Tímarit lögfræðinga - 01.07.2002, Blaðsíða 17
ingum um siðferði, jafnvel kurteisi, en verður ekki framfylgt á neinn raun-
hæfan hátt.22
7. Þessi kreppa lagasetningarvaldsins er óhjákvæmilegur fylgifiskur lýðræðis
og fjölveldis. Hvorutveggja fylgir málamiðlun milli stjórnmálaflokka og
þrýstihópa, sem eru boðberar ólíkra hugmynda og hagsmuna. Þetta bitnar
þá á orðalagi og öðrum ytra búningi laganna vegna þess að sett eru í lög
mjög almennt orðuð ákvæði og vísireglur. Lögin fullnægja ekki þeim
áskilnaði að vera skýr og afdráttarlaus. Með því vísar löggjafinn vandanum
til dómstólanna. En hann getur einnig farið þá leið að framselja vald sitt til
stjómsýslunnar með ríflegum reglugerðarheimildum eða látið þegnum
þjóðfélagsins eftir nánari útfærslu með frávíkjanlegum ákvæðum. Þetta
kann að vera heppilegt að vissu marki. En að lokum er dómstólum falið
endanlegt ákvörðunarvald þegar ágreiningur verður.
8. Skráð lög verður að túlka og af því er gjaman ályktað, að með túlkun sé
ekki verið að setja reglu, heldur ákvarða efni reglu sem þegar sé til. Þetta
verður sífellt erfiðara eftir því sem löggjöfinni hnignar og svigrúm dóm-
stóla til að setja reglu eykst.
8. TÚLKUN REGLU - SETNING REGLU
Þegar því er haldið fram að dómstólar setji ekki reglur heldur „finni reglu“
er það túlkunin sem skiptir máli. Þegar rætt er um hvað felist í túlkun er margs
að gæta. Öll túlkun er reist á gagnvirkni, sem svarar nokkum veginn til þess
sem kallað er hermeník á erlendum málum. Þar er gert ráð fyrir að allt viðhorf
manna til umhverfisins sé reist á túlkun og menn nálgist hvert viðfangsefni með
tiltekinn forskilning að leiðarljósi sem móti túlkunina. Það sem túlka á, t.d.
textinn, hefur síðan áhrif á forskilninginn og hann breytist. Þannig verði sífelld
gagnvirkni milli túlkendanna og þess sem túlkað er. Forskilningur manna
breytist við breyttar aðstæður og breyttan tíðaranda, þannig að textar öðlast nýtt
líf með hverri kynslóð, ekki sízt þegar þeir verða gamlir, enda em aðstæður -
og þar af leiðandi forskilningur - sfbreytilegar hvort heldur þær lúta að tækni,
hagskipan, félagsskipan eða að stjómmálum.23 Ef viðfangsefnið er lagatextar
má segja að með því sem kallað er túlkun sé í sífellu verið að móta nýjar reglur
með breyttan forskilning að leiðarljósi þótt orðalag haldist óbreytt, en svigrúm
túlkandans fer svo eftir því hversu skýr og afdráttarlaus texti er, hversu gamall
hann er, hvort þar sé fjallað um viðfangsefni sem taka örum breytingum eða
ekki. Þetta gerist á sviði stjómmála við endurskoðun laga og setningu nýrra þar
sem meðal annars er lögð til grundvallar túlkun og skilningur á eldri lögum,
venju og öðrum réttarheimildum. Einnig gerist þetta meðal þegnanna sem móta
samskiptavenjur og ekki sízt fyrir tilstilli dómstólanna við uppkvaðningu dóma
og úrskurða. Taka má fimm dæmi til nánari skýringar:
22 Sjá hér til dæmis lög nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga.
23 Riithers: Rechtstheorie, Rn. 983 o.áfr.
111