Fréttablaðið - 15.10.2010, Síða 16
16 15. október 2010 FÖSTUDAGUR
VIÐTAL: Lára Björg Björnsdóttir
Einn vinsælasti pistlahöf-
undur landsins, Lára Björg
Björnsdóttir, hefur heillað
lesendur með bráðfyndnum
pistlum þar sem hún sjálf
er í aðalhlutverki. Hún
kann samt illa við athygli
og reiknaði ekki með að
neinn myndi lesa skrif sín
í upphafi segir hún í spjalli
þar sem einhverfa, matur
og Ameríka koma við sögu.
„Þetta byrjaði þannig að Bryndís
Ísfold [þáverandi ritstjóri vefrits-
ins Miðjunnar] bað mig um að
skrifa pistla á Miðjuna, sá fyrsti
birtist síðla árs 2009. Svo það er
eiginlega henni að þakka að ég fór
að skrifa, ég hafði ekkert verið að
skrifa áður að ráði. Mér fannst ég
reyndar ekki hafa mikið að segja,
en svo fékk ég góð viðbrögð við
einum af fyrstu pistlunum, sem
hét Takk útrásarvíkingar og sagði
frá því þegar ég og vinkonur mínar
vorum að hamstra í hruninu.“
Takk útrásarvíkingar er ein-
mitt heiti á væntanlegri bók Láru
sem byggir á pistlum hennar á
Miðjunni en segja þó í lengra máli
frá henni og hennar lífi. Eftir að
bókin fór í prentun hóf hún pistl-
askrif á Pressunni: „Útrásarvík-
ingarnir eru fyrirtaks blóraböggl-
ar fyrir allt sem fer úrskeiðis. Ég
byrjaði að þakka þeim þegar ég leit
eitt sinn inn í tóman ísskáp þegar
kreppan var nýskollin á, en þá
hafði ég einmitt ekki tímt að kaupa
mér neitt að borða,“ segir Lára sem
hefur þakkað útrásarvíkingunum
æ síðan í lok hvers pistils, og gerir
það í bókinni sinni.
Ungfrú 10. bekkur
Lára hafði ekki leitt hugann að því
að skrifa bók. „Þetta kom frek-
ar óvænt upp og mér líður stund-
un eins og einhverjum sem hefur
lokið 30 einingum í læknisfræði
og er nú á leið inn á skurðstof-
una,“ segir Lára og heldur áfram.
„Ég skrifa mikið um sjálfa mig en
treysti því jafnframt í byrjun að
enginn myndi lesa pistlana. Reynd-
ar finnst mér athygli mjög óþægi-
leg, ég er bæld og spéhrædd, sem
er algjör mótsögn við það að ég
skrifa bara um sjálfa mig, þetta er
svo egó sentrískt að það hálfa væri
nóg,“ segir Lára og bendir á for-
síðu bókarinnar, sem sýnir hana
í hlutverki fegurðardrottningar,
með kórónu, borða og sprota að
sjálfsögðu en eins og hún minnist
á reglulega í pistlum sínum var hún
ungfrú 10. bekkur í Árbæjarskóla.
Forsíðan er lýsandi
fyrir húmor Láru, sem er
kaldhæðinn og grínið er
oft á hennar kostnað.
„Lífið er bara bæði
fyndið og erfitt og það
væri ekki hægt að standa
í þessu nema með gríni,
ókei það er kannski smá
vörn í þessu, ég ríf mig
alltaf niður í skrifunum,
vil kannski verða fyrri
til þess að gera það en
einhver annar.“
Er algjör Kani
Lára Björg eyddi bróð-
urparti æsku sinnar í
Árbænum, hún bjó í Sel-
áshverfinu ásamt for-
eldrum sínum, Birni
Ragnarssyni tannlækni og Ragn-
heiði Margréti Guðmundsdóttur,
íslenskufræðingi og kennara,
og Birnu Önnu, eldri systur sem
einnig hefur skrifað bækur, til að
mynda bókina Dís sem síðar varð
að kvikmynd.
Áður en fjölskyldan settist að
í Árbænum bjó hún þó þrjú ár í
Chicago þar sem faðir hennar var
í framhaldsnámi. „Ég er markeruð
fyrir lífstíð af þeirri reynslu, ég er
algjör Kani, elska Bandaríkin og
hef farið þangað margoft,“ segir
Lára Björg sem lýsir því fjálglega
í bókinni hvernig æsku-
árin í Bandaríkjunum
gerðu hana fráhverfa
heilsufæði, þar sem fátt
annað var á boðstólum á
heimili hennar en holl-
ustufæði. „Ég mæli ekki
með þessari uppeldis-
aðferð,“ segir hún og
hlær. Foreldrar hennar,
og aðallega faðir, koma
þónokkuð við sögu í frá-
sögnum Láru sem seg-
ist ekki færa neitt í stíl-
inn þegar kemur að
frásögnum af föður sem
er síhringjandi í dóttur
sína með ýmis misgóð
ráð til að komast í gegn-
um daginn.
Eftir grunnskólaár í
Árbænum lá leiðin í MH, þar sem
kórinn heillaði og stóra systir var
fyrir. „Ég geri allt eins og stóra
systir, ég hringi stundum í hana
til að spyrja hvað mér á að finnast
um einhver mál,“ segir Lára sem
í framhaldinu tók BA-próf í sagn-
fræði, reyndar fyrir misskilning.
„Pabbi átti að skrá mig í sálfræði
en misskildi mig eitthvað og skráði
mig í sagnfræðina þar sem mér
líkaði reyndar mjög vel. “
Stuttu eftir útskrift sá Lára aug-
lýsingu þar sem auglýst var eftir
ritara hjá utanríkisþjónustunni,
sótti um og fékk starfið. Það bar
hana til Brussel en hún flutti heim
með son sinn þegar hann greindist
með einhverfu árið 2005.
Berst fyrir soninn
Lára segir eiginlega ekki hægt að
útskýra hvernig tilfinning það er
að eiga barn með frávik í þroska.
„Það verður ekkert eins eftir það.
Ég var reyndar mjög fegin þegar
hann fékk greiningu, það var léttir
og þýddi að hann fór að fá umönnun
við hæfi. En þetta er ekki létt, þetta
er mikil vinna en ég hef alltaf farið
fram á að hann fengi þá umönn-
un sem hann á rétt á. Þegar hann
var að fara að hefja skólagöngu þá
mættu mér hindranir í hverfisskól-
anum, Melaskóla. Mér var sagt að
þetta myndi aldrei ganga. En þeir
hjá Greiningarstöðinni sögðu að
hann ætti að geta fylgt félögum
sínum úr leikskólanum og ég barð-
ist fyrir því. Það getur tekið á að
berjast fyrir barnið sitt því þetta
ristir svo djúpt og tekur endalaust
á. Þegar ég er kannski að þylja upp
kennitöluna hans á Tryggingastofn-
un eða öðrum stofnunum þá er ég
stundum næstum farin að gráta
áður en ég veit af. Því hann er auð-
vitað barnið mitt og enginn getur
staðið mér nær.“
Niðurskurður í málefnum sem
tengjast börnum með ýmiss konar
sérþarfir er því ekki ofarlega á vin-
sældalista Láru. „Ég verð svo ofsa-
lega reið þegar ég heyri um niður-
skurð í þeim efnum. En stuðningur
við þessi börn er grunnforsenda
þess að þau nái að þroskast og verði
sjálfstæð síðar meir. Ég held að allir
vilji búa í samfélagi þar sem tæki-
færin eru jöfn. Mér finnst reynd-
ar að allir stjórnmálamenn þurfi
að prófa að eiga barn með sérþarf-
ir. Eða hvað með að prófa sjálfir að
vera barn með sérþarfir í einn dag?
Við foreldrarnir erum ekki að fara
fram á einhverja lúxus- eða sér-
þjónustu heldur ósköp venjulega
hluti sem börnin okkar eiga fullan
rétt á.“
Lára segir skólagöngu sonar síns
hafa gengið framar vonum. Niður-
skurðurinn bitnar þó með lúmskum
hætti á syninum og skólafélögum,
bekkir hafa verið stækkaðir og nú
er hann í 26 barna bekk. Krepp-
an hefur líka bitnað á Láru að því
leyti að hún missti sjálf vinnuna
síðastliðið vor. Hún kvartar samt
ekki yfir atvinnuleysinu. Hingað til
hefur hún unnið ýmis störf, „aðal-
lega skrifstofustörf, ég er ógeðslega
góður ritari,“ segir hún og brosir.
„Ég hef svo gaman af því að vor-
kenna mér að það er fínt að hafa
þetta sem afsökun. Þó ég hafi ekki
fasta vinnu er nóg að gera í skrif-
unum í bili. Ég hef líka verið í vinn-
unni allt mitt líf, mér finnst fínt að
koma aðeins upp núna og anda.“
Útrásarvíkingar eru fyrirtaks blórabögglar
ALLIR FÁI JÖFN TÆKIFÆRI Allir stjórnmálamenn ættu að prófa hvernig er að eiga barn með sérþarfir að mati Láru Bjargar. „Eða
hvað með að prófa sjálfir að vera barn með sérþarfir í einn dag?“ FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI
Bókin Takk útrásarvíkingar hefst þegar óeirðalögreglan er mætt á vinnustað Láru
Bjargar vegna sprengjuhótunar í janúar 2009. Hér er gripið niður í fyrsta kafla:
„Þegar ég keyrði heim úr vinnunni þennan dag var ég með sjúka óraunveruleika-
tilfinningu. Hvernig er bara hægt að sækja barnið í skólann, rista tvær brauðsneiðar,
setja í nokkrar þvottavélar og horfa á fréttir eftir svona dag? Hver hefði trúað því
fyrir nokkrum mánuðum að óeirðasveit lögreglunnar yrði með heræfingar fimm
metra frá skrifborðinu mínu í þeim tilgangi að vernda mig og aðra starfsmenn fyrir
æstum múg? Ég horfði á húsin á leiðinni heim í Vesturbæ. Engar rjúkandi rústir
eins og eftir sprengjuárásir eða fólk gangandi um göturnar betlandi mat. Þess í
stað sá ég góðborgara skokkandi, fólk að spúla bílana sína við N1, aðra að viðra
smáhundana sína og fyrir utan Melabúðina var sama umferðaröngþveitið og
venjulega enda tilboð á kanínukjöti.“ Bókin kemur út í lok október.
Lögreglan í vinnunni
Sigríður Björg
Tómasdóttir
sigridur@frettabladid.is
Reyndar finnst
mér athygli
mjög óþægi-
leg ... sem er
algjör mót-
sögn við það
að ég skrifa
bara um sjálfa
mig
LÁRA BJÖRG
BJÖRNSDÓTTIR
RITHÖFUNDUR