Morgunblaðið - 21.01.2009, Side 27
Minningar 27
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 21. JANÚAR 2009
✝ Ásbjörg Guðgeirs-dóttir fæddist í
Reykjavík 30. ágúst
1924. Hún lést á heim-
ili sínu, sambýlinu
Roðasölum 1, 13. jan-
úar síðastliðinn. Hún
var dóttir hjónanna
Guðrúnar Sigurð-
ardóttur og Guðgeirs
Jónssonar bók-
bindara. Systkini Ás-
bjargar eru Guðrún
Jósefína, látin, Einar
Guðmundur, látinn,
Þorlákur, látinn, Sig-
rún, Sigurður, látinn og Jón.
Ásbjörg giftist Björgvin Sæ-
mundssyni, byggingarverkfræðingi
og síðar bæjarstjóra, hinn 20. apríl
1957. Foreldrar hans voru Magnea
Magnúsdóttir og Sæmundur Steins-
son. Björgvin lést 1980. Börn Ás-
bjargar og Björgvins eru: 1) Hildisif,
f. 1960, sambýlismaður Sigurður
Ólafsson, synir hennar
eru Björgvin, f. 1981
og Daníel, f. 1989 2)
Kjartan, f. 1963.
Ásbjörg ólst upp í
Reykjavík, dvaldi um
tíma við nám og störf í
Kaupmannahöfn, hóf
búskap með Björgvin í
Reykjavík 1957 en þau
fluttu á Akranes og
bjuggu þar frá 1958 til
1970, þá flutti fjöl-
skyldan í Kópavog og
bjó Ásbjörg þar til
dauðadags. Eftir lát
eiginmanns hennar hóf hún störf hjá
félagsstarfi aldraðra í Kópavogi og
starfaði þar um árabil. Síðar tók hún
virkan þátt í Félagi eldri borgara í
Kópavogi, var félagi í Inner Wheel
og Dansk Kvindeklub.
Útför Ásbjargar fer fram frá
Kópavogskirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 13.
Stígur lallinn
litli kallinn
ljós með kæti
er þó fallinn
ef að hallar
undan fæti.
Svona hljómaði vísan sem amma
okkar fór alltaf með fyrir okkur bræð-
urna þegar við vorum litlir, jú og svo
Fagur fiskur í sjó með rauða kúlu á
maganum.
Við vorum svo heppnir að stóran
hluta æsku okkar bjó amma hinum
megin við götuna og þangað var alltaf
hægt að koma og slappa af, spila eða
leggja kapal, enda kenndi hún okkur
að leggja 7 spila kapal og spila rommý
svo eitthvað sé nefnt. Áhugamenn um
nammið polo hefðu glaðst að koma
þar í heimsókn því að
aldrei kom það fyrir að manni væri
nú ekki boðið smá polo. Það er und-
arleg tilfinning að hugsa til þess að
hún sé farin, eitthvað sem maður á
ekki eftir að átta sig almennilega á
fyrr en síðar. Það er svo margt sem
var gert nánast eingöngu heima hjá
þér, t.d. baka laufabrauð um jólin og
steiktar fiskibollur á bolludaginn og
ýmislegt fleira í þeim dúr. Amma í
kápunni með innkaupapokann og
rauðu klinkbudduna á leið út í búð.
Við eigum eftir að sakna þín sárt þeg-
ar eitthvað bjátar á vegna þess að þú
varst alltaf reiðubúin að hjálpa og
vera til staðar eins og þegar við vor-
um veikir eða eitthvað amaði að. Það
var skemmtilegt þegar maður hitti
ömmu í seinni tíð að djóka og fíflast
svona til að létta upp á hversdagsleik-
ann, og var hún líka alltaf opin fyrir
hvers kyns bulli sem rann upp úr okk-
ur, svo átti hún það til þegar maður
síst átti von á því að skjóta til baka
með skemmtilegum tilsvörum.
Einhvern tímann komst Björgvin
að því að hún hefði farið upp á mót-
orhjól í sinni yngri tíð og var það hik-
laust notað til að gantast með gömlu
sem fannst það alltaf jafn mikil vit-
leysa þegar hún var spurð hvort hún
væri ekki alltaf að þeysa um göturnar
á mótorhjóli, en hún hafði samt mik-
inn húmor fyrir þessu langþreytta
djóki. Það er svo ótrúlega margt sem
rifjast upp fyrir okkur meðan við sitj-
um hér og skrifum um hana ömmu,
svo mikið að hlýjum minningum sem
gætu fyllt alla blaðsíðuna þess vegna,
og fyrir það erum við þakklátir þér.
Takk fyrir samveruna ,Ásbjörg
amma, við vitum að þú ert komin á
góðan stað og vonandi búin að hitta
afa aftur, og engar áhyggjur, við höld-
um möndlusögunni gangandi.
Björgvin Sigurðarson.
Daníel Sigurðarson.
Eftir að hafa alist upp í Danmörku,
allt til fullorðinsára, kom ég til Ís-
lands, með þér og manni þínum, árið
1961. Þú hýstir mig fyrsta árið mitt
hér og hef ég eingöngu góðar minn-
ingar frá þeim tíma.
Kæra Ásbjörg. Börn okkar uxu upp
saman og samgangur á milli heimila
okkar var tíður og hjálpsemi þín og
væntumþykja var ómetanleg þar sem
alltaf var hægt að sækja stuðning og
ráð í nýju landi. Þegar maður þinn
fékk bæjarstjórastöðu í Kópavogi var
flutningur fjölskyldu þinnar óumflýj-
anlegur en samband okkar rofnaði
aldrei og heimsóknir til þín og heim-
sóknir ykkar voru varla mikið ótíðari
en áður. Alltaf var pláss hjá þér og
alltaf vorum við fjölskyldan velkomin.
Lífið hélt áfram og báðar misstum
við eiginmenn okkar en samband okk-
ar var alltaf traust og börn okkar
finna fyrir skyldleikanum og er sam-
band þeirra nokkuð náið.
Hildisif, Kjartan og börn, ég bið
guð að geyma ykkur.
Ég sakna þín kæra frænka.
Hinsta kveðja,
Sonja.
Kæra frænka. Frá mínum fyrstu
æskuminningum hefur þú alltaf verið
hluti af lífi mínu. Ég held að ég hafi
verið 3ja ára þegar ég flutti í stóra
húsið þitt, sem stóð við hliðina á mínu
heimili og mamma mín og pabbi
keyptu, þegar þú og eiginmaður þinn,
bæjarstjórinn á Akranesi, Björgvin
Sæmundsson, fluttuð í Kópavog, þar
sem hann tók við bæjarstjórnarstörf-
um.
Sem lítill drengur gat ég alltaf sótt í
þína arma, í huggun og styrk. Þú
varst systir ömmu minnar, sem á mín-
um uppvaxtarárum bjó í Danmörku,
og ég hafði lítil samskipti við. Öll mín
uppvaxtarár eru mörkuð þínum spor-
um. Sumarbústaðarferðir. Sumarfrí-
ferðir. Heimsóknir til þín og væntum-
þykjan sem þú hafðir til mín ávallt á
meðan þú stóðst.
Þegar ég óx úr grasi og unglings-
árin gengu í garð urðu ferðir til
Reykjavíkur tíðari. Þá var Akraborg-
in við lýði og auðvelt var að heim-
sækja Reykjavík, til verslunar eða
annara hluta. Hitti maður félaga eða
þyrfti að fresta ferð heim var minnsta
mál að hringja bjöllunni hjá þér,
elsku frænka, maður var alltaf vel-
kominn og alltaf laust pláss til að sofa
á, hvernig sem á stóð.
Mér líður vel, í huga mínum, að
hafa átt þig sem frænku mína og vin,
og vona að þér líði vel á nýjum stað.
Með söknuði,
Bjarki.
Í dag verður til moldar borin okkar
kæra Ásbjörg. Það var sárt að fá þær
fréttir í útlöndum að hún væri látin.
Ekki óraði okkur fyrir því þegar við
heimsóttum hana í Roðasali um jólin,
að hún ætti svo skammt eftir.
Ég kynntist Ásbjörgu fyrir rúmri
hálfri öld, þegar ég fékk á ferming-
arárinu mínu að heimsækja móður-
bróður minn, Björgvin Sæmundsson,
sem var þá við verkfræðinám í Kaup-
mannahöfn. Ásbjörg var þá þerna á
Ms. Gullfossi og höfðu leiðir þeirra
Björgvins legið saman um hríð. Ás-
björg var einnig lærður hand- og fót-
snyrtifræðingur frá Danmörku og
vann hún við það um tíma.
Eftir því sem árin liðu og við höfð-
um stofnað okkar fjölskyldur þá
tengdumst við styrkum vináttubönd-
um sem aldrei rofnuðu. Á þeim árum
sem þau bjuggu á Akranesi í bæjar-
stjóratíð Björgvins var oft mikill erill
og gestagangur á heimili þeirra
hjóna. Þá komu hæfileikar Ásbjargar
vel fram í fágaðri framkomu, skipu-
lagningu á móttöku gesta og var við-
urgjörningur allur hinn besti og nut-
um við hjónin oft góðs af því. Seinna
varð Björgvin bæjarstjóri í Kópavogi
og hélt þá áfram hennar mikilvæga
starf sem bæjarstjórafrú, þá á Skjól-
brautinni. Ásbjörg hafði létta og góða
lund og gegndi hverju starfi af alúð.
Sá var líka bragurinn á hjónabandinu
sem einkenndist alla tíð af gagn-
kvæmri ást og virðingu.
Ófáar voru útilegur og sumarbú-
staðarferðir með þeim hjónum og
börnum okkar, og eru þær gullmolar í
minningu barnanna. Þá var Ásbjörg
óþreytandi að leika við börnin og
fræða þau sem þau þakka fyrir í dag.
Í einni slíkri ferð örlagadaginn mikla
20. ágúst 1980 vorum við stödd á
Holtavörðuheiðinni í fallegu veðri, sól
og heiðríkju. Björgvin stakk upp á því
að við gengjum upp á nálæga hæð til
að virða fyrir okkur hið dásamlega út-
sýni af heiðinni til Eiríksjökuls. Ör-
skömmu síðar fékk Björgvin hjarta-
slag og lést hann samstundis, langt
fyrir aldur fram. Missirinn var mikill
og sár. Ásbjörg sýndi mikinn styrk og
mikla hugprýði í sorginni.
Líf Ásbjargar breyttist við fráfall
Björgvins. Erill dagsins var ekki
sami og um hægðist á heimilinu þegar
börnin Kjartan og Hildisif stofnuðu
sínar fjölskyldur. Ásbjörg hóf þá
störf utan heimilis við félagsstörf
aldraðra hjá Kópavogskaupstað,
bæði við sitt fag sem hand- og fót-
snyrtir og svo aðra umönnun við aldr-
aða.
Það er með miklum söknuði sem
við kveðjum okkar ástkæru vinkonu
Ásbjörgu, og þykir okkur sárt að geta
ekki verið viðstödd útförina vegna
fjarveru okkar.
Við vottum börnum og barnabörn-
um og öðrum aðstandendum Ás-
bjargar okkar innilegustu samúðar-
kveðjur.
Auður og Kjartan.
Fundum okkar bar fyrst saman
haustið 1971. Þá var eiginmaður
hennar Björgvin Sæmundsson bæj-
arstjóri í Kópavogi og undirritaður
nýráðinn félagsmálastjóri þar.
Samskipti okkar hjóna urðu mikil
og ánægjuleg. Björgvin var að sjálf-
sögðu yfirmaður minn, umsvifamikill
í starfi, vinnuþjarkur en gaf mér laus-
an tauminn. Hann lést síðsumars
1980, langt um aldur fram, aðeins
fimmtugur.
Ásbjörg var þessi hæga trausta
kona að baki manni sínum. Hún lagði
allt til hliðar til þess að geta sinnt
heimili og börnum og standa þétt við
bakið á eiginmanni sínum í erilsömu
starfi. Þau eignuðust tvö myndar-
börn, Hildisif og Kjartan. Ég minnist
margra glaðværra samverustunda
með þeim, bæði á heimili þeirra og
okkar, einnig koma upp í hugann ým-
is atvik frá merkisstundum í sögu
Kópavogs þar sem þau hjón voru í
fararbroddi í þróttmiklu sveitarfé-
lagi. Einnig gerðist það óvænt en afar
eftirminnilega að við vorum samtímis
í Kaupmannahöfn á sólarsælum vor-
dögum, en þau hjón bjuggu um árabil
í Danmörku á námsárum Björgvins,
svo þau voru vel hagvön þar og nutu
ríkulega lífsins þessa orlofsdaga.
Það er gott og allt að því nauðsyn-
legt að ylja sér við ljúfar minningar
nú um stundir.
Ásbjörg starfaði seinna, þá orðin
ekkja, við félagsstarf aldraðra hér í
bæ. Hún var afar nærgætin í starfi
sínu, bar mikla umhyggju fyrir fólk-
inu sínu og þessi hægláta kona sýndi í
þessum hópi oft dýrmæta glettni og
kátínu.
Þetta eru þakkarorð fyrir löngu
gengin spor. Við hjónin vottum börn-
um hennar og fjölskyldunni allri hug-
heilar samúðarkveðjur. Gengin er
mæt kona.
Kristján Guðmundsson,
fyrrverandi bæjarstjóri.
Ásbjörg Guðgeirsdóttir
Ásbjörg Guðgeirsdóttir var
ein af stofnfélögum Inner
Wheel-klúbbs Kópavogs árið
1987. Manni leið alltaf vel í
návist Ásbjargar því hún var
glaðvær og hlý í viðmóti.
Hún lagði mikla áherslu á
að mæta á fundina hjá okkur
meðan heilsan leyfði og sökn-
uðum við þess þegar hún gat
ekki lengur verið með. En
svona er lífið og nú er komið
að leiðarlokum. Við þökkum
allar þær góðu minningar
sem við eigum um hana og
sendum aðstandendum henn-
ar hugheilar samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning mætr-
ar konu.
Fyrir hönd Inner Wheel-
klúbbs Kópavogs,
Guðrún Eyjólfsdóttir.
HINSTA KVEÐJA
✝
Ástkær eiginkona mín, móðir okkar, tengdamóðir,
amma og langamma,
ANNA GEORGSDÓTTIR,
Bauganesi 27,
Skerjafirði,
verður jarðsungin frá Neskirkju fimmtudaginn
22. janúar kl. 13.00.
Gunnar Már Pétursson,
Lára Gunnarsdóttir, Ólafur Kristófer Ólafsson,
Kjartan Georg Gunnarsson, Ólína Ágústa Jóhannesdóttir,
Gunnar Már Gunnarsson, Aldís Bára Einarsdóttir,
Pétur Gunnarsson, Dóra Eydís Pálsdóttir,
Margrét Gunnarsdóttir, Eyjólfur Gunnarsson,
barnabörn og barnabarnabörn.
✝
Innilegar þakkir til allra þeirra sem sýndu okkur
samúð og hlýju við andlát og útför elskulegrar
móður okkar, tengdamóður, ömmu og langömmu,
MILDRID SIGURÐSSON,
Hlíf II,
Ísafirði.
Frank Guðmundsson, Teresa Chylenska,
Gunnar Guðmundsson, Jenný Guðmundsdóttir,
Reynir Guðmundsson, Bryndís Gunnarsdóttir,
Guðrún Guðmundsdóttir,
Randí Guðmundsdóttir, Jóhann Dagur Svansson.
✝
Hjartans þakkir fyrir samúðarkveðjur og hlýhug
vegna andláts og útfarar elskulegs föður okkar,
tengdaföður, afa og langafa,
ÓLAFS MARELS ÓLAFSSONAR,
Brekkuvegi 7,
Seyðisfirði.
Sérstakar þakkir til starfsfólks Sjúkrahúss
Seyðisfjarðar fyrir auðsýnda alúð, umönnun og
hlýju.
Theodóra Ólafsdóttir, Adolf Guðmundsson,
María Vigdís Ólafsdóttir,
Hrönn Ólafsdóttir, Guðjón Harðarson,
barnabörn og barnabarnabörn.
✝
Innilegar þakkir færum við öllum þeim sem sýndu
okkur samúð og hlýhug vegna andláts og útfarar
elskulegrar móður okkar, tengdamóður og ömmu,
GUÐLAUGAR BRYNJU GUÐJÓNSDÓTTUR,
Laugarásvegi 20,
Reykjavík.
Sérstakar þakkir færum við starfsfólki 5. hæðar á
hjúkrunarheimilinu Skjóli fyrir frábæra umönnun og
hlýju.
Guðjón Jens Guðjónsson, Shelly Ólafsson,
Bryndís Guðjónsdóttir, Guðjón Baldursson,
Brynja Guðjónsdóttir,
Ása Björk Guðjónsdóttir, Daniel Oates,
Ólafur Kjartan Guðjónsson
og barnabörn.
✝
Innilegar þakkir til allra þeirra sem sýndu okkur
samúð og hlýju við andlát og útför ástkærs föður,
sonar og bróður,
LEÓS KRISTJÁNS SIGURÐSSONAR,
Hátúni 6,
Reykjavík.
Sérstakar þakkir til Hlyns Níels Gunnarssonar
læknis á krabbameinsdeild Landspítalans og
starfsfólks 11E, líknardeildar og heimahlynningar.
Kristófer Leósson,
Sigurður F. Leósson,
Guðrún Sigurðardóttir,
Sigurður L. Sigurðsson, Ester Halldórsdóttir.