Árbók Háskóla Íslands - 01.01.1984, Qupperneq 84
82
Árbók Háskóla íslands
er hann féll frá. Fyrirlestra flutti hann
víða um lönd um árangur krabbameins-
leitará íslandi.
Guðmundur Jóhannesson var trúmaður
ágætur, og mótaði mannkærleikur lífsstarf
hans. Hann var kankvís og glettinn al-
vörumaður, hlédrægur, ljóðelskur og
gæddur skáldgáfu. Kennari var hann af-
bragðsgóður, ástsæll af sjúklingum sínum
og vinsæll af samstarfsfólki.
ÞKÞ
Einar Bjarnason, fyrrum prófessor í laga-
deild andaðist í Reykjavík 17. maí 1982
eftir nokkurra ára vanheilsu.
Einar var fæddur á Seyðisfirði 25. nóv-
ember 1907. Voru foreldrar hans Bjarni
Jónsson lögfræðingur og bankaútibússtjóri
frá Unnarholti, f. 24. maí 1872, d. 13.
nóvember 1948, og kona hans Sólveig
Einarsdóttir, f. 27. apríl 1872, d. 22. mars
1960. Hann lauk stúdentsprófi frá
Menntaskólanum í Reykjavík árið 1926
og embættisprófi í lögfræði frá Háskóla ís-
lands 1933. Að loknu lagaprófi, nánar
tiltekið 17. janúar 1934, var hann ráðinn
aðstoðarmaður í Qármálaráðuneytinu,
settur þar fulltrúi l.júní 1935 og skipaður
23. júní 1936 frá 1. júlí það ár. Aðalend-
urskoðandi ríkisins var hann skipaður 19.
nóvember 1949 frá 1. desember s.á., en
heiti embættisins var breytt og varð ríkis-
endurskoðandi árið 1955. Þar sat Einar til
1969, uns hann var skipaður prófessor í
ættfræði við lagadeild Háskóla íslands frá
1. september það ár, en var veitt lausn í árs-
lok 1977 fyrir aldurs sakir.
Á árunum 1946—1948 starfaði Einar
við sendiráð íslands í Kaupmannahöfn,
en fékkst jafnframt við ættfræðirannsókn-
ir. Hann var ritstjóri og ábyrgðarmaður
Lögbirtingablaðs frá 1. júní 1936 — 31.
desember 1942; í stjórn íslandsdeildar
norræna embættismannasambandsins,
sem nú nefnist Norræna stjórnsýslusam-
bandið (Nordisk Administrativt För-
bund), 1946—1973, formaður 1951 —
1973; í stjórn Hins íslenska bókmenntafé-
lags 1958—1973; í stjórn Sögufélags
1958—1973 og í stjórn Lögfræðingafélags
íslands 1958—1969. Hann var kjörinn í
Vísindafélag íslendinga 1959.
Eins og sjá má af þessu yfirliti gegndi
Einar umfangsmiklum embættis- og fé-
lagsmálastörfum. Ótalin eru þó störf hans
að rannsóknum íslenskrar ættfræði, en
óhætt mun að segja að hann hafi verið
langfremstur allra ættfræðinga um sína
daga. Sú fræðigrein hefur reyndar átt mis-
jöfnu gengi að fagna og það löngum rýrt
gildi hennar, hversu iðkendur hafa verið
gjarnir á að reisa ályktanir á ótraustum
heimildum og getgátum. Þetta var Einari
ljóst og má segja að með ættfræðirann-
sóknum sínum hafi hann brotið blað í
tvennum skilningi að minnsta kosti: hann
beitti miklu strangari heimildarýni en ætt-
fræðingar höfðu almennt gert áður og
tengdi ættfræðina meira við hina almennu
þjóðarsögu — ekki síst réttarsögu — en
gert hafði verið. Honum tókst þannig að
leiðrétta ótal villur og missagnir, sem hver
hafði um langan aldur haft eftir öðrum, og
draga fram áður óþekkta vitneskju. Er
engin þörf á að fjölyrða um gildi þessa
brautryðjandastarfs, því að allir, sem
eitthvað hafa leitað vitneskju um liðna
tíma, vita að fjölmargir þættir þjóðarsög-
unnar verða ekki skýrðir nema fyrir til-
styrk ættfræðinnar. Á þetta ekki síst við
sögu síðmiðalda, en Einar lagði sig sér-
staklega fram við að rannsaka ættir og
ættatengsl á því tímabili.
Eftir Einar liggja Ijölmörg rit og ritgerð-
ir, að langmestu leyti um ættfræði. Af rit-
um hans skulu þessi nefnd: Lögréttu-
mannatal, Rv. 1952 — 55, og íslenzkir
œttstuölar 1—III, Rv. 1969 — 74, en þessi
rit komu bæði út á vegum Sögufélagsins.
Fjöldi ritgerða birtist eftir hann í bókum.