Saga - 1989, Side 141
ÍHALDSSEMI OG FRAMFARAHUGMVNDIR FYRR Á TÍMUM 139
svif, sem fylgja kapítalískum atvinnuháttum, vera af hinu illa.4 Líkt
og hugmyndafræðingar miðalda fordæmdi hann einmitt þá viðleitni
til stöðugrar og ótakmarkaðrar auðsöfnunar, sem af mörgum er talin
sjálfsögð og lofsverð í nútímaþjóðfélagi. Eignir manna áttu að vera í
samræmi við stöðu þeirra í samfélaginu, en viðleitni til að bæta stöðu
sína með því að auðgast var talin leiða til upplausnar, líkt og óhamið
ofbeldi. Það var skylda kristins manns, í hvaða stétt sem var, að vera
iðjusamur í þágu samfélagsheildarinnar, en ágirnd var álitin hættuleg
meinsemd í þeim þjóðarlíkama, sem kristnir menn tilheyrðu. Að not-
færa sér þörf almennings í gróðaskyni var ófyrirgefanleg synd; kaup-
menn og iðnaðarmenn máttu ekki taka meira fyrir vöru sína en sem
nam sanngjörnum vinnulaunum. Kaupmönnum var talið sérlega
hætt við að verða einni dauðasyndinni að bráð, ágirndinni. Lúther
taldi, að bændur væru einna síst snortnir af þeirri úthugsuðu gróða-
hyggju sem fylgdi verslun í ábataskyni.
Lúther leit jafnvel hornauga þá, sem lögðu mikið fyrir til að mæta
framtíðaráföllum í stað þess að treysta á forsjá guðs.
Allar þessar áherslur er að finna í postillum og öðrum guðsorða-
bókum evangelísk-lúthersku kirkjunnar íslensku. Jón Vídalín stað-
hæfir t.d. margsinnis í hinni áhrifamiklu postillu sinni, að menn
stefni sáluhjálp sinni í voða með því að vilja vinna sig upp úr fátækt,
auðgast og komast til mannvirðinga í stað þess að una því hlutskipti,
sem þeim væri ætlað af guði. Iðjusemi var samfélagsleg skylda, en
ekki til að auðgast, heldur til að geta lifað hjálpvænlega. Djöfullinn
hafði, að dómi Jóns Vídalíns, sérstakan áhuga á þeim, sem vildu
verða ríkir, enda var nánast ógjörningur að safna auði án þess að
brjóta siðalögmál.
Fæstir munu þeir vera, sem náttúran hefur hjálpað þar til að
öllu leyti eður þeirra eitt saman erfiði . . . Ég vænti, að svo hafi
flestir auðgast, að þeir eða þeirra forfeður hafi tekið nokkuð
ranglega frá öðrum.5
4 Hér er stuðst við greiningu breska sagnfræðingsins R.H. Tawneys á hugmyndum
Lúthers. Sjá Tawney, R.H.: Religion and the Rise ofCapitalism, Londoiil948, 44, 48,
52, 68,101, 103 og 153.
5 Jón Þorkelsson Vídalín: Hússpostilla ebur einfaldar prédikanir yfir öll hátíða og sunnu-
daga guðspjöll árið um kring. Rv. 1945, 283. Stafsetningin hefur verið færð í nútíma-
horf og verður þeim sið fylgt í öðrum tilvitnunum frá fyrri öldum í grein þessari.