Saga - 1989, Page 47
STJÓRNMÁLAÁTÖK OG KRISTNIBOÐ
45
norska ríkisins, sem enn var alheiðinn þegar hér var komið sögu.19
F>að á sér sína skýringu. Þrændalög voru á þessum tíma íhaldssamt
bændasamfélag þar sem völdin voru í höndum stórbænda. Verslun
var ekki jafn mikilvægur þáttur í þjóðlífinu og á Vesturlandinu og í
Víkinni. Af því leiddi að samskipti við aðrar þjóðir voru minni en
annars staðar í Noregi og erlend áhrif því ekki eins mikil.
Ekki verður betur séð en krafa Hákonar um að Þrændir tækju
kristni hafi komið þeim á óvart, því í fyrstu fóru þeir undan í flæm-
ingi og vísuðu málinu til Frostaþings. Þar höfnuðu þeir svo beiðni
konungs alfarið. Nokkru síðar fóru svo Útþrændir og brenndu fjórar
kirkjur, sem Hákon hafði látið reisa á Norðmæri og drápu prestana
sem þeim þjónuðu.
Forystumenn á Norðmæri höfðu vísað hugmyndum Hákonar um
kristnitöku til umsagnar Þrænda sem bendir til þess, að þeir hafi ekki
þorað að taka afstöðu fyrr en vilji nágrannanna lá fyrir. Ekki gerðu
þeir þó neinar ráðstafanir til að losa sig við kirkjurnar og prestana. Til
að brenna kirkjurnar þurftu Þrændir að gera út leiðangur yfir í næsta
hérað, og verður ekki séð af heimildum, að heimamenn hafi átt nokk-
urn hlut að máli. Það kom hins vegar í hlut Innþrænda að neyða Há-
kon konung til blóta, og lauk þeim viðskiptum svo að þeir skildu í
fullum fjandskap.
Frásagnir fornrita af þessum atburði eru bráðskemmtilegar. í blót-
veislunni beitti konungur Þrændi ýmsum brögðum. Hann krossaði
þau full sem drukkin voru og þefaði einungis af slátrinu.20 í Ágripi
segir að hann hafi brugðið líndúk yfir lifrina og bitið í gegn um
hann.21 Það er athyglisvert við frásagnir af þessum atburðum að
helsti leiðtogi Þrænda og umsjónarmaður blótsins, Sigurður jarl,
hylmdi yfir með konungi. Hann taldi mönnum sínum trú um, að
krossmarkið væri Þórshamar og kom málum þannig fyrir, að konung-
ur þurfti aðeins að þefa af höldunum á sláturpottinum.22 Líklega
styðjast þessar frásagnir að einhverju leyti við sannsögulegan kjarna.
19 Hákon konungur hefur með vissu ráðið Víkinni, Vesturlandinu og Þrændalögum,
en nokkur vafi leikur á því hvort ríki hans náði til Upplandanna, því i Historia Nor-
vegiæ segir að hann hafi aðeins ráðið ströndinni. Historia Norvegiæ, bls. 30.
20 Heimskringla l, bls. 171-73. Að sögn Fagurskinnu gerðust þessir atburðir á 16. ríkis-
stjómarári Hákonar konungs. Fagurskinna, bls. 31-2.
21 Ágrip, bls. 7-8.
22 Heimskringla I, bls. 171. Sjá aftanmálsgrein 2.