skipaður af ráðherra í próf-
nefnd löggiltra endurskoðenda og átti sæti þar um árabil, og ýmis trúnaðar-
störf vann hann fyrir Félag löggiltra endurskoðenda, Lögfræðingafélagið og
aðra aðila.
Eftirlifandi eiginkona Árna er Ingibjörg Jónsdóttir, dóttir Jóns Loftssonar
forstjóra og konu hans Brynhildar Þórarinsdóttur. Gengu þau Árni í hjóna-
band 5. júní 1953. Börn þeirra eru fjögur: Björn Einar, Brynhildur Jóna, Ásgeir
Þór og Jón Loftur.
Það er tvímælalaust mikið skarð höggvið í hóp stéttarbræðra Árna, og
hans er saknað í þeirra hópi. Sakir háttvísi í framkomu, léttrar lundar og
kímnigáfu ávann hann sér vináttu margra manna, sem minnast hans með
hlýjum hug.
Helgi V. Jónsson.
51