Morgunblaðið - 15.03.2009, Blaðsíða 18
18 Tengsl
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15. MARS 2009
Eftir Valgerði Þ. Jónsdóttur
vjon@mbl.is
María: „„Guð minn góður, barnið er
með svo mikið hökuskarð,“ hrópaði
ljósmóðirin upp yfir sig, þegar Júl-
íus fæddist og áður en ég vissi hvort
barnið væri strákur eða stelpa. Svo
komu feðgarnir, Rúnar og Baldur
Þórir, sem þá var sjö ára, í heim-
sókn og Baldur Þórir varð strax af-
ar stoltur stóri bróðir.
Júlíus var sannkallaður gleðigjafi
frá fæðingu. Óskaplega fallegur,
með blásvartar krullur, ljúfur og
þægur frá fyrstu tíð. Við mynd-
uðum strax gott samband, spjöll-
uðum mikið saman frá því hann var
tveggja til þriggja vikna á svona ga-
ga, gú-gú máli, sem við ein skildum.
Vegna aldursmunar höfðu þeir
bræður ekki mikinn félagsskap hvor
af öðrum framanaf, en það breyttist
með árunum. Þeir eiga sameiginlegt
áhugamál, sem er tónlistin, og sam-
eiginlega vini, en eru um margt afar
ólíkir. Júlíus er stríðnari en Baldur
Þórir og var stundum að taka stóra
bróður sinn á taugum. Honum
fannst líka voða fyndið að fela gler-
augu eða lykla afa síns og ömmu og
fylgjast svo áhugasamur með þeim
leita.
Hann var ekki nema tveggja,
þriggja ára þegar hann sýndi
trommunum mikinn áhuga, en
heima hjá okkur voru auðvitað
hljóðfæri út um allt. Núna finnst
mér hann besti trommarinn á land-
inu. Fimm ára tróð hann uppi á
dagheimilinu sínu með söng og
hljóðfæraslætti, en þá bara með
þykjustu hljóðfæri, badmin-
tonspaða, sem hann hafði sem gítar,
og stóra klemmu að heiman, þar
sem á stóð: Don’t forget. Pabbi
hans var honum til halds og trausts
í þessari fyrstu framkomu.
Ég var með hárgreiðslustofu í
húsinu okkar þegar Baldur Þórir
var lítill, en fór að vinna í Bifreiða-
eftirlitinu eftir að Júlíus fæddist.
Rúnar var því meira heimavið en
ég, sem hins vegar var oft ein með
þá þegar hann var einhvers staðar
að spila. Júlíus var og er óskaplega
skemmtilegur, félagslyndur og vin-
sæll og tók oft vini sína með sér
heim í mjólk, kókópuffs og kex.“
Mikið skáld
„Hann var frekar fullorðinslegur
krakki, alltaf að segja sögur, sem
hann bjó til, talaði helst í rímum og
fór ungur að semja tónlist, lög og
texta. Hann er mikið skáld, en hef-
ur þá gáfu ekki frá mér því ég er al-
veg glötuð að semja texta, næ ekki
nema einni, tveimur línum. Hann
var ekki nema sautján ára þegar
hann samdi leikritið Er tilgangur?,
sem sett var upp í Félagsbíóinu hér
í bænum. Verkið fjallaði um ung-
lingavandamál og í því var mikil
tónlist, sem síðan kom út á plötu.
Það er ábyggilega ekki mér að
þakka hvað hann er efnilegur í alla
staði. En ég gaf þeim náttúrlega að
borða! – eins og ég segi af hógværð
við þá sem hafa á orði hvað ég sé
heppin með drengina mína.
Júlíus er líkari pabba sínum í sér
en mér. Ég tók líka eftir því um
daginn að hann hefur alveg eins
hendur og hann, en ég hef ekkert
verið að minnast á það. Ég á þó
heilmikið í honum og hann sver sig
að mörgu leyti í mína ætt. Hann er
mikill húmoristi, einstaklega vinnu-
samur, enda eftirsóttur í vinnu.
Honum fellur aldrei verk úr hendi
og finnst mjög gaman að alls konar
handverki; að mála, gera við og
þess háttar. Þá er hann úrræðagóð-
ur og lætur fátt koma sér úr jafn-
vægi. Kannski er ég svolítið þannig
líka.
Við lifðum og hrærðumst í tón-
listinni og tókum strákana oft með
okkur út á land þegar við vorum að
spila í Geimsteini. Þegar þeir uxu
úr grasi spiluðu þeir með pabba sín-
um, síðustu árin voru þeir saman í
hljómsveit, Júlíus á trommum og
Baldur Þór á hljómborði. Svo höfð-
um við Rúnar stofnað Geimstein,
útgáfufyrirtæki 1976 og samnefnt
hljóðver 1982, sem strákarnir unnu
alltaf mikið í og reka nú ásamt mér
eftir lát Rúnars. Annars var fjöl-
skyldulífið mjög hefðbundið, mikill
samgangur milli okkar og bæði for-
eldra minna og Rúnars, sem öll
bjuggu í næsta nágrenni. Við fórum
til að mynda alltaf til tengdafor-
eldra minna í sunnudagskaffi og
horfðum á Húsið á sléttunni, sem
fullorðna fólkið hafði ekki síður
gaman af en krakkarnir.“
Músíkin tók völdin
„Júlíusi gekk svo vel í skóla að
það kom til tals að færa hann upp
um bekk eins og Baldur Þórir áður.
En hann tók það ekki í mál, vildi
frekar fylgja félögum sínum. Hann
fór þó ekki í langskólanám því mús-
íkin tók völdin. Utan tónlistarnáms í
einn vetur í Tónlistarskóla Keflavík-
ur, þar sem hann lærði til dæmis á
bassa, píanó, selló og trommur, er
hann sjálflærður og getur spilað á
öll hljóðfæri. Ég man ekki eftir að
hafa orðið fyrir vonbrigðum þótt
hann legði bóknámið á hilluna, hann
fékk að ráða því eins og öllu öðru.
Mér finnst hann geta allt. Það segir
mér líka hvað hann er flottur og
klár strákur að hann er núna fram-
kvæmdastjóri tölvufyrirtækis.
Nægjusemi hefur alltaf verið
honum í blóð borin, hann kaupir
ekki hluti án þess að eiga fyrir
þeim. Hann er varkár og ekki mikill
efnishyggjumaður, sem mér finnst
mikill kostur, en hann á hús og þess
háttar eins og flestir og sér vel fyrir
sínum. Þegar hann var yngri lét ég
útganginn á honum fara svolítið í
pirrurnar á mér og tuðaði töluvert í
honum um að fá sér ný föt, greiða
sér og þar fram eftir götunum.
Honum fannst slíkt algjör óþarfi.
Sjálfur hefur hann líka tuðað í mér
frá því hann var tíu ára um að
hætta að reykja, sem ég hef gert
annað slagið. Svo finnst honum ekk-
ert sérstakt ef ég „fæ mér í allar
tærnar“ – og telst ég þó engin fylli-
bytta, hann er bara svo mikill reglu-
maður á öllum sviðum. Þótt hann
væri að spila út um hvippinn og
hvappinn, þurfti ég aldrei að hafa
áhyggjur af honum.
Okkur, foreldrunum, þótti dreng-
urinn full fanatískur og ókurteis
einu sinni þegar Gylfi Ægisson var í
heimsókn og sat grúttimbraður í
eldhúsinu hjá okkur. Júlíus kom inn
með nefið úttroðið af bómull, tók
skyrið sitt og kvartaði um leið og
hann gekk með það fram yfir vondri
lykt af Gylfa. Það var þó ekki fyrir
þessar sakir heldur einhverja
óþekkt sem pabbi hans rak hann að
heiman þegar hann var sex ára.
Hann pakkaði saman og ætlaði að
flytja til ömmu og afa, en sneri við á
næsta götuhorni og lofaði bót og
betrun. Honum fannst best að vera
hjá okkur.“
Mikill fjölskyldumaður
„Þegar Júlíus byrjaði í leikskól-
anum sagðist hann alltaf vera að
fara í vinnuna eins og afi sinn með
kaffibrúsann og var soldið fyndinn á
að líta. Það fer nú hver að verða síð-
astur að tala um það, en einu sinni
man ég eftir, þegar hann var svona
ellefu ára, að hann kom hlaupandi
heim úr skólanum og sagði alla
krakkana vera að segja að ég hefði
verið fegurðardrottning. Hann var
reiður og fannst alveg ótækt að
hafa ekki haft vitneskju um svona
mikilvægt mál. Eins þótti honum
mikilvægt að vita ef þessi eða hinn
væri skyldur sér og vildi vita ná-
kvæmlega hvernig skyldleikanum
væri háttað.
Þeir bræður standa fyrir minn-
ingartónleikum um Rúnar, sem
haldnir verða í maí. Þegar ég talaði
við Júlíus einum og hálfum tíma eft-
ir að miðasalan var opnuð, sagði
hann að þetta svona mjakaðist. Þá
voru aðeins eitt þúsund miðar eftir
af þrjú þúsund, sem flestum þætti
gott betur en að mjakast. Enda var
hann bara að grínast.
Júlíus er mikill fjölskyldumaður,
konan hans er fjórum árum eldri en
hann, yndisleg manneskja. Sagan í
fjölskyldunni segir að ég hafi orðið
alveg miður mín yfir að sonur minn
væri með einhverri kellingu – sem
er alveg víðsfjarri sannleikanum.
Að vísu tók ég feil á stúlku, hélt að
þetta væri önnur og eldri þegar ég
frétti af nýju kærustunni.
Við skiptumst mikið á heimsókn-
um, hittumst næstum daglega eða
tölum að minnsta kosti saman í
síma. Hann passar vel upp á mig og
spyr mig meira að segja stundum
hvort ég sé örugglega búin að
borða. Ég fylgist vel með hvað hann
er að gera í tónlistinni, en verð að
viðurkenna að ég fer sjaldan á tón-
leika hjá hljómsveitinni hans, Deep
Jimi and The Zep Creams. Þeir
spila allt of hátt fyrir minn smekk!“
Besti trommuleikari á landinu!
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Tónlistin hefur verið fyr-
irferðarmikil í lífi mæðg-
inanna Maríu Baldursdóttur
og Júlíusar Freys Guð-
mundssonar, sem bæði
hafa alið allan sinn aldur í
bítlabænum Keflavík.
‘‘ÞEGAR HANN VARYNGRI LÉT ÉG ÚTGANG-INN Á HONUM FARASVOLÍTIÐ Í PIRRURNAR
Á MÉR OG TUÐAÐI
TÖLUVERT Í HONUM AÐ
FÁ SÉR NÝ FÖT, GREIÐA
SÉR OG ÞAR FRAM EFT-
IR GÖTUNUM.,
María Baldursdóttir fæddist inn í músíkfjöl-
skyldu í Keflavík 28. febrúar 1947, eina stelp-
an í fimm systkina hópi. Eftir gagnfræðapróf
stundaði hún nám í hárgreiðslu í Iðnskólanum
í Keflavík og útskrifaðist sem hárgreiðslu-
meistari 1966. María varð Fegurðardrottning
Íslands 1969. Söngferill hennar hófst með
unglingaskólahljómsveit, síðan söng hún m.a.
með Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar og
Heiðursmönnum, var meðlimur Áhafnarinnar
á Halastjörnunni, sem gaf út nokkrar plötur,
og stofnaði Hljómsveitina Geimstein 1976
með manni sínum, Guðmundi Rúnari Júl-
íussyni, sem lést á síðasta ári, og Rokksveit
Rúnars Júlíussonar kringum 1990.
María hefur sungið inn á margar hljóm-
plötur, þ.á m. sólóplötuna Að eiga sér draum.
Hún rekur ásamt sonum sínum, Baldri Þóri og
Júlíusi Frey, hljómplötuútgáfuna og hljóðverið
Geimstein.
MARÍA BALDURSDÓTTIR