Saga - 1989, Síða 33
STJÓRNMÁLAÁTÖK OG KRISTNIBOÐ
31
ur um að þær sögur, sem hér eru lagðar til grundvallar, hafi að geyma
traustan sögulegan kjarna sem síðar var færður í þann búning sem
við þekkjum nú. Ég tel að aðalpersónur sagnanna hafi verið til og
helstu atburðir sem þar er lýst hafi gerst, en ég er á hinn bóginn jafn-
sannfærður um að sú skapgerð, sem þessar persónur fá í sögunum,
eigi lítið skylt við raunveruleikann. Við getum tekið sem dæmi um
þetta þá feðga Harald hárfagra og Hákon Aðalsteinsfóstra. Ég er viss um
að Haraldur hárfagri sameinaði mestan hluta Noregs undir sína
stjórn, fyrstur konunga, og ég er líka fullviss um að Hákon sonur
hans dvaldist fyrri hluta ævi sinnar við ensku hirðina, kom heim, rak
Eirík blóðöx bróður sinn frá völdum í Noregi, en mistókst hins vegar
að kristna Norðmenn. En ég er einnig viss um að sá Hákon, sem við
kynnumst í Heimskringlu, á lítið skylt við raunveruleikann, enda virð-
ist hann meira í ætt við dýrlinga í heilagra manna sögum en harð-
skeyttan víkingaforingja, sem stóð yfir höfuðsvörðum ýmissa ætt-
menna sinna. Á sama hátt er ég sannfærður um að frásögn Heims-
kringlu af ástæðum þess að Hákon var sendur til Englands eigi sér litla
stoð í raunveruleikanum.
En margt er þó í fornsögunum sem menn skyldu treysta varlega,
og má þar taka sem dæmi allt það sem lýtur að tímatali. Samanburður
við traustari erlendar heimildir sýnir að oft skeikar miklu á því hve-
nær atburðirnir gerðust og því sem íslensku heimildirnar segja. Einn-
ig er vert að hafa góðan fyrirvara á því sem sögurnar segja um þann
tíma sem atburðirnir tóku. Á þessu hljóta að vera sömu annmarkar.
í þessari ritgerð er lögð megináhersla á Noreg og síðan í framhaldi
ísland. Um Svíþjóð er nær ekkert fjallað, enda voru Svíar sér á báti
hvað þessi mál varðaði. Aðeins er lítillega sagt frá Danmörku, enda er
kristnisaga landsins um margt óljós. Ekkert er fjallað um heiðna trú
og lítið um kristnitökuna sjálfa, hér á landi sem erlendis. Um þetta
eru til ágæt rit, og má nefna Heiðinn sið á íslandi eftir Ólaf Briem,
Kristnitökuna á íslatidi eftir Jón Hnefil Aðalsteinsson svo og Trúarhætti
eftir þá Jón Hnefil Aðalsteinsson og Hjalta Hugason en það er fimmta
bindið í ritsafninu íslensk þjóðmenning.
Ég vil taka fram að ég geri lítinn greinarmun á þeim kirkjudeildum,
sem störfuðu á Bretlandseyjum á þessum árum. Allar áttu þær að
heita kaþólskar og sá ágreiningur, sem verið hafði milli Rómarkirkj-
unnar og þeirrar írsku, var að nafninu til úr sögunni þótt margt bæri
enn á milli. Sums staðar var engilsaxneska kirkjan undir talsverðum