Morgunblaðið - 22.01.2009, Síða 34
34 Minningar
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 22. JANÚAR 2009
✝ Helgi KristjánHalldórsson
fæddist á Borðeyri
við Hrútafjörð 17.
apríl 1928. Hann lést
á hjúkrunarheimilinu
Skógarbæ 13. janúar
síðastliðinn. Hann
var sonur hjónanna
Halldórs Kristjáns
Júlíussonar sýslu-
manns, f. 29.10. 1877,
d. 4.5. 1976, og konu
hans Láru Valgerðar
Helgadóttur, f. 5.12.
1895, d. 4.2. 1971. Al-
systkini hans eru: 1) Júlíus, f. 26.2.
1924, d. 14.10. 1998, 2) Ingibjörg,
f. 18.12. 1926, 3) Þorgerður, f.
29.12. 1929, 4) Ásgerður, f. 31.1.
1935, 5)Steingerður, f. 14.5. 1940.
Hálfbræður samfeðra: 1) Eiríkur,
f. 21.8. 1903, d. 3.12. 1940, 2)
Hjörtur, f. 18.6. 1908, d. 6.8. 1977,
3) Birgir, f. 15.2. 1920, d. 7.10.
1986.
Helgi kvæntist 13.9. 1952 El-
ísabetu Gunnlaugsdóttur, f. 25.5.
1933. Foreldrar hennar voru
Gunnlaugur Kristinsson múrari, f.
18.7. 1910, d. 3.6. 1994, og konu
hans Steinunnar Ólafsdóttur
Thorlacius f. 26.7. 1911, d. 8.8.
1998. Börn Helga og Elísabetar
eru: 1) Steinunn, f. 13.2. 1953, d.
4.4. 2004, maki Þórður Óskarsson,
f. 31.8. 1953, dætur þeirra eru
Eygló Ósk, f. 22.6. 1976, og Sara
Elísa, f. 20.1. 1981. 2)
Lára Valgerður, f.
9.6. 1956, maki Eric
Jonsson, f. 19.1.
1953, dætur hennar
eru: a) Harpa Magn-
úsdóttir, f. 21.6.
1983, faðir Magnús
Lárusson. b) Lilja
María Jonsson, f.
24.12. 1993. 3) Mar-
grét Hrönn, f. 4.7.
1959, maki Siegfried
Hugemann, f. 27.1.
1965, börn þeirra eru
Hákon, f. 29.1. 1993,
Sunna, f. 13.9. 1995, og Magni, f.
15.6. 1998. 4) Gunnlaugur, f. 26.8.
1963, maki Ágústa Valsdóttir, f.
9.3. 1969, börn: Helgi Steinar, f.
7.6. 1989, móðir Íris Erlingsdóttir.
Börn Ágústu og Gunnlaugs eru
Sævar Þór, f. 29.3. 1996, Díana
Sif, f. 9.4. 1999, og Alexander, f.
25.12. 2001.
Helgi ólst upp á Borðeyri til 9
ára aldurs þar til fjölskyldan flutt-
ist til Reykjavíkur. Hann lærði
járnsmíðar í vélsmiðju Hamars og
fór þaðan í Vélskóla Reykjavíkur
og lauk þaðan prófi 1952. Vann
hjá Rafveitunni í 1 ár og hjá Eim-
skip til ársins 1959 er hann stofn-
aði sitt eigið fyrirtæki Stáliðjuna
sem hann starfrækti til ársins
2005.
Útför Helga fer fram frá Frí-
kirkjunni í Reykjavík í dag kl. 15.
Þegar ég lít til baka og minnist
pabba þá eru margt skemmtilegt
sem rifjast upp, húmorinn hans,
fjölskyldufrasarnir, hvað hann hafði
gaman af barnabörnunum, hann var
mikill náttúruunnandi, listhneigður
og svo var hann einn mesti mann-
þekkjari sem ég hef á ævinni hitt.
Hann sagði mér líka margar
skemmtilegar sögur af því þegar
hann var að byrja með Stáliðjuna og
ævintýrum tengdum henni. Hann
gafst aldrei upp. Þegar hann þurfti
að koma krómtækjunum frá Akur-
eyri til Reykjavíkur en bílstjórarnir
fyrir norðan voru allir farnir í helg-
arfrí, hætti hann ekki fyrr en hann
fékk lánaða lyklana af stærsta vöru-
bílnum á stöðinni og keyrði sjálfur
öll tækin suður. Hann byrjaði með
tvær hendur tómar og tókst með
mikilli vinnu og útsjónarsemi að
byggja upp fyrirtæki sem var hans
líf og yndi. Hann og mamma ferð-
uðust mikið, þegar fólk í kringum
þau fór að kaupa sér sumarhús eða
íbúðir á suðrænum slóðum, vildi
hann ferðast um, vera alltaf á nýj-
um stað, frekar en að vera bundinn
við einn.
Hann kom okkur oft á óvart. Árið
sem hann var fimmtugur vorum við
stödd í Austurríki, öll á skíðum
nema hann. Pabbi hafði einu sinni
farið á skíði þegar hann var í barna-
skóla, þá braut hann lánsskíði í
fyrstu ferðinni og hét því þá að fara
aldrei aftur á skíði. Á öðrum degi í
fallegum fjallabæ í Ölpunum er mér
litið í átt að skíðaskálanum þar sem
kláfurinn kom upp, þar var einhver
skíðamaður sem stoppaði alla um-
ferð, ekki alveg með skíðakunnátt-
una á hreinu, blessaður. „Magga,
sjáðu þennan þarna í brekkunni, er
þetta ekki pabbi?“ Þá hafði minn
maður gefist upp á einverunni og
skellt sér inn á næstu skíðaleigu og
leigt sér stafi, skó og skíði og upp í
fjall fór hann.
Þá er það mannþekkjarinn hann
pabbi. Það var nóg fyrir hann að
spjalla við manneskju í nokkrar
mínútur til að vita hvernig karakter
var þar á ferð, sem atvinnurekandi
átti hann því auðvelt með að raða í
kring um sig duglegu fólki sem var
að hans skapi. Eitt sinn þegar ég
var 15 ára þá lánaði hann mér og
hljómsveitinni minni húsnæði í Stál-
iðjunni til æfinga. Þar æfðum við á
kvöldin og um helgar þegar ekki var
unnið í verksmiðjunni. Eina helgina
voru nokkrir starfsmenn að vinna
og fannst þeim hávaðinn í hljóm-
sveitinni heldur pirrandi. Þá tók
pabbi upp hanskann fyrir okkur og
benti þeim á að söngkonan í þessari
hljómsveit væri hreint frábær lista-
maður og hún ætti eftir að verða
heimsfræg, þeir brostu úti annað og
trúðu honum tæplega. Þessi söng-
kona heitir Björk Guðmundsdóttir.
Mig langar til að þakka þér pabbi
minn fyrir allar samverustundirnar.
Guð blessi þig.
Þinn sonur
Gunnlaugur.
Nú kveð ég í hinsta sinn Helga
Kr. Halldórsson.
Söknuður er mikill og ekki síst
hjá börnunum okkar sem dáðu
hann, og hann þau, en líka þakklæti
fyrir að losna undan þessum erfiða
sjúkdómi sem Alzheimer er. Mig
langar í örfáum orðum að minnast
hans Helga, sem var mannþekkjari
mikill og húmoristi.
Ég kynntist Helga árið 1995, þeg-
ar ég og sonur hans fórum að rugla
saman reytum. Hann var snöggur
að spyrja mig hverra manna ég
væri, svo að hann gæti nú kynnst
mér betur. Á móti var ég fljót að
komast inn í fjölskyldufrasana hjá
honum og þótti mjög gaman að taka
þátt í þeim.
Hann var listrænn maður og þótti
mjög gaman að mála myndir, ásamt
því að stunda golf með Betu sinni
sem gaf honum ekkert eftir í því
sporti og vann ófáa bikarana, sem
skreyttu bústað þeirra hjóna í Önd-
verðarnesinu. Þangað fórum við
hjónin mjög oft í heimsókn með
börnin okkar þar sem þeim fannst
óendanlega gaman að leika sér í
skóginum sem afi þeirra og amma
gróðursettu.
Ég vil þakka þér fyrir skemmti-
lega samveru í gegnum árin. Það er
gott að vita að þér líður vel núna.
Hvíl í friði Helgi minn.
Þín tengdadóttir
Ágústa Valsdóttir.
Móðurafi minn, Helgi Kr. Hall-
dórsson, er látinn eftir áratuga
langa baráttu við Alzheimersjúk-
dóminn. Hann er laus úr fjötrum
þessa skelfilega sjúkdóms sem
smátt og smátt rændi þennan kraft-
mikla og glæsilega mann heilsunni.
Afi minn var í marga staði óvenju-
legur maður. Hann var skarp-
greindur, með ákveðnar skoðanir á
mönnum og málefnum sem hann
hafði ánægju af að viðra. Hann hafði
mikla kímnigáfu og ávallt var stutt í
hláturinn þar sem augun pírðust
saman, hann bar höndina fyrir
munninn og hló sínum smitandi
hlátri. Afi minn var einnig hógvær
maður og á margan hátt feiminn og
vildi síst af öllu að athyglin beindist
að sér. Barngóður var hann með
eindæmum.
Afi ólst upp fyrstu æviárin á
Borðeyri við Hrútafjörð en fluttist 9
ára gamall til Reykjavíkur. Það er
sagt að römm sé sú taug er rekka
dregur föðurtúna til og síðustu ævi-
árin leitaði hugurinn æ oftar til
Borðeyrar.
Afi tók á sínum yngri árum þá
ákvörðun að hann skyldi vera sjálfs
síns herra og ekki öðrum háður er
kæmi að vinnu. Eftir að hafa unnið
sem vélstjóri á sjó og landi til nokk-
urra ára stofnaði hann járnsmíða-
verkstæði í Melbæ við Sogaveg árið
1959. Fyrirtækið óx undir stjórn
hans og varð síðar að Stáliðjunni hf.
Afi var áhugamaður um myndlist
auk þess að vera náttúruunnandi.
Mér eru minnisstæðar ferðir með
afa á Kjarvalsstaði þar sem hann
fræddi okkur systurnar um meist-
ara höggmynda- og málaralistarinn-
ar.
Afi var einstaklega heilsuhraustur
og það var mikið áfall þegar hann
greindist með Alzheimersjúkdóm-
inn, þann sama sjúkdóm sem hafði
dregið móður hans til dauða. Afi var
lánsamur að hann naut umönnunar
ömmu minnar, Elísabetar, í veikind-
um sínum. Hún annaðist hann af
einstakri natni og væntumþykju síð-
ustu æviár hans.
Afi varð fyrir því áfalli árið 2004
að missa elstu dóttur sína, Stein-
unni. Þrátt fyrir það að veikindin
væru farin að segja til sín á þeim
tíma veit ég og fann að missir hans
var mikill og sorgin djúp. Þau feðg-
inin voru um margt lík bæði að ytra
útliti og persónuleika og böndin sem
tengdu þau sterk. Vonandi eru þau
nú saman á ný.
Margar dýrmætustu æskuminn-
ingar mínar tengjast ömmu og afa í
Sævarlandi. Sérstaklega kærar eru
minningar úr sumarbústaðnum í
Grímsnesi. Þá var farið í golf,
minnst níu holur, á meðan við
krakkarnir fórum í sundlaugina.
Amma bakaði vöfflur þegar heim
var komið og afi þeytti rjómann á
gamla mátann, enda ekkert raf-
magn í bústaðnum.
Ég var tíður gestur á heimili
ömmu og afa á mínum yngri árum.
Kvöldmatur hófst iðulega með því
að undirrituð var send að vekja afa
úr eftirmiðdagslúrnum. Að kvöld-
mat loknum var ísinn sóttur og afi
látinn hræra. Síðan var horft á Dall-
as eða Derrick. Afi kippti sér svo
ekkert upp við það þótt hann væri
sendur að sofa í saumaherberginu
svo undirrituð gæti sofið í afabóli við
hliðina á ömmu.
Það er með trega og söknuði sem
ég kveð elskulegan afa minn í hinsta
sinn. Ég þakka fyrir hversu lánsöm
ég hef verið að eiga hann að þessi ár
og fyrir allar þær góðu minningar
sem ég á um hann.
Eygló Ósk Þórðardóttir.
Elsku besti afi, nú ertu farinn til
himna.
Það hafa örugglega margir komið
og tekið á móti þér, eins og til dæm-
is Steina frænka okkar, mamma þín
og pabbi og margir fleiri. Og nú vit-
um við að þér líður miklu betur hjá
öllum englunum þarna uppi.
Það var alltaf gaman að heim-
sækja þig í sumarbústaðinn, og
koma í Sævarlandið og svo núna síð-
ast í Skógarbæ. Þá löbbuðum við oft
með pabba, því það var svo stutt frá
okkur til þín í Skógarbæ.
Við eigum eftir að sakna þín mikið
elsku besti afi, við systkinin erum öll
með fallega mynd af þér í herbergj-
unum okkar, og hugsum til þín á
hverjum degi.
Við vonum að þú skemmtir þér
vel á himnum með öllum sem þú
þekkir þar, þú ert örugglega að
spila golf núna ef við þekkjum þig
rétt.
Við þökkum þér fyrir allar
skemmtilegu stundirnar.
Hvíldu í friði elsku afi.
Þín barnabörn,
Sævar Þór, Díana Sif
og Alexander.
Hann afi minn var fallegur og
tignarlegur maður. Hann var kraft-
mikill og sterkur persónuleiki sem
óhætt er að segja að hafi verið
mörgum ógleymanlegur. Dugur og
athafnasemi einkenndu hann bæði í
leik og starfi. Afi var hlýr og gaf
mikið af sér en var jafnframt gagn-
rýninn á menn og málefni.
Minningar mínar um afa þar sem
hann stendur með krosslagðar
hendur, og virðir fyrir sér málverk,
eru margar. Hann var mikill list-
unnandi og kynnti mig fyrir mynd-
listinni af kappi á barnsárum mín-
um. Þetta átti stóra hlutdeild í því
að ég skyldi á fullorðinsárum taka
myndlistina mér fyrir hendur. Hann
hafði sterkar skoðanir á hverju
listaverki fyrir sig og var alltaf
fylginn sér í þeim skoðunum.
Auga hans fyrir fegurð var ótví-
rætt og það var sama hvað átti hlut
að máli; listaverk, byggingar, nátt-
úran eða jafnvel dýr. Þessi hæfileiki
hans til að greina fegurð og næmi
hans fyrir hönnun nýttist honum vel
í starfi og var hann frumkvöðull á
sínu sviði.
Ekki má gleyma að minnast
þeirrar einstöku kímnigáfu sem afi
hafði. Í huga mínum munu lifa hans
sígildu orðatiltæki svo sem: „er búið
að þeyta rjómann?“ sem hann
spurði í gamni þegar kallað var í
kaffi og „heldurðu að ég hafi sofn-
að?“ eftir að augljóst var að hann
hafði steinsofnað um eftirmiðdag-
inn. Það eru óteljandi slík orðatil-
tæki sem afi átti og notaði óspart í
gríni.
Afi sinnti barnabörnum sínum af
miklum áhuga og er ég svo lánsöm
að vera eitt þeirra. Listaverkið sem
við afi unnum saman einn daginn í
Stáliðjunni, þegar ég var barn, situr
nú á besta stað í stofunni minni og
yljar mér um hjartarætur.
Nú, þegar sól afa míns hefur
gengið til viðar og hann farinn til
endurfunda við dóttur sína Stein-
unni, móður mína, þakka ég honum
samfylgdina í gegnum árin.
Sara Elísa Þórðardóttir.
Við Helgi urðum nágrannar þegar
við fluttum í Fossvoginn við Rétt-
arholt árið 1940.
Hann bjó í Melbæ í Sogamýri. Við
kynntumst þegar ég fór í Laugar-
nesskólann um haustið. Ég man það
enn þegar ég tók eftir honum fyrst.
Það var snjóboltaslagur í frímínút-
unum. Hann stóð fremstur í flokki
andstæðingana, sem báru sigurorð í
slagnum, en mér fannst eftirtekt-
arvert hvað honum virtist umhugað
um að meiða engan.
Helgi hafði búið sem barn á Borð-
eyri við Hrútafjörð þar sem faðir
hans, Halldór Júlíusson, var sýslu-
maður í Strandasýslu, þar til hann
hóf búskap í Melbæ.
Við urðum síðan samferða gegn-
um Ingimarsskólann, en hann lagði
síðan leið sína í járnsmíðar hjá vél-
smiðjunni Hamri, og vélstjóranám í
Vélstjóraskóla Íslands, þaðan sem
hann útskrifaðist 1952. Hann var
vélstjóri á skipum Eimskips í nokk-
ur ár. Þegar faðir hans brá búskap
1958 hóf Helgi járnsmíði í Melbæ í
húsnæði því sem áður hafði hýst
kýrnar. Hann rak síðan fyrirtækið
Stáliðjuna hf. í Kópavogi þar til
hann lét af störfum fyrir nokkrum
árum. Það þurfti þrautseigju til þess
að halda fyrirtækinu gangandi öll
þessi ár.
Eftir að Ísland gekk í ESS varð
mikil breyting hjá mörgum iðnfyr-
irtækjum hér vegna vaxandi sam-
keppni. Lögðu þá mörg þeirra upp
laupana. Áratugum saman fór Helgi
á sunnudagskvöldum á vinnustað til
þess að undirbúa framleiðsluna fyr-
ir vikuna framundan. Hann hafði
mikinn stuðning af eiginkonu sinni,
Elísabetu Gunnlaugsdóttur, sem
hann kvæntist ungur að árum og
stóð við hlið hans alla tíð.
Hann lést á vistheimilinu Skóg-
arbæ eftir erfið veikindi.
Það er með söknuði sem ég kveð
gamlan félaga, sem oft reyndist mér
vel.
Einar Magnússon.
Gæfa mín er að kynnast ýmsum
frumkvöðlum í iðnaði Reykjavík á
síðari hluta nýliðinnar aldar. Einn
þeirra var Helgi Halldórsson eig-
andi Stáliðjunnar hf. sem kvaddur
er í dag. Helgi var á margan hátt
minnisstæður maður og hafði
dirfsku til þess að reyna að láta
drauma sína rætast. Vegna þess hve
mannanna verk gleymast fljótt,
langar mig að minnast í fáeinum
orðum frumkvæðis Helga á áttunda
áratug aldarinnar.
Helgi var vélstjóri að mennt og
stundaði sjóinn, aðallega á farskip-
um. Hann notaði að eigin sögn frí-
vaktir til þess að dunda sér smáveg-
is við smíðar. Þetta leiddi til þess að
hann langaði til að gera eitthvað
nýtilegt og fór að smíða blóma- og
blaðagrindur sem hann gaf kunn-
ingjunum og af rælni bauð hann
einhverri verslun þessa smíði. Var-
an líkaði vel og hann stofnaði eigið
fyrirtæki; Stáliðjuna. Hann sagði
mér að kunningi hans, sem átti
heima í New York, hafi séð skrif-
stofustóla hjá honum og hvatt hann
til þess að leyfa sér að kanna sölu á
stólunum þar í borg. Helgi sló til.
Flutningskostnaður reyndist vera
mjög hár innanlands í Bandaríkj-
unum, en Helgi dó þó ekki ráðalaus,
hann flaug vestur og leigði sér
sendibíl og skilaði vörunni frá borði
til kaupanda og sparaði samt. Þetta
varð honum hvatning. Hann bar
næst niður í Skotlandi og varð Glas-
gow fyrir valinu. Helgi fékk hús-
næði í nýju hverfi og stofnaði fyr-
irtækið Norsteel Ltd. og hugðist
þannig auðvelda sér að komast á
markað á Bretlandseyjum. Hann
framleiddi stólahluta í Kópavogi og
setti þá saman í verksmiðjunni í
Cumbernault.
Árið 1973 var Ísland á margan
hátt miklu einangraðra heldur en í
dag og aðföng oft erfið. Verðbólga
og gjaldeyrishöft settu þröngar
skorður. Helgi smíðaði nánast allt
sjálfur sem nota þurfti til fram-
leiðslunnar. Róðurinn var þungur
og hann reyndi að fá aðra hér heima
til samstarfs. Menn voru tregir til,
kannski ekki að ástæðulausu, fram-
andi aðstæður og tungumálavand-
ræði. Einn var þó sem fannst þetta
spennandi og dáðist að kjarki
Helga. Það var Jón P. Jónsson eig-
andi Gamla Kompanísins, sem nú er
látinn. Þeir Helgi ráku saman þetta
fyrirtæki í fáein ár. Loks var rekstri
þess hætt aðallega vegna ytri skil-
yrða. Helgi nýtti krafta sína til upp-
byggingar heima. Skrifstofuhús-
gögn sem ég hannaði fyrir Gamla
Kompaníið var reynt að selja í Skot-
landi. Það sem ekki vannst á þeim
markaði, gekk því betur á Íslandi.
Stáliðjan framleiddi allan stálbúnað
til þeirra húsgagna um aldarfjórð-
ungs skeið. Helgi hafði satt að segja
ekki mikla trú á hönnuðum. Það
kom þó ekki í veg fyrir að við ættum
prýðilegt samstarf vegna vöruþró-
unar og er ljúft að minnast fjöl-
margra vinnufunda þar sem best
kom í ljós hve snjall og úrræðagóð-
ur Helgi var. Hann rak Stáliðjuna
síðustu árin í félagi við Einar Ein-
arsson, sem hóf störf mjög ungur í
Stáliðjunni. Hann rekur nú fyrir-
tækið. Helgi gerðist útrásarmaður
fyrir tæpum 40 árum, einn af fáum
sem sýndi bæði áræði og kraft.
Þetta hefur alltaf vakið aðdáun
mína.
Ég sendi fjölskyldu Helga inni-
legar samúðarkveðjur við fráfall
hans.
Pétur B. Lúthersson.
Helgi Kristján
Halldórsson