Saga - 1989, Page 69
ANNA AGNARSDÓTTIR
Eftirmál byltingarinnar 1809.
Viðbrögð breskra stjórnvalda
Haustið 1809 var stiftamtmaðurinn yfir Islandi, Fredrik Christopher Trampe
greifi, fluttur til Englands sem stríðsfangi á breska herskipinu Talbot að eigin
ósk. Erindi hans var að kæra fyrir breskum yfirvöldum valdarán1 breska
sápukaupmannsins Samuels Phelps og túlks hans, Jörgens Jörgensens (Jörundar
hundadagakonungs), þá um sumarið og krefjast skaðabóta og leiðréttingar.
Þessi för Trampes markar upphafið að eftirmálum byltingarinnar 1809, sem
stóðu í mörg ár. í þessari grein er fjallað um þann þátt þessara eftirmála, sem
sneri að bresku ríkisstjórninni á árunum 1809-10.
Helstu sérfræðingar um þessa sérstæðu byltingu, þeir Jón Þorkelsson
og Helgi P. Briem, gera eftirmálum byltingarinnar takmörkuð skil.2
Jón, sem skrifaði bók sína stuttu fyrir aldamót, telur að kærur Tramp-
es hafi skilað fremur litlum árangri að frátalinni tilskipun Bretakon-
ungs frá 7. febrúar 1810.3 Um skaðabætur segir Jón orðrétt: „vitum
vér ógerla hvað orðið hefir".4 Helgi P. Briem rannsakaði skjöl breska
utanríkisráðuneytisins um málið á þriðja áratugi þessarar aldar.
Hann fjallaði einnig ýtarlega um ofangreinda tilskipun Bretakon-
ungs, en telur óvíst, hvernig kærumálin í Bretlandi voru til lykta
leidd.5 Auk þessara tveggja ritverka er að finna gagnlega umfjöllun
um afskipti Sir Josephs Banks af málinu í grein, sem Halldór Her-
mannsson birti árið 1928.6 Banks gerði, sem kunnugt er, út vísinda-
leiðangur til íslands árið 1772 og varð upp frá því hinn mesti íslands-
vinur og hafði margvísleg afskipti af málefnum landsins. Var hann
reyndar sá maður, sem breska ríkisstjórnin leitaði ávallt til, er málefni
íslands voru til skoðunar. Árið 1809 hafði Banks öðlast mikinn frama
í Englandi. Var hann m.a. forseti breska Vísindafélagsins (Royal
Society), og meðlimur í trúnaðarráði (Privy Council) konungs. Kemur
hann mjög við sögu í þessari grein.
Nú hafa áður óþekkt skjöl komið í leitirnar og því unnt að draga
upp heillegri mynd en áður hefur verið gert af þeim eftirmálum bylt-
ingarinnar, sem urðu í Bretlandi 1809-10. Meginniðurstaðan er, að
Trampe virðist hafa náð verulegum árangri með kærum sínum og