Saga - 1989, Page 50
48
GUÐMUNDUR J. GUÐMUNDSSON
í Hákonarmálum Eyvmds skáldaspillis skín í fyrstu í gegn ótti heiðinna
manna við að Úðinn léti Hákon gjalda vingulsháttar síns í trúmálum,
en allt fer þó vel að lokum og Hákoni er vel fagnað í Valhöll.31 Andinn
í frásögn Ágrips er einnig sá að Hákon hafi fengið fyrirgefningu.
Á það var drepið hér að framan, að norska hirðin hafi átt í erfiðleik-
um með að ákveða eftir hvaða sið ætti að grafa konung. Pað varð úr,
að hann var grafinn í sínu besta stássi og með vopn sín, en ekki ann-
að grafgóss. Öllum heimildum ber saman um, að hann hafi verið
lagður í haug,32 en í Ágripi segir, að í haugnum hafi verið steinþró.33
Þetta bendir óneitanlega til að gert hafi verið samkomulag um það
hvernig ætti að grafa konung, og verður að telja líklegt, að þar hafi
stjórnmálarefurinn Sigurður jarl átt hlut að máli.
Það sýnir kannski betur en flest annað hversu sterk ítök kristin trú
átti í Noregi þegar hér var komið sögu að norska hirðin gerði sam-
komulag um hvernig ætti að grafa látinn konung. Ekki leikur þó
nokkur vafi á því, að kristnir menn voru í minnihluta meðal íbúanna,
en sá minnihluti var orðinn það öflugur, að heiðnir menn þurftu að
hafa hliðsjón af vilja hans þegar ákvarðanir voru teknar.
En Hákon konungur var stjórnmálamaður fram í andlátið, og hann
reyndi að búa svo um hnútana að stefnu hans yrði fram haldið í sem
flestum málum. Hann bað menn um að taka við Gunnhildarsonum
vegna þess að hann átti ekki son sjálfur, og þeir stæðu því næstir til
ríkiserfða. Hann vildi koma í veg fyrir, að Gunnhildarsynir þyrftu að
brjótast til valda með aðstoð Dana og verða þeim háðir. Kæmust þeir
hins vegar til valda með löglegum hætti væru þeir líklegir til að halda
óbreyttri stefnu í utanríkismálum og vinveittri stefnu gagnvart Engil-
söxum, þó ekki væri nema til þess að sýna að þeir væru óháðir
móðurætt sinni. Við skulum heldur ekki gleyma að Gunnhildarsynir
voru kristinnar trúar og hefur Hákon væntanlega einnig viljað tryggja
að konungar væru vinveittir kristnum mönnum.
31 Heimskringla 1, bls. 193-97.
32 Fagurskinm, bls. 49. Heimskringla I, bls. 193.
33 Ágrip, bls. 11.