Saga - 1989, Page 16
14
JÓN GUÐNASON
tækar ályktanir. Upplýsingagildi þeirra er ærið misjafnt, það fer eftir
frásögninni, en naumast er þó nokkurt þeirra svo dautt að sagnfræð-
ingum takist ekki að draga þar einhver bein úr sjó.
íslenskir alþýðumenn hafa verið feikiduglegir við að skrá minning-
ar sínar og eru þær ómetanlegar heimildir fyrir alþýðusögu. í þann
sjóð geta allir gengið, sagnfræðingar, rithöfundar, skáld og aðrir þeir
sem áhuga hafa. í þessu minningarefni er urmull af látlausum og lýs-
andi myndum úr íslensku þjóðlífi, eins og lýsing Sigurðar frá Bala-
skarði á því þegar hann barn að aldri útvegaði sér stafróf. „Mig lang-
aði mikið til að læra að skrifa, en enginn var í Balaskarði, sem gat
kennt mér það." Og hóglátleg er þessi stutta frásögn Viktoríu Bjarna-
dóttur í bók hennar Vökustundir að vestan (1958):
Við vorum því fimm, sem fluttum suður til Reykjavíkur vorið
1932; yngsti sonur minn, sem þá var 10 ára, og Laufey dóttir
mín, faðir minn, litla telpan og ég. Við lögðum af stað með
strandferðaskipinu Esju 17. maí, og höfðum þá dvalizt á
Bíldudal í rétt sex ár.
Þegar ég hafði greitt fargjaldið átti ég eftir tíu krónur í pen-
ingum og var það veganestið, sem ég lagði með upp til Reykja-
víkur. En þegar ég var komin um borð, kom maður til mín
með rafmagnsreikning, sem hljóðaði upp á kr. 6.50 og urðu
því ekki eftir nema kr. 3.50 af tíu krónunum, sem ég hafði ætl-
að að nota til að greiða með flutning búslóðarinnar frá skipi,
þegar suður kæmi.
Ritun sjálfsævisagna og minninga eftir forsögn annarra er hálfrar
aldar gömul. Hún hófst með bókum Guðmundar G. Hagalíns, Virk-
um dögum (1936) og Eldeyjar-Hjalta (tvö bindi, 1939) og aðrir fetuðu
brátt í fótspor hans. Þórbergur Þórðarson skráði Ævisögu Árna prófasts
Þórarinssonar (sex bindi, 1945-50), Lúðvík Kristjánsson endur-
minningar Knuds Zimsens, Viðfjörð og vík (1948) og Úr bæ í borg (1952)
og Valtýr Stefánsson Minningar Thors Jensens (tvö bindi, 1954, 1955).
Auk minnisefnis styðjast þessi rit að meira eða minna leyti við rit-
heimildir. Þau hrundu af stað mikilli útgáfu bókmennta af þessu tagi,
einkum eftir að hljómbandstæknin var komin til sögunnar, og eru
sum þeirra í viðtalsformi (viðtalsbækur). í sumum þessara rita er
frjálslega með efnið farið og þau ætluð einungis til skemmtunar sem
á líka rétt á sér en fræðslu- og upplýsingagildi þeirra er sáralítið. Um