Saga - 1989, Page 64
62
GUÐMUNDUR J. GUÐMUNDSSON
ekki loku fyrir það skotið, að pólitískir hagsmunir Haukdæla ráði þar
einhverju um. Pegar fram í sótti var það þó páfinn í Róm, sem stóð
uppi sem raunverulegur sigurvegari og sameinaði vesturkirkjuna
undir sinni stjórn. Þá lenti íslenska kirkjan undir vald Hamborgar-
biskupa, meðal annars vegna þess hve ríki Engilsaxa stóð höllum
fæti, en það er önnur saga og verður ekki rakin hér.
Þau rök sem hér hafa verið tíunduð fyrir þeirri skoðun að nokkur
hluti landsmanna hafi aðhyllst kristna trú alla 10. öldina fram að
kristnitöku eru fyrst og fremst fengin úr rituðum heimildum, enda lít-
ið um skýran vitnisburð fornleifa hvað þetta varðar. Ekki hafa fundist
rústir kirkna eða kristinna bænhúsa frá þessum árum né heldur grafir
eða grafreitir sem ótvírætt má telja kristna. Þó ber að minna á að á
vesturhluta landsins eru áberandi fá heiðin kuml. Sum þeirra kumla
sem fundist hafa hér á landi eru líka fátæk að haugfé og þó nokkuð
hefur fundist úti á víðavangi af gröfum sem ekkert haugfé hefur
fundist í, en gætu sem best verið frá söguöld þó ekki hafi tekist að
aldursgreina þær svo vel sé. En eins og bent var á í fyrsta kafla þess-
arar ritgerðar þá þarf þetta ekki að vera merki um kristin áhrif heldur
er ekki síður líklegt að þetta séu grafir fátæks fólks.
Aðeins hafa fundist líkkistur í þremur íslenskum kumlum frá heið-
inni eða frumkristinni tíð og er það íhugunarvert, að í tveimur þess-
ara kumla var ekkert haugfé, en í því þriðja fannst aðeins einn
hnífur.61 Þetta eru vissulega ekki nógu skýrar vísbendingar til að
hægt sé að draga af þeim viðamiklar ályktanir, en samt er ekki hægt
að segja annað en þetta bendi í ákveðna átt. Nákvæm fornleifarann-
sókn á þeim stöðum, sem hvað ákveðnast hafa verið bendlaðir við
kristnihald, svo sem á Esjubergi eða í Kirkjubæ, er vænlegasti kostur-
inn ef komast á til botns í þessu máli.
Lokaorð
Meginniðurstöður þessarar könnunar eru, að allt frá upphafi víkinga-
aldar og jafnvel áður hafi íbúar Norðurlanda haft umtalsverð kynni af
kristinni trú og að nokkur hluti íbúa þessara landa hafi annaðhvort
verið kristinn eða undir áhrifum frá kristinni trú.
61 Kristján Eldjárn, bls. 33, 75, 98-101, 210-11