Saga - 1989, Page 57
STJÓRNMÁLAÁTÖK OG KRISTNIBOÐ
55
bent, að Haraldur konungur hafi ekki verið sammála og beðið eftir
tækifæri til að hefna sín á þeim fyrir meint svik.
Haraldur fékk gullið tækifæri til þess arna þegar illindi og átök urðu
milli Hákonar jarls Sigurðarsonar og Gunnhildarsona, en Hákon var
sonur Sigurðar jarls sem Gunnhildarsynir létu drepa nokkru eftir að
þeir tóku við völdum. Því er skemmst frá að segja, að þeir Hákon og
Haraldur gengu þannig frá málum, að Haraldur gráfeldur lét lífið, en
aðrir eftirlifandi synir Gunnhildar og Eiríks hrökkluðust úr landi, og
verður sú saga ekki rakin frekar hér, heldur tekinn upp þráðurinn
þegar þeir Hákon og Haraldur voru búnir að ná Noregi undir sig.
Þeir félagar gerðu samkomulag sín á milli þess efnis, að Noregur
heyrði að nafninu til undir Danakonung, þótt völd hans væru í raun
og veru bundin við Víkina, sem Danakonungar höfðu lengi ágirnst.
Með þessu bætti Haraldur stóru landsvæði við ríki sitt og rauf varnir
Engilsaxa í norðri, sem kom sér vel ef Danir hygðust endurreisa ríki
sitt í Englandi. Þessi aðstaða nýttist Haraldi þó ekki sem skyldi vegna
ásóknar Saxa inn á Jótland. Haraldi hefur ekki fundist gæfulegt að
berjast við öfluga andstæðinga á tvennum vígstöðvum í einu, og kom
það Engilsöxum til góða.
Þótt Hákon jarl væri að nafninu til undirmaður Danakonungs var
hann í raun sjálfstæður fursti og fór sínu fram í landstjórn. Heimildir
greinir á um hvort hann greiddi Danakonungi skatt en trúlegt er að
hann hafi fengið það sem hann innheimti til landvarna eins og segir í
Heimskringlu.48 Kjarninn í ríki Hákonar voru Þrændalög, en hann
virðist líka hafa stjórnað Vesturlandinu.
Þeir konungur og jarl voru báðir raunsæismenn í stjórnmálum og
létu sig litlu skipta þótt þeir væru ekki sömu trúar. Það er kaldhæðni
sögunnar, að það voru einmitt trúmálin sem urðu þess valdandi að
slitnaði upp úr samvinnu þeirra.
Árið 974 réðst Ottó keisari II inn á Jótlandsskaga og kallaði Harald-
ur konungur þá jarl sinn í Noregi sér til aðstoðar. Hákon jarl brást
skjótt við og fór með her til Danmerkur, og í fyrstu gekk allt sam-
kvæmt áætlun hjá þeim konungi og jarli. Eftir því sem Heimskringla
segir skiptu þeir með sér vömum á Danavirki og lauk fyrstu átökun-
um með því að Ottó keisari beið lægri hlut fyrir Hákoni og varð að láta
undan síga. Keisari réðst síðan aftur til atlögu annars staðar og varð
48 Heimskringla 1, bls. 254.