Árbók Háskóla Íslands - 01.02.1965, Page 25
23
Að lokinni ræðu rektors söng Stúdentakórinn undir stjórn
Jóns Þórarinssonar, tónskálds, fimm lög. Þá ávarpaði rektor
nýstúdenta með þessum orðum:
Kæru nýstúdentar.
Að gömlum háskólasið kemur það í minn hlut að ávarpa
yður nokkrum orðum, bjóða yður velkomin í Háskólann, sem
vissulega vill taka yður tveim höndum, óska yður til hamingju
með það andlega landnám, sem þér hafið nú hafizt handa um,
og árna yður allra heilla í lifi og starfi.
Þér nýstúdentar eruð fjölmennasti árgangurinn, sem nokkru
sinni hefir hafið nám við Háskóla Islands. Sú staðreynd minn-
ir oss á, að hundraðshlutfall þeirra ungmenna, sem hljóta stú-
dentsmenntun á landi hér, fer hækkandi, og er þó mun lægra
en t. d. í Noregi, sem okkur er gjarnt að bera okkur saman við.
Lætur nærri, að miðað við 20 ára árganginn á landi hér hljóti
tíunda hvert ungmenni stúdentsmenntun, en í Noregi verður
sjötti hver unglingur stúdent í sambærilegum árgangi. Orkar
það ekki tvímælis, að svipuð þróun er í vændum hér á landi.
Er það góðu heilli, því að fáum þjóðfélögum er jafn brýn
þörf á vel menntuðu fólki sem voru, með því að land vort er
um margt torbýlt og íbúar færri en í nálega nokkru öðru sjálf-
stæðu ríki heims. 1 sliku þjóðfélagi er það lífsnauðsyn að leggja
rækt við hvern einstakling, reyna að mennta hann sem bezt
og virkja krafta hans sem frekast eru föng á í þágu þjóðfé-
lagsins. Ábyrgð hvers Islendings gagnvart þjóðfélagi sínu er
geysimikil — vér erum svo fá, að á stundum finnst oss það
uggvænlegt vegna tilkostnaðar við að halda uppi menningar-
þjóðfélagi. Reynslan sýnir þó, að hér hefir orðið mikil sókn til
menningar og mennta, og er einskis örvænt, ef vér missum
aldrei sjónar á því, að af hverjum fslendingi verður að krefj-
ast meiri framlaga í þágu þjóðfélagsins en manna í fjölmenn-
ari löndunum. Það er skylda íslenzkra skólamanna að benda
nemendum sínum á þessa ábyrgð — ábyrgðina, sem því fylg-
ir að vera íslendingur —, og það er verkefni íslenzkra skóla
að búa nemendur sína undir þá ábyrgð.