Tímarit lögfræðinga - 01.07.2002, Page 77
í 2. mgr. 6. gr. laganna er loks kveðið svo á að sveitarstjórn skuli auglýsa
gjaldskrána og efnislegar breytingar á henni á þann hátt sem venja er að birta
opinberar auglýsingar í sveitarfélaginu. Margvíslegt fyrirkomulag er á birtingu
sveitarfélaga á opinberum auglýsingum. I ljósi þess að gjaldskráin felur í raun
í sér grundvöll skattlagningar verður væntanlega að gera þá kröfu að birtingar-
háttur sveitarfélaga feli að lágmarki í sér það réttaröryggi að hægt sé síðar að
ganga úr skugga unr á sannanlegan hátt hvert efni gjaldskrárinnar var þegar hún
var birt. Ef birtingu er hagað á þann veg að starfsmenn sveitarfélaga séu í raun
einir til frásagnar um birtinguna og efni gjaldskrárinnar er álitamál hvort við-
hlítandi grundvöllur að stjómlögum er fyrir hendi til umræddrar skattlagningar,
sbr. 2. mgr. 77. gr. stjómarskrárinnar, sbr. 15. gr. stjómarskipunarlaga nr.
97/1995. Eins og nánar var að vikið í skýrslu nefndar um starfsskilyrði stjórn-
valda er nauðsynlegt að hugað verði að breytingum á reglum um birtingu
stjómvaldsfyrirmæla sem sveitarstjómir setja.17
3.13 Álagning B-gatnagerðargjalds skv. ákvæði til bráðabirgða
Með 1. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 17/1996 er sveitarfélögum
veitt heimild til þess að leggja á B-gatnagerðargjald vegna framkvæmda sem
lokið sé innan 10 ára frá gildistöku laganna. Sveitarfélög eiga því þess kost að
leggja B-gatnagerðargjald á fasteignareigendur vegna lagningar bundins slit-
lags og gangstétta á eldri götur, enda hafi framkvæmdum verið lokið fyrir 1.
janúar 2007.
Samkvæmt ákvæðinu tekur þessi heimild einvörðungu til lóða sem voru í
eigu sveitarfélags eða sveitarfélag hafði ráðstöfunarrétt á og úthlutað hafði
verið fyrir 1. janúar 1997. Heimildin tekur einnig til lóða sem eru í eigu
annarra ef leyfi til að byggja á þeim hafði verið gefið út af byggingaryfirvöldunr
fyrir 1. janúar 1997. Heimild til álagningar B-gatnagerðargjalda er þar fyrir
utan háð öðrum skilyrðum um álagningu þessara gjalda og vikið var að hér að
framan í kafla 2. Þannig var það t.d. niðurstaða félagsmálaráðuneytisins í
úrskurði frá 10. nóvember 1997 að B-gatnagerðargjald yrði ekki lagt á fasteign
á grundvelli þessa ákvæðis til bráðabirgða vegna bundins slitlags og gangstétta
sem lögð voru fyrir 15 árum, enda var skilyrði skv. 4. gr. laga nr. 51/1974 að
ekki væri lengri tími liðinn frá því að slitlag var sett eða gangstétt lögð en fimm
ár, sbr. umfjöllun í kafla 2.2.8 hér að framan.
4. RÉTTARÖRYGGI BORGARANNA OG LAGATÆKNILEG
ÚTFÆRSLA Á LÖGUM UM TEKJUSTOFNA SVEITARFÉLAGA
Eins og vikið var að í kafla 3.1 benti umboðsmaður Alþingis á í áliti sínu í
máli nr. 78/1989 að óviðunandi óvissa væri um skilyrði laga til álagningar B-
gatnagerðargjalds skv. 3. gr. laga nr. 51/1974 um gatnagerðargjöld og ýmsum
17 Sbr. Starfsskilyrði stjórnvalda, 70-71.
171