Morgunblaðið - 21.01.2009, Side 29
Minningar 29
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 21. JANÚAR 2009
Þú varst alls staðar hrókur alls fagn-
aðar, sama hvort það var í litlum
fjölskylduboðum eða í stórum
veislum. Þegar ég og Siggi giftum
okkur árið 2005 varst þú veislustjóri
og slóst auðvitað í gegn. Ég er svo
þakklát fyrir að eiga veisluna á
myndbandi og geta heyrt málróm-
inn þinn og hláturinn þegar mig
langar til. Vinkonum mínum þótti þú
alltaf svo skemmtilegur, sérstaklega
þegar þú varst að rúnta með okkur
um helgar. Þá var ég orðin 16 ára og
þú með mig í æfingaakstri á Jett-
unni sem þið Emma gáfuð mér. Þær
hlógu og hlógu að bröndurunum þín-
um sem mér fannst vera frekar
þreyttir því ég var búin að heyra þá
svo oft.
Árið 2003 fæddist hún Ína Mar-
grét mín og óskaplega varðst þú
glaður þegar hún brosti sína fyrsta
brosi, til þín á afmælisdaginn þinn.
Hún Ína missir mikið með þér, sinn
besta frænda og vin. Í nóvember á
síðasta ári fæddist svo Birgitta Lilja
mín og ósköp finnst mér ósann-
gjarnt að hún muni ekki kynnast þér
nema í gegnum okkur.
Elsku Sverrir, takk fyrir allt.
Takk fyrir alla skemmtilegu veiði-
túrana, sumarbústaðaferðirnar,
ferðalögin og Portúgalsferðina.
Ég passa gullin þín þau Emmu,
Álfheiði og Birgi Þór og þú lítur eftir
mínum (manstu, eins og við lofuð-
um).
Þín mása,
Ólöf Inga.
Elsku Sveppi minn (eins og þú
lést mig kalla þig þegar ég gat ekki
sagt Sverrir), takk fyrir allt. Þú
varst alltaf svo skemmtilegur og
góður. Þú varst alltaf tilbúinn að
leika við mig þegar ég kom í sveitina
til þín og Emmu. Núna verður
Emma bara að taka við og fara með
mig í fjósið og svona.
Takk fyrir skemmtilegu stundirn-
ar okkar í sumar þegar við, Álfheið-
ur og Ásdís vorum að leika okkur
saman úti í garði í sólinni. Álfheiður
að sprauta á okkur úr vatnsbyssu og
þú að taka af okkur myndir.
Ég veit að þú varst orðinn mikið
veikur og mamma og pabbi segja
mér að núna sé þér batnað og þér
líði vel.
Ég veit að núna ertu búinn að
hitta ömmu Stínu mína og saman
sitjið þið á skýjunum og fylgist með
mér og litlu systur minni, henni
Birgittu Lilju.
Ég sakna þín.
Þín
Ína Margrét.
Nóttin er stjörnum prýdd, lognið
algert og tunglið er fullt. Það er að-
faranótt mánudagsins 12. janúar
þegar Sverrir Heiðar, okkar kæri
frændi og vinur, kveður þennan
heim langt fyrir aldur fram. Maður
spyr sig í sífellu hvort réttlætinu sé
nú sinnt en svo er ekki í þessu tilfelli
ef manngæði eru viðmiðið. En þau
eru ekki viðmið, við erum öll jöfn
gagnvart æðri máttarvöldum, það
vitum við og þess vegna verður mað-
ur að reyna að sætta sig við að vant-
að hafi glæsilegt göfugmenni í hin-
um hæðstu hæðum.
Sverrir Heiðar var snillingur í öllu
því sem hann tók sér fyrir hendur,
hvers manns hugljúfi og einstaklega
gott að vera nálægt honum. Okkar
fyrstu kynni voru þegar Emma
frænka kom með kærastann í heim-
sókn og enginn vafi var á því að hér
var draumaprinsinn mættur. Hann
var glæsilegur, talaði um allt milli
himins og jarðar og átti maður fullt í
fangi með að vera með á nótunum,
svo vel var hann að sér í öllu því er
bar á góma. Honum var boðið krem-
kex frá Frón og hann kallaði það
auðvitað eins og vel lesnum mönnum
er lagið „Sæmundur í sparifötun-
um“.
Margar umræður heimfærði hann
til sveitarinnar og samlíkingarnar
komu þaðan. Allt var betra í sveit-
inni og Sverri þótti vænt um æsku-
slóðirnar fyrir norðan og síðar varð
Borgarfjörðurinn, með Hvanneyri
sem nafla alheimsins, það umhverfi
sem hann unni mest. Hann var nátt-
úruunnandi, fræðimaður um land-
búnað, mikill áhugamaður um
íþróttir, fuglaskoðun, laxveiði o.fl.
Allir höfðu dálæti á Sverri, ekki
síst börnin sem hann kynntist í
gegnum þjálfarastarf sitt sem og
vinir Álfheiðar og Birgis Þórs. Börn-
in okkar fóru ekki varhluta af gæsku
hans og notalegu viðmóti og átti
hann til að mynda alltaf sleikjó
handa þeim og smá fuglatíst fylgdi
iðulega í kjölfarið. Hann spurði allt-
af um hagi þeirra og hann lét þau
finna að þau skiptu máli. Börnunum
fannst Sverrir manna bestur og þau
skilja ekki það óréttlæti sem hann
þurfti að þola en þetta hefur kennt
þeim að dauðinn getur verið óum-
flýjanlegur og einnig að stundum
geti hann verið lausn undan miklum
þjáningum.
Sverrir var duglegur að senda
SMS og tölvupóst og þar sparaði
hann ekki hrósyrðin í okkar garð og
það þykir okkur afar vænt um. Við
vorum englar í þínum augum, en þú
varst stærri, sá allra stærsti. Það
fellur í okkar hlut að senda þér síð-
ustu kveðjuna:
Þú hvarfst með tign og ást í okkar
hjarta, og minningu varir þú nú.
Og frelsarinn bíður með vonina
bjarta, að fá besta engilinn, sem ert
þú.
Sverris er saknað, ekki síst munu
Emma, Álfheiður og Birgir Þór
þurfa að mæta augnablikum sem
reynst geta erfið, en tilhugsunin um
veikindi hans og erfiðleikar tengdir
þeim munu gera þeim kleift að líta
upp og þakka fyrir að til séu staðir
þar sem fólk er losað undan þján-
ingum sínum. Söknuðurinn og sorg-
in yfir að hafa misst elskulegan eig-
inmann og föður mun þó fylgja þeim
um ókomna tíð.
Elsku Emma, Álfheiður, Birgir
Þór, Anna Soffía og Ragna, missir
ykkar er mikill.
Hvíl í friði, elsku Sverrir Heiðar.
Þú varst fyrirmynd.
Laufey og fjölskylda.
Elsku Sverrir minn.
Ég sit hér með augun full af tár-
um og skrifa þessar línur á blað. Ég
var 12 ára þegar þú fæddist í norð-
urherberginu heima í Skógum á
verkalýðsdaginn hinn 1. maí 1967.
Mamma þín sagði að þú hefðir kallað
„búbót fyrir bændur“. Það má nú
segja með sanni að þú hafir staðið
fyrir þeim orðum með sóma allan
þinn starfsaldur sem kennari í
bændaskólanum á Hvanneyri og
ráðunautur bænda.
Ekki varð ég neitt vör við hvað
var að gerast í næsta herbergi við
mig og steinsvaf alla nóttina. En það
var bæði skrítið og skemmtilegt að
vakna við að það var kominn lítill og
fallegur frændi í hópinn okkar. Þú
áttir eftir að vera í Skógum meira og
minna þangað til þú varst um tví-
tugt. Fyrst með mömmu þinni og
systur og svo seinna þið systkinin
mörg sumur hjá ömmu og afa að
hjálpa til við búskapinn.
Það eru svo margar fallegar og
góðar minningar sem koma upp í
hugann á þessari stundu sem verður
gott fyrir okkur fjölskylduna að rifja
upp og ylja okkur við. Þetta hefur
verið afskaplega erfiður tími. Sér-
staklega þessar síðustu vikur sem
vonin fór smádvínandi um að þú
myndir sigra þennan illvíga sjúk-
dóm þrátt fyrir allar bænirnar sem
beðnar voru þér til handa.
En þinn tími virtist vera kominn
svo ósanngjarnt sem mér finnst það.
Þegar ég hugsa um það finnst mér
þetta vera svo öfug röð, þú hefðir átt
að lifa okkur sem eldri erum og við
að taka á móti þér, en ekki öfugt. Ég
trúi að við eigum eftir að hittast aft-
ur og ég er þess fullviss að afi þinn
og nafni hefur tekið á móti þér opn-
um örmum, því svo nálægur hefur
hann verið okkur undanfarnar vikur
sem aldrei fyrr.
Genginn er góður og fallegur
frændi minn í blóma lífsins sem
skildi eftir sig birtu og gleði hvar
sem hann kom. En þjáningunni er
lokið og nýr áfangi tekur við. Megi
ljós kærleika og friðar lýsa þér til
nýrri heima, elsku frændi minn.
Ég bið Guð að styrkja elsku
Emmu, Álfheiði og Birgi Þór svo og
elsku systur mína Önnu, Röggu
mína og fjölskyldu, mömmu mína og
okkur öll sem söknum þín svo sárt.
Þessi heimur hefur misst mikið en
hinn er þeim mun ríkari að vera bú-
inn að fá þig í lið með sér.
Þín frænka,
Sólrún Sverrisdóttir (Sóla).
Þeir deyja ungir sem guðirnir
elska á svo sannarlega við um ást-
kæran frænda minn, Sverri Heiðar,
sem við kveðjum í dag. Hugurinn
hvarlar til æskustöðvanna í Hörgár-
dalnum og margs er að minnast.
Sverrir Heiðar, sonur elstu systur
minnar, fæddist á æskuheimili okkar
Skógum í Hörgárdal þar sem hann
átti á uppvaxtarárunum sitt annað
heimili hjá afa sínum og ömmu.
Hann var ekki hár í loftinu þegar
hann fór að taka þátt í bústörfunum
ásamt Röggu systur sinni og áform
frænda míns voru lengi vel að verða
bóndi í Skógum. Á unglingsárunum
voru þeir frændur og nafnar Sverrir
Heiðar og Sverrir Ágúst oft að bolla-
leggja um hvort þeir myndu ekki í
framtíðinni verða bændur og búa
saman í Skógum. Ýmislegt varð til
þess að ekkert varð af þessum
áformum en strengurinn norður var
alltaf sterkur. Sverrir Heiðar helg-
aði engu að síður krafta sína land-
búnaði og menntaði sig á því sviði í
Bændaskólann á Hvanneyri. Að
námi loknu bauðst honum staða við
skólann sem hann gegndi til æviloka.
Á Hvanneyri naut Sverrir Heiðar sín
vel og tók virkan þátt í öllu mannlífi
staðarins. Þrátt fyrir ungan aldur
hafði hann skapað sér virðingu,
traust og vináttu víða um land fyrir
störf sín. Samfélagið á Hvanneyri er
fátækara og syrgir nú góðan dreng.
Sverrir Heiðar var mikið náttúru-
barn sem lýsti sér bæði í atvinnu og
frístundaiðju. Hann fór oft með vin-
um sínum í veiðiferðir og segja þeir
mér að Sverrir Heiðar hafi lesið
náttúru landsins af einstakri næmi
og ef einhver fiskur var í ánni var
minn maður kominn þar. Aldrei hafi
hann heldur gleymt að hugsa um fé-
laga sína í þessum ferðum því alltaf
var hægt að leita til Sverris Heiðars
ef einhver þurfti á aðstoð að halda
eða vanhagaði um eitthvað.
Kæri frændi, þú sýndir mikinn
dugnað í veikindum þínum, tókst á
við hvern dag með bjartsýni og þín-
um góða húmor sem þú hélst alveg
fram í andlátið. Núna eru allar
þrautir horfnar og þú kominn í
öruggar hendur hjá afa þínum og
nafna sem örugglega hefur tekið vel
á móti þér. Þín verður sárt saknað af
fjölskyldu þinni og vinum.
Elsku Anna systir, Ragnheiður,
Emma, Álfheiður og Birgir Þór, guð
gefi ykkur styrk og huggun í þessari
miklu sorg.
Hvíl í friði, elsku Sverrir Heiðar
minn.
Heiðrún Sverrisdóttir.
Mín fyrsta minning um Sverri er
frá því þegar við vorum báðir ný-
fluttir í Rauðu blokkina við Hjalla-
brautina í Hafnarfirði, sem þá var
nýbyggð. Höfum líklega verið 5-6
ára gamlir og ég man að það komu
strákur og stelpa til okkar þar sem
við vorum að leika okkur í vinnupöll-
unum sem voru utan á blokkinni.
Voru þar komin Sverrir og Ragga,
systir hans. Man ekki mikið meira
um þetta, en alla vega urðum við
Sverrir miklir vinir upp úr því og
lékum okkur saman öll okkar æsku-
ár. Vorum yfirleitt í sama bekk, auk
þess sem við æfðum báðir handbolta
og fótbolta með Haukum.
Í minningunni var þessi tími sam-
felldur leikur og gleði. Fótbolti á
planinu fyrir framan blokkina eða
uppi í skóla, kofabyggingar í hraun-
inu og það sem hraustum og heil-
brigðum strákum dettur í hug að
framkvæma. Sumrin voru stundum
dálítið einmanaleg, því um leið og
skólanum lauk var Sverrir farinn í
sveitina og kom ekki aftur fyrr en
skólinn byrjaði. Ólíkt öðrum krökk-
um hlakkaði ég alltaf til að skólinn
byrjaði aftur því þá kæmi Sverrir í
bæinn.
Unglingsárin voru líka skemmti-
leg í Hafnarfirði, þar vorum við hluti
af nokkurra stráka vinahópi úr Víði-
staðaskóla, sem gekk í gegnum ýms-
ar dillur, eins og Grease-tímabil,
pönktímabil og diskótímabil, sem
Sverrir tók öll saman út með stæl.
Þá eru minningar um fyrstu partíin,
skólaböllin og ýmislegt fleira að
ógleymdum öllum þeim rosalega
mikilvægu íþróttaleikjum sem við
vorum ýmist að taka þátt í, eða fylgj-
ast með.
Þegar Sverrir fór til Akureyrar til
náms fækkaði samverustundunum
eðlilega, hann náði þó að verða ör-
lagavaldur í lífi mínu, því í tvítugs-
afmælinu hans kynntist ég konunni
minni. Við stofnuðum báðir fjöl-
skyldur ungir og höfum síðan ann-
aðhvort búið í sitt hvorum landshlut-
anum eða þá í sitt hvoru landinu, svo
sambandið hefur verið stopult. Í
fyrra tókum við félagarnir svo loks á
okkur rögg og drifum okkur til að
heimsækja Sverri á Hvanneyri. Það
var ákaflega skemmtileg kvöldstund
og ýmsar góðar minningar rifjaðar
upp. Það besta var nú samt að finna
að Sverrir hafði ekkert breyst, hann
var jafn opinn og skemmtilegur og
það var nánast eins og við hefðum
talað saman í gær, en ekki fyrir
mörgum árum.
Sverrir var mikill íþróttamaður og
var góður í nánast sama hverju hann
tók sér fyrir hendur. Var liðtækur í
fótbolta og efnilegur handboltamað-
ur. Hann spilaði yfirleitt í vinstra
horni í sókn og var harðsnúinn varn-
armaður. Það sem einkenndi hann
öðru fremur var sigurvilji og ódrep-
andi keppnisskap, hann gafst aldrei
upp. Af því að dæma hvernig hann
tókst á við sín erfiðu veikindi hafði
það heldur ekkert breyst.
Ég tel mig ákaflega lánsaman að
hafa kynnst Sverri. Hann var glað-
lyndur, oftast syngjandi, opinn og
naut mikilla vinsælda. Umfram allt
var hann góður vinur og drengur
góður. Mér finnst það hræðilega
ósanngjarnt að hann skuli hafa verið
kallaður burt svona ungur og vil
gjarnan senda eiginkonu hans, börn-
um og öðrum fjölskyldumeðlimum
innilegar samúðarkveðjur.
Reynir Jóhannsson.
Kveðja frá Landbúnaðar-
háskóla Íslands
Kær samstarfsmaður er fallinn
frá langt um aldur fram eftir erfiða
en hetjulega baráttu við ströng veik-
indi. Minningarnar streyma fram,
minningar um kraftmikinn og glað-
væran dreng sem ávallt var tilbúinn
að leggja sig allan fram til að vinna
gagn í hverju máli. Ég kynntist
Sverri fyrst sem námsmanni á
Hvanneyri fyrir allnokkrum árum
og er minnisstætt hversu góða nær-
veru hann hafði, ávallt hress og kát-
ur og drífandi hvort sem var í námi
eða félagsstörfum. Bjartsýni var
honum í blóð borin, það vitum við
sem fylgdumst með átökum hans
síðustu misserin, aldrei kom neitt
annað til greina en að sigrast á veik-
indunum og þetta hugarfar smitaði
út frá sér. Hann hélt okkur félögum
sínum vel upplýstum um stöðu mála
hvað veikindin varðaði, það hjálpaði í
vanmætti okkar hinna og lýsir styrk
og æðruleysi Sverris.
Að afloknu kandídatsprófi frá
Hvanneyri réði Sverrir sig til skól-
ans og starfaði þar allt til dánardags,
lengst af við kennslu og stjórnunar-
störf við búfræðibraut skólans.
Hann var vinsæll kennari og sam-
starfsmaður, dugmikill og skipu-
lagður – hreinn og beinn. Hann bjó
ásamt fjölskyldu sinni í þorpinu okk-
ar á Hvanneyri og var samfélaginu
þar afar mikilvægur. Hann lét sig öll
framfaramál á staðnum varða og
beitti sér óspart í þágu samfélagsins
en sérstaklega var það íþróttastarfið
og unga fólkið sem naut góðs af elju
og krafti Sverris Heiðars.
Hvanneyringar hafa misst öflugan
liðsmann. Drífandi kennara við
Landbúnaðarháskólann, hjálpsaman
og góðan nágranna og driffjöður
íþróttastarfs á staðnum. Fyrir hönd
Landbúnaðarháskóla Íslands þakka
ég Sverri Heiðari mikla tryggð og
frábær störf í þágu skólans. Ég votta
fjölskyldu hans mína dýpstu samúð.
Minning um góðan dreng mun lifa.
Ágúst Sigurðsson rektor.
Margslungið er það lífið okkar
mannanna og vægðarlaust erum við
oft minnt á hverfulleika lífsins. Sól-
skinsstundirnar eru þó sem betur
fer oftast fleiri en hinar og lífið þá
baðað í björtu ljósi. Ef lífið og ljósið,
þetta tvennt, haldast í hendur þá líð-
ur öllum vel. Þannig var líf vinar
okkar, Sverris. Hann gekk svo sann-
arlega sólarmegin í lífinu á sinni allt
of stuttu ævi og flutti með sér birtu
og yl hvar sem hann fór. Tengdur
órofa böndum við náttúru landsins
frá morgni lífsins. Sveitin fyrir norð-
an þar sem æskuáranna var notið við
fótskör stórfjölskyldunnar hvarf
aldrei úr huga hans, svo kær var hún
honum. Síðan starfið við uppfræðslu
þeirra sem annast skyldu búin í
sveitum landsins. Áhugamálið, lax-
veiðin, sem hann naut svo mjög í
hópi tengdafólks og vina. Þátttakan í
lífi fólksins í héraðinu hans í leik og
starfi. Skemmtilegur félagi á manna-
mótum og gjarnan í forystu þar.
Uppbyggingarstarfið sem hinir
ungu vinir hans nutu á íþróttasvið-
inu. Alls staðar, hvar sem komið var,
hinn heilsteypti, heiðarlegi,
skemmtilegi og trausti félagi og vin-
ur.
Frá okkar fyrstu kynnum höfum
við fundið ómælda hlýju og vinsemd
frá hans hendi við allt og alla í fjöl-
skyldu eiginkonu hans og hann verið
okkur öllum sannur vinur. Hann bjó
yfir þvílíkum fjölbreyttum hæfileik-
um að fágætt er um unga menn.
Hann var óvenju mikill fjölskyldu-
maður og treysti jafnan böndin við
ættingja og vini með heimboðum og
veislum í tilefni af afmælum og öðr-
um viðburðum innan fjölskyldunnar.
Ávallt hinn yndislegi maður sem öll-
um fagnaði af stakri alúð. Eiginkon-
an og börnin tvö voru eðlilega hon-
um kærust og hann var stoltur faðir
barnanna sinna og gladdist yfir ár-
angri þeirra og þroska. Nú síðast
þegar hann, farinn að kröftum, var
viðstaddur stúdentsútskrift dóttur-
innar þar sem fjöldi ættingja og vina
kom saman til að gleðjast.
Hverfulleiki lífsins hefur nú sýnt
sig. Ungur maður er horfinn á braut
og eftir stöndum við hnípin. Með
þessu ljóði Friðriks Guðna Þórleifs-
sonar kveðjum við okkar elskulega
vin.
Þau ljós sem skærast lýsa,
þau ljós sem skína glaðast
þau bera mesta birtu
en brenna líka hraðast
og fyrr en okkur uggir
fer um þau harður bylur
er dauðans dómur fellur
og dóm þann enginn skilur.
En skinið logaskæra
sem skamma stund oss gladdi
það kveikti ást og yndi
með öllum sem það kvaddi.
Þótt burt úr heimi hörðum
nú hverfi ljósið bjarta
þá situr eftir ylur
í okkar mædda hjarta.
Blessuð sé minning hins góða
drengs.
Einar og Erna, Guðni Krist-
inn, Einar Gunnar og Þórey.
Það lifir mjög sterkt í minning-
unni þegar ég kom til Sverris og
Emmu í „sveitina“ á Hvanneyri. Ég
hef verið um það bil 11 ára gutti,
blautur á bak við eyrun hvað varðar
húsdýr og að óhreinka sig við „verk-
in“. Í þessari heimsókn varð ég vitni
að sauðburði í fyrsta og eina skiptið
hingað til.
Ég man hvað mér var tekið opnum
örmum og af miklum hlýhug allra
fjölskyldumeðlima og var strax tek-
inn inn í hópinn án þess að við þekkt-
umst vel, þó svo að ég og Sverrir
séum bræðrasynir.
Allar götur síðan kallaði Sverrir
mig litla vinnumanninn sinn sem
hann sagði með bros á vör og fyllir
það mig stolti og ánægju þegar ég
hugsa um það. Mér er það sannur
heiður að hafa kynnst Sverri
Heiðari, þó svo að vinátta okkar sé á
enda komin í þessu lífi.
Emma, Álfheiður og Birgir Þór,
ég bið fyrir ykkur á þessu erfiðu tím-
um.
Valdimar Garðarsson.
Fleiri minningargreinar um
Sverri Heiðar Júlíusson bíða birting-
ar og munu birtast í blaðinu næstu
daga.