Saga - 1972, Blaðsíða 104
102
EIRlKUR ÞORMÓÐSSON
komst tala byggðra jarða í Þistilfirði lægst, allt frá því
að aukning byggðar hófst að marki þar, eða milli 1826 og
1833. Varð tala byggðra jarða lægst 23 eins og hún var
1893—95 og 1889—90, en fór úr því aftur hækkandi, þótt
aldrei yrði hún nándar nærri eins há og þegar hún var
hæst, þ. e. 38 kringum 1860. Nokkrar þeirra jarða, sem
lögðust í eyði fyrir 1895, hafa byggzt upp aftur síðan, og
voru sumar þeirra byggðar langt fram á þessa öld. Má
þar nefna sem dæmi Hafursstaði og Kollavíkursel, og
Fjallalækjarsel er enn í byggð. Um þetta leyti voru Amer-
íkuferðir að mestu úr sögunni og áhrif þeirra á byggð
í Þistilfirði mjög farin að þverra, þótt nokkrir hafi farið
vestur þaðan eftir þetta. Það er því vel til fallið að setja
lokamörkin við 1895.
II. ALMENN SVEITARLÝSING
Hér á eftir verður sett fram örstutt almenn lýsing á
hreppnum.
Sjálfur Þistilfjörðurinn er flói milli Melrakkaness að
vestan og Skoruvíkurbjargs að austan. Nokkrar smávíkur
ganga inn úr firðinum, og er helzt þeirra Kollavík. Sveitin
inn af firðinum vestan Hafralónsár, sem síðar verður get-
ið, og út með honum að vestan heitir einnig Þistilfjörður,
en hreppurinn Svalbarðshreppur, og í daglegu tali er ým-
ist talað um Svalbarðshrepp eða Þistilfjörð, þegar átt er
við sveitina.
Fjórir hreppar liggja að Svalbarðshreppi. Presthóla-
hreppur nyrzt að vestanverðu, þar fyrir sunnan Axar-
fjarðarhreppur, þá Fjallahreppur að suðvestan og sunnan,
og loks Sauðaneshreppur að suðaustan og austan.
Margar ár falla til sjávar í Þistilfirði, og verða hér
taldar fimm hinna helztu, sem skipta afréttarsvæðum Þist-
ilfirðinga í sérstök afmörkuð svæði.
Vestast er Ormarsá, en hún er á merkjum hreppsins að
vestanverðu. Næsta á austan Ormarsár er Svalbarðsá, en