Saga - 1989, Page 56
54
GUÐMUNDUR J. GUÐMUNDSSON
réðst Gormur gamli á ríki Gnúbu, felldi hann og innlimaði ríki hans í
sitt. Sögur herma að Gormur hafi í fyrstu verið andsnúinn kristinni
trú, en neyðst til að leyfa trúboð í ríki sínu vegna þrýstings frá
Söxum. Það þarf þó ekki að þýða að hann hafi tekið trú sjálfur þótt
því sé sums staðar haldið fram.45 Á sömu leið fór fyrir Haraldi syni
hans, og ekki leið á löngu þar til biskupsstólar voru settir í Árósum og
á Rípum árið 948. Sennilega hefur það gerst um leið og kristni var
lögtekin í Danmörku. Eftir því sem Widukind segir í Saxaannál þá var
það biskup nokkur, Popo að nafni, sem sannfærði Harald konung um
yfirburði kristinnar trúar með járnburði. Rétt er að taka því með hæfi-
legum fyrirvara að stjórnmálarefurinn Haraldur Gormsson hafi tekið
kristna trú fyrir tilstilli venjulegra trúboðssjónhverfinga. Sennilegra
er, að trúskiptin hafi orðið í sambandi við valdabaráttu þeirra Dana-
konungs og Pýskalandskeisara á Jótlandsskaga. Járnburður Popos
hefur sennilega verið eins konar staðfesting á yfirburðum kristinnar
trúar yfir ásatrúnni, því að járnburður hafði sönnunargildi sam-
kvæmt þeirra tíma dönskum lögum.46
Á Jellingsteininum segir, hvað sem öðru líður, að Haraldur Gorms-
son hafi sameinað og kristnað Dani,47 þótt það síðastnefnda eigi varla
við nema eyjarnar. Pað er því fjarri öllu lagi sem Knýtlingasaga og
Heimskringla vilja vera láta, að herferð Ottós 11 til Danmerkur árið 974
hafi skipt einhverju máli fyrir kristnitöku í Danmörku. Danir voru þá
löngu búnir að taka trú. Hitt er aftur annað mál, að þessi herferð átti
eftir að hafa töluverð áhrif á kristnihald á Norðurlöndum þótt með
öðrum hætti yrði.
Hákon jarl Sigurðarson
Það kom fram í kaflanum hér að framan, að Gunnhildarsynir hafi
ekki talið sig standa í neinni sérstakri þakkarskuld við frænda sinn,
Harald Gormsson, þótt þeir næðu völdum í Noregi. Á það var einnig
45 Skjoldungasaga, bls. 126.
46 Kirkegaard og Winding 1, bls. 30.
47 Áletrunin á Jalangurssteininum bendir til þess að einhverjir höfðingjar hafi notfært
sér lát Gorms og lagt undir sig og tekið völdin í einhverjum hlutum Danmerkur
sem höfðu tilheyrt ríki hans. Haraldur hefur því þurft að leggja þessi héruð aftur
undir sig. Wimmer, bls. 53-6.