Morgunblaðið - 01.02.2009, Qupperneq 32

Morgunblaðið - 01.02.2009, Qupperneq 32
32 Tónlist MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 1. FEBRÚAR 2009 Eftir Orra Pál Ormarsson orri@mbl.is B lóð, iður og limlestingar leika stórt hlutverk í svartamálmsstefnunni, einni af undirgreinum þungarokksins. Öllu er til tjaldað svo ganga megi fram af lýðnum. Í flestum tilvikum er að- eins um leikræna tilburði að ræða – sýndarmennsku. Afbrigðið frá regl- unni er norska sveitin Mayhem (Limlesting) sem virðist hafa tekið hlutverk sitt helst til alvarlega. Ætli megi ekki segja að liðs- mönnum þessarar ágætu sveitar hafi runnið blóðið til skyldunnar. Mayhem var stofnuð í Ósló árið 1984 af gítarleikaranum og söngv- aranum Øystein Aarseth, sem tók sér listamannsnafnið Euronymous, bassaleikaranum Jørn Stubberud, ellegar Necrobutcher og trym- blinum Manheim. Seinna bættust í hópinn söngvararnir Maniac og Messiah. Tilgangurinn var að leika svartamálm af djúpri innlifun en sá angi var þá nýlega sprottinn á meiði þungarokksins. Euronymous fór fyrir sveitinni en hann starfrækti meðfram henni útgáfufyrirtækið Dauðaþögn og hljómplötuverslunina Helvíti. Verslunina sá hann fyrir sér sem svarta kirkju, þar sem væri svo dimmt að gestir og gangandi þyrftu að bregða kyndlum á loft til að finna tónlistina. Með dauða kráku í krukku Fyrstu starfsár Mayhem voru fremur tíðindalítil en þegar sænski söngvarinn Per Yngve Ohlin, sem kallaði sig einfaldlega Dead, gekk til liðs við sveitina 1988 fór að fær- ast fjör í leikinn. Fyrir það fyrsta urðu tónleikar Mayhem alræmdir. Sveitin lét iðulega stjaksetja svín eða sauði fremst á sviðinu, auk þess sem Dead hafði yndi af því að blóðga sig með veiðihnífum og gler- brotum. Hermt er að hann hafi ver- ið heillaður af viðbrögðum tónleika- gesta við þessu. Einu sinni gekk Dead svo langt að flytja þurfti hann á sjúkrahús vegna blóðmissis. Einhverju sinni gekk kappinn fram á dauða kráku og hafði hana upp frá því með sér í krukku til að geta þefað af henni fyrir tónleika. Dead naut þess að hafa daun dauð- ans í nösunum meðan hann söng. Í þessu ljósi kemur ekki á óvart að söngvarinn hafi haft þann sið að grafa fötin sín í jörð nokkrum vik- um fyrir tónleika. Rétt áður en hann steig á svið gróf hann svo klæðin upp og skrýddist þeim á ný. Tilgangurinn var að líta út eins og hann væri nýstiginn upp úr gröf- inni. Dead mun víst hafa sótt það stíft að fara alla leið með þennan leik og búa sig bókstaflega undir tónleika neðar foldu en enginn fékkst víst til að moka yfir hann. Hafði ekki yndi af tilverunni „Dead var einkennilegur náungi, dapur, þunglyndur og lifði í algjöru myrkri,“ sagði Jan Axel Blomber, Hellhammer, sem lengst af hefur lamið húðir hjá Mayhem, einhverju sinni þegar söngvarann bar á góma. Euronymous gítarleikari tók í sama streng: „Ég held að Dead hafi verið vanheill á geði. Er hægt að lýsa manni sem sveltir sig til að fá hungursár með öðrum hætti?“ Líklega hittir Bård Eithun, betur þekktur sem Faust, trommuleikari annars svartamálmsbands, Empe- ror, naglann á höfuðið: „Eigi ég að segja alveg eins og er þá held ég að Dead hafi haft takmarkað yndi af þessari tilveru.“ Það fór líka svo að Dead svipti sig lífi, 8. apríl 1991, 22 ára að aldri. Þremur árum síðar upp á dag komu menn að Kurt Cobain, forsprakka Nirvana, látnum vestur í Banda- ríkjunum. Ekki er þó vitað um tengsli þessara tveggja manna í millum. Verknaðinn framdi Dead í litlu skógarhúsi í eigu Mayhem-liða. Hann lét ekki nægja að skera sig á púls heldur skaut sig líka í höfuðið með haglabyssu. Hjá líkinu var sjálfsvígsorðsending þar sem Dead baðst forláts á öllu blóðinu og því að hafa hleypt af byssunni innan- dyra. Euronymous kom að Dead látn- um. Í stað þess að hringja á lög- regluna, eins og flestir hefðu líklega gert, brá gítarleikarinn sér út í næstu sjoppu og festi kaup á ein- nota myndavél til að ljósmynda lík- ið í bak og fyrir. Necrobutcher bassaleikari bar síðar blak af þess- um óhefðbundna gjörningi og hélt því fram að Euronymous hefði brugðið svo illilega við sjálfsvíg fé- laga síns að eina leiðin til að höndla það hafi verið að taka ljósmyndir. Athyglisverð rök. Einni ljósmyndanna var síðar stolið og rataði hún framan á plötu- albúm ólöglegrar útgáfu frá tón- leikum Mayhem, Dawn of the Black Hearts. Smekklegt, eða þannig. Euronymous lét sér ekki nægja að ljósmynda líkið. Orðrómur var lengi á kreiki þess efnis að hann hefði lagað sér kássu úr heilaslett- um Deads en hljómsveitin hefur alla tíð borið hann til baka. Á hinn bóginn hafa Mayhem-liðar staðfest að Euronymous bjó til hálsfesti úr flísum úr höfuðkúpu félaga síns. Hálsfestinni var síðar stolið og hafa ýmsar svartamálmskempur haldið því fram að þær hafi hana undir höndum. Djöfladýrkun, dulspeki og almenn mannfyrirlitning Dead var horfinn af sjónarsviðinu en Necrobutcher fullyrðir að sjálfs- víg hans hafi vakið gríðarlega at- hygli á svartamálmsstefnunni. Mayhem hélt áfram eins og ekk- ert hefði í skorist og tók ungverski söngvarinn Attila Csihar við hljóð- nemanum. Áföllin áttu hins vegar eftir að verða fleiri. Euronymous var gegnsýrður af djöfladýrkun og á bólakafi í dul- speki og almennri mannfyrirlitn- ingu. „Satanismi er afsprengi krist- innar trúar, og þannig mun það verða. Ég er trúaður maður og ég mun kljást við þá sem leggja nafn Hans við hégóma. Fólk á ekki að trúa á sjálft sig og hafa ein- staklingshyggjuna í hávegum. Það á að hlýða og vera þrælar trú- arinnar,“ sagði gítarleikarinn eitt sinn í viðtali. Með Honum á hann við kölska. Árið 1992 leysti Varg Vikernes, sem þá kallaði sig Count Gris- hnackh, Necrobutcher af á bass- anum. Hann var líkt og Euronymo- us lítill áhangandi almættisins en fremur heiðinn en satanískur í hugsun. Þá um sumarið tengdist hann fjölda atvika, þar sem reynt var að kveikja í fornfrægum staf- kirkjum í Noregi eða þær hreinlega brenndar til kaldra kola. Þeirra frægust Fantoft-kirkjan sem reist var á tólftu öld. Vikernes gekkst ekki við íkveikj- unum en grét þær heldur ekki. „Þetta er hefnd. Hver kirkjugarður sem er skemmdur er hefnd fyrir heiðna gröf sem kristnir menn hafa lagt í rúst. Hver kirkja sem brenn- ur er hefnd fyrir heiðið hof sem er glatað,“ skrifaði hann einu sinni í málgagn norskra heiðingja. 23 stungusár á líkinu Margt bendir til þess að Viker- nes og Euronymous hafi ekki átt skap saman. 10. ágúst 1993 hélt sá fyrrnefndi sem leið lá frá Björgvin, þar sem hann bjó, til Óslóar til að taka hús á Euronymous. Fljótlega sló þar í brýnu með þeim afleið- ingum að Vikernes stakk Euro- nymous til bana. Illa útleikið lík hans fannst fyrir utan íbúðina, á því voru hvorki meira né minna en 23 stungusár. Euronymous var 25 ára að aldri. Ekki er ljóst hvers vegna Viker- nes réð félaga sínum bana. Við vitnaleiðslur hélt hann því raunar fram að Euronymous hefði ætlað að myrða sig og hann brugðist til varnar. Fjölda stungusáranna út- skýrði hann með því að flest þeirra hefði Euronymous hlotið þegar hann féll á glerbrot meðan á átök- um þeirra stóð. Sextán sáranna voru á baki fórnarlambsins. Seinna fullyrti Vikernes á heima- síðu sinni að Euronymous hefði haft á prjónunum að pynta sig til bana og festa vígið á filmu. Böndin beindust fljótt að Viker- nes og þegar hann var handtekinn fannst umtalsvert magn sprengi- efnis á heimili hans. Það hugðist hann nota til að sprengja í loft upp fylgsni róttækra vinstrimanna og anarkista í Ósló. Handtakan kom sumsé í veg fyrir það. Sumir hafa gert því skóna að þessi áform hafi leitt til morðsins á Euronymous, sem hneigðist til kommúnisma, og hefði fyrir vikið aldrei stutt téðan verknað. Það er ósannað. Brosti sínu breiðasta í dómsal Vikernes var fundinn sekur um morð og þátttöku í ýmsum íkveikj- um og dæmdur í 21 árs fangelsi, sem er hámarksrefsing í Noregi. Ljósmyndir staðfesta að hann brosti sínu breiðasta þegar dóm- urinn var kveðinn upp. Hann hefur haldið áfram að semja og flytja tónlist bak við lás og slá og m.a sent frá sér plötuna Dauði Baldrs. Þá hefur Vikernes verið virkur í pólitísku starfi hægri öfgahópa. Hann sótti síðast um náð- un síðastliðið sumar en var synjað. Vikernes mun ganga laus á ný í síð- asta lagi árið 2015. Að Euronymous og Vikernes gengnum úr skaftinu var starfsemi Mayhem sjálfhætt enda trymbillinn Hellhammer einn eftir um borð. Hann endurreisti þó sveitina tveim- ur árum síðar ásamt Necrobutcher, söngvaranum Maniac og gítarleik- aranum Blasphemer. Geðug nöfn á þessum köppum! Maniac þessi átti um langt árabil við áfengisvandamál að stríða en vatnaskil urðu þegar hann rankaði eitt sinn við sér þar sem hann hékk á annarri hendinni út um glugga á hótelherbergi á fjórðu hæð. Hafði kappinn ekki hugmynd um hvernig hann hafði komið sér í þá aðstöðu. Eftir þá lífsreynslu þótti honum mál til komið að setja tappann í. Mayhem hefur starfað allar götur síðan enda þótt Attila Csihar og Morfeus hafi leyst Maniac og Blasphemer af hólmi. Þannig skip- uð mun sveitin troða upp í Nes- kaupstað í sumar. Þá er bara að stefna skónum austur og berja her- legheitin augum. Kunnugir fullyrða að þessi misserin vætli blóðið ein- göngu í æðum. Daunn dauðans Fortíð norsku svartamálmssveitarinnar Mayhem, sem að líkindum mun leika á Eistnaflugi í Neskaupstað í sumar, er blóði drifin. Einn liðsmanna féll fyrir eigin hendi og annar réð þeim þriðja bana og hlaut að launum fangelsisdóm. Í millitíðinni brunnu nokkrar kirkjur til kaldra kola enda leiða þeir Mayhem-liðar almættið seint til öndvegis. Bent er á að þessi grein er ekki við hæfi viðkvæmra. Tukthúslimur Varg Vikernes af- plánar nú 21 árs dóm vegna morðs- ins á Euronymous haustið 1993. Skuggalegur Euronymous þótti frambærilegur tónlistarmaður en hann var djöfladýrkandi fram í fingurgóma. Lífi hans lauk með voveiflegum hætti. Látinn Söngvari Mayhem, Dead, stóð á endanum undir nafni. Félagar Vikernes, eða Count Gris- hnackh, og Euronymous meðan allt lék í lyndi. Þeim laust svo saman. ‘‘EURONYMOUS KOM AÐDEAD LÁTNUM. Í STAÐÞESS AÐ HRINGJA ÁLÖGREGLUNA, EINS OG FLESTIR HEFÐU LÍK- LEGA GERT, BRÁ GÍT- ARLEIKARINN SÉR ÚT Í NÆSTU SJOPPU OG FESTI KAUP Á EINNOTA MYNDAVÉL TIL AÐ LJÓSMYNDA LÍKIÐ Í BAK OG FYRIR.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.