Saga - 1989, Page 162
160
ANDMÆLI OG ATHUGASEMDIR
Hér á eftir mun ég ræða ýmsar aðfinnslur Eiríks. Fyrst mun ég dvelja við
þau atriði sem ég tel hann finna réttilega að og leiðrétta. Þá mun ég víkja að
þeim þáttum gagnrýni hans sem ég tel ekki standast og að lokum víkja að
heildarniðurstöðum hans um verkið.
Hin réttmæta gagnrýni og áhrif hennar á röksemdafærslu
og niðurstöður ritsins
Ég álít að í tveimur meginatriðum eigi aðfinnslur Eiríks rétt á sér.
a) Eiríkur bendir réttilega á að tölur mínar um fólksfjölda í Ólafsvík árin
1840 og 1890 eru rangar. Hann getur sér rétt til um ástæður þessa. Hvað fyrra
manntalsárið áhrærir á uppgefinn íbúafjöldi við árið 1835 en ekki árið 1840.
Varðandi seinna manntalsárið eru liðlega þrjátíu utansveitarmenn taldir til
þorpsbúa. Tölum okkar ber ekki fyllilega saman tvö önnur manntalsár á 19.
öld, en þar er munur óverulegur og skiptir tæpast máli. Ég er Eiríki þakklátur
fyrir þessar leiðréttingar og mun að sjálfsögðu koma þeim á framfæri í öðru
bindi verksins.
En hvaða áhrif hafa þessar villur á umfjöllun um mannfjöldaþróun í Ólafs-
vík og röksemdafærslu í kaflanum? Eiríkur kemst svo að orði: „Umræður
höfundar og niðurstöður um íbúafjölda og mannfjöldaþróun i Ólafsvík
verða vegna þessara „mistaka" að miklu leyti ómerkar" (bls. 235). Hér hygg
ég að Eiríkur taki nokkuð djúpt í árinni. Vissulega eru þessi mistök hvimleið,
en sem betur fer raska þau ekki verulega niðurstöðum um meginþróun
mannfjölda í þorpinu.
Eiríkur kveður íbúatölu þorpsins hafa verið 223 árið 1840, en í riti mínu var
hún sögð 158, en sú tala á við árið 1835, eins og áður sagði. Milli þessara ára
varð því töluverð „tímabundin" fólksfjölgun í þorpinu (íbúum fækkaði brátt
á nýjan leik), sem Eiríkur bendir réttilega á að ég skýri ekki. Á það ber að líta
að erfitt getur verið að ákvarða íbúatölu í afmörkuðum hluta sóknar. Um
þetta vandamál hefur Helgi Skúli Kjartansson komist svo að orði:
... en stundum er tekið fram, að útgefendur skýrslnanna (þ.e. mann-
fjöldaskýrslna) hafi þurft, með góðra manna hjálp, að gizka á skipt-
ingu sumra sókna milli kauptúns og sveitar.2
Pegar Eiríkur kemst að því að íbúar þorpsins hafi verið 223 árið 1840 telur
hann til íbúa þess 24 heimilismenn á „Köldubúð", „Gilsbakka" og „Vatns-
horni". Þessi bæjarheiti koma hvorki fyrir í manntalinu 1835 né 1845 og alls
óvíst um staðsetningu bæjanna. Líklegt er að þeir hafi verið innan núverandi
landamerkja Ólafsvíkur, en dæmið sýnir hversu vandasamt getur verið að
ákvarða nákvæmlega íbúafjölda tiltekins sóknarhluta ákveðið manntalsár.
Víkjum nú að síðari leiðréttingu Eiríks. Um mannfjölda í Ólafsvík 1880-90
kemst ég svo að orði í riti mínu: „Milli 1880 og 1890 fjölgaði hins vegar ört í
þorpinu" (bls. 50). Þessi fullyrðing stendur óhögguð þótt íbúatalan hafi vax-
2 Helgi Skúli Kjartansson, „Vöxtur og myndun þéttbýlis á íslandi 1890-1915", Sag“
XVI, 1978, bls. 153.