Saga - 1988, Page 27
UPPELDI OG SAMFÉLAG A ISLANDI Á UPPLÝSINGARÖLD 25
svo aftur skýra sem afleiðingu af flóknu samspili náttúrufarslegra,
lýðfræðilegra og efnahagspólitískra þátta.1 Um leið er það órjúfanlega
tengt þeim sérstæðu heimilisháttum sem drepið er á hér að framan og
mótuðu á svo áþreifanlegan hátt allar uppeldisaðstæður í landinu.
C. Hefðir og nýmæli í upplýsingunni
Frá félagssögulegu sjónarhorni er eftirsóknarvert að kanna hvernig
hugmyndafræði uppeldis (uppeldisspeki) tengist á hverjum tíma
samfélagsgerðinni, hvernig hún „litast" í framkvæmd af einkennum
þessarar skipanar og túlkar hana í anda þeirra markmiða sem keppt
er að. Eðli sínu samkvæmt eru uppeldishugmyndir stefnumarkandi;
þær fela í sér ákveðinn skilning á hinu góða, hvort sem ræðir um eig-
mleika einstaklinga eða samfélagsskipan. Stefnuskráin beinist ekki
hvað síst að því að skilgreina hvernig tengslum einstaklings og sam-
félags verði best fyrir komið í ljósi hinna almennu markmiða. Þannig
er Ijóst að uppeldisspeki er samslungin pólitískum hugmyndum um
valda- og hlutverkaskipan í þjóðfélaginu.
Þegar ræðir um upplýsinguna í uppeldissögulegu samhengi, ber
að hafa hugfast að talsmenn hennar hrærðust í umhverfi sem var
mótað af hugmyndaheimi siðbreytingarinnar og hins lútherska rétt-
trúnaðar. Þennan hugmyndaheim má með orðalagi sænska sagn-
fræðingsins Hilding Pleijel kenna við „veröld hústöflunnar."2 Grunn-
inn mynda hér „stöndin" þrjú, kennivald, (veraldlegt) stjórnvald og
hússtjórnin, þ.e. heimilin þar sem húsbændur (pater familias) skyldu
hafa óskorað vald yfir öðru heimilisfólki, einkum börnum og hjúum.
Þessi síðarnefndu mynduðu til samans ungdóminn sem má kalla lyk-
ilhugtak í lútherskri uppeldisspeki.3 Annað lykilhugtak, nátengt hinu
fyrra, er húsaginn, sem lagði þá skyldu á herðar hverjum húsbónda að
aga ungdóminn í anda lúthersks rétttrúnaðar. Veröld hústöflunnar er
þannig gagnsýrð heimilisföðurlegum anda.4
1 VII, 12-16 (18-24); Bernska, 105-19, 125-32.
2 H. Pleijel: „Patriarkalismens samhállsideologi." Historisk tidskrift (2, 1987), 222-25;
„Læsefærdighed", 135.
3 í Bernska fjalla ég m.a. um ungdóminn frá þessu sjónarmiði, sjá einkum 63-71.
4 Sjá Pleijel: Tilv. rit, 222-25.