Saga - 1989, Síða 74
72
ANNA AGNARSDÓTTIR
Eftirmálin hefjast - Jörgensen handtekinn
Þann 20. september 1809 kom Talbot til hafnar í Leith. Jones gerði
strax yfirmanni sínum, Sir Edmund Nagle flotaforingja, grein fyrir
stöðu mála.16 Nagle treysti sér ekki til að fást við málið, en Iét raða
málsskjölum í fjóra pakka og sendi þá til flotamálaráðuneytisins í
London.17 Trampe fór fram á vegabréf til að halda til London og leggja
mál sitt fyrir ríkisstjórnina.18 Var það veitt og hélt stiftamtmaður rak-
leiðis til London, þar sem hann fékk sér þægilega gistingu á Brown's
Hotel í Covent Garden.19 Orion kom til hafnar í Liverpool um svipað
leyti og héldu Jörgensen og Phelps báðir umsvifalaust til London.
Jörgensen kom sér fyrir á venjulegum gististað sínum í borginni,
Spread Eagle Inn í Gracechurch Street.20 Hann segir sjálfur svo frá, að
eitt fyrsta verk hans hafi verið að heilsa upp á Banks, sem hafði mikið
gaman („enjoyed much") af frásögn hans.21 Hins vegar var sú lýsing
ekki fyllilega í samræmi við staðreyndir málsins,22 eins og Jörgensen
viðurkenndi reyndar síðar.23 Jörgensen kom einnig við á skrifstofu
flotamálaráðuneytisins, tilkynnti komu sína til London og kvaðst
reiðubúinn að mæta til viðtals hvenær sem væri.24 Honum tókst hins
vegar ekki að fá viðtal við ráðuneytisstjórann, Sir William Wellesley-
Pole, einn bræðra hins sigursæla hertoga af Wellington25. Verndari
íslands taldi sig greinilega ekki hafa neitt að óttast frá enskum yfir-
völdum; „they never trouble me about anything" skrifaði hann Hook-
er vini sínum í byrjun október.26 Jörgensen var hins vegar ljóst, að
Trampe greifi myndi hafa hug á að hefna harma sinna.27 Var þess og
ekki langt að bíða.
Um miðjan október var Jörgensen varpað í fangelsi. Ástæðan fyrir
handtökunni var sögð sú, að hann hefði brotið drengskaparheit sitt,
er hann fór frá Englandi til íslands.28 Það var að vísu rétt, en Jörgen-
sen stóð sjálfur ávallt í þeirri trú, að sú fangelsisvist, sem hann mátti
þola, væri fyrst og fremst vegna þátttöku hans í byltingunni 1809.29
Hér var Trampe að verki. Hafði hann með aðstoð Jens Wolff, fyrrver-
andi ræðismanns Dana í Bretlandi, vakið athygli fangaskrifstofunnar
(Transport Board) á broti Jörgensens.30 Jörgensen var í fyrstu hafður í
haldi í Tothill Fields Prison, en síðar var hann fluttur um borð í fanga-
skipið Bahama í Chatham.
Þegar eftir endurkomu Phelps til Bretlands tóku hann og meðeig-
endur hans að velta því fyrir sér, hvernig best væri að standa að mál-