Tímarit lögfræðinga


Tímarit lögfræðinga - 01.08.1978, Page 31

Tímarit lögfræðinga - 01.08.1978, Page 31
þeirra. Auk þess lít ég svo á, að okkur frummælendum sé ekki ætlað að flytja þrjú fræðileg framsöguerindi um samningu dóma. Þau hlytu óhjákvæmilega að verða eins í höfuðatriðum. Sýnist hverjum og ein- um okkar ætlað að ræða þetta efni út frá persónulegri reynslu og skoð- unum. Og nú er best, að ég fari að koma mér að efninu. I 40. gr. einkamálalaganna segir: „Þingmálið er íslenska." En ís- lenska og íslenska, það getur nú verið tvennt ólíkt. Því að til er sú íslenska, sem við lögfræðingar notum, og almenningur segist ekki skilja, og sú íslenska, sem almenningur notar, en oss juristum finnst ekki nógu fín til skjalagerðar og dóma. Hér tek ég nú að vísu fulldjúpt í árinni, en þó tel ég, að í þessum orðum felist talsverð sannindi. Því að höfum við ekki allir heyrt leikmenn segja, þegar þeir hafa lesið einhver lögfræðileg skrif, eitthvað á þessa leið: „Hvað þýðir nú svo þetta á mæltu máli?“ eða „af hverju þurfið þið lögfræðingar alltaf að skrifa svona torf?“ Ég hef heyrt eitthvað í þessum dúr marg- sinnis. Og er þá ekki kominn tími til, að við bætum ráð okkar og leitumst við að skrifa þannig, að hver læs maður með heilbrigða skyn- semi megi skilja? Vitanlega, og þannig eigum við að semja dómana. 1 fyrsta lagi eigum við að hætta algerlega að nota latneska frasa, því „að orð er á íslandi til um allt, sem er hugsað á jörðu.“ En ég skal fúslega viðurkenna, að fram að þessu hefi ég verið í hópi hinna seku í þessu tilliti, en ætla nú að fara að bæta ráð mitt, og mér finnst það Hæstarétti til hróss, að mér sýnist hann alveg hættur að brúka latín- una í sínum dómum. En það er fleira, sem leikið getur íslenska dóma grátt, en blessuð latínan; það eru langar setningar, sem hlykkjast eins og Miðgarðsormur eftir hálfu og heilu síðunum, súrraðar saman með ótal innskotum og tilvísunarsetningum; það er óíslenskuleg orðaröð, eða jafnvel hégómlegt orðaval. Það getur vel verið, að sumum finnist þetta fánýtur sparðatíningur hjá mér, en ég er á annarri skoðun. Því að hér sé ég vandamál, sem ég álít, að eigi nokkurn þátt í því bili, sem nú ríkir milli almennings og dómarastéttarinnar. Þetta bil þarf að brúa, og þá ætla ég, að skilningur og virðing fyrir dómarastarfinu muni aukast meðal almennings. En slíkt er afar mikilvægt í hverju þjóðfélagi. Þessu markmiði náum við best með því að einfalda dómana eftir föngum, skrifa stuttar setningar og nota auðskilin orð. Auðvitað á ekki bara að nota auðskilin orð, végna þess að þau eru auðskilin. Slíkt yrði á kostnað hugsunarinnar. Heldur á ég við hitt: Ef hægt er að nota tvö orð um sama hlutinn, annað auðskilið — hitt torskilið, þá skulum við velja fyrri kostinn. Eitt örlítið dæmi: „Málskostnaður á að falla niður.“ Hversu oft hefi ég ekki verið spurður að því: „Hvað 77

x

Tímarit lögfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit lögfræðinga
https://timarit.is/publication/586

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.