Saga - 1989, Qupperneq 182
180
RITFREGNIR
velur þann kost að segja mest frá fyrstu Srunum auk þess sem hún dregur
upp lifandi myndir af fólki í héraðinu, sem hún kynntist eða heyrði sagt frá.
Hún rekur sögu Þingeyraklausturs og reikar um í kirkjugarðinum, skyggnist
til liðinna ára og dregur upp myndir af fólki, sem þar hvílir. Áhugi Huldu á
fomum minjum og varðveislu þeirra leynir sér ekki í frásögnum hennar af
kirkjumunum í Þingeyrakirkju, sem sumir eru þar enn, en aðrir á Þjóðminja-
safni og munaði um liðsinni Huldu í því björgunarstarfi.
Jón hafði átt jörðina í átta ár þegar þau Hulda giftust, unnið þar að ræktun
og umbótum og byggt stórt íbúðarhús. Hann var prestssonur úr Skagafirði,
útskrifaður frá Torfa Bjarnasyni í Úlafsdal og hafði unnið að jarðabótum hjá
bændum í Skagafirði, en líka dvalist í Danmörku og kynnt sér búnaðarhætti
þar og var fullur áhuga á því að koma á breytingum til hagsældar fyrir
íslenska bændur. Jón keypti fyrstur manna í sveitinni vélar til að létta hey-
skapinn.
Við þessi tímamót urðu mikil umskipti í lífi Huldu, sem fékk nú það hlut-
verk að stjórna mannmörgu sveitaheimili og gestkvæmu. Yfir tuttugu manns
var þar heimilisfast, þegar Hulda kom að Þingeyrum. Auk vinnufólks voru
þar tvær fjölskyldur og húshjón, sem allt vann heimilinu eða var sjálfra sín.
Og mörgum var að skammta. Sögustaðurinn Þingeyrar var ein mesta jörð í
sýslunni, þar var kirkjustaður og kirkjukaffi því jafnan fram borið. Búskapur
Húnvetninga var mjög frábrugðinn því, sem gerðist í Hörgárdal, bú og
bújarðir miklu stærri. Framandi verk biðu Huldu á Þingeyrum. Það kom
t.a.m. í hlut kvennanna að hirða allt spikið af selunum, en selveiði var þar
mikil. Spikið var brætt og sett á flöskur, annað soðið og súrsað og saltað.
Hinn hefðbundni vinnustaður kvenna, heimilið, kemur fram í dagsljósið og
með því allt hversdagslífið, mataræði, húsnæði, fæðingar, uppeldi, giftingar
og dauðsföll - hinn faldi heimur kvenna. Okkur verður enn ljósara hve stór-
an þátt konur hafa í tímans rás átt í framfærslu fjölskyldunnar. Og þó hafa líf
og störf kvenna ekki verið talin til hreyfiafls sögunnar heldur litið á þau sem
eins konar náttúruauðlind.
Veturinn eftir að Hulda kom að Þingeyrum brann íbúðarhúsið til grunna.
Það áfall var aldrei bætt. Lýsir hún vel því sem við tók. Jákvætt og heilbrigt
lífsviðhorf hennar dugði henni vel á erfiðum tímum. „Ævintýrið" gerðist og
einkadóttirin, Guðrún Ólafía, fæddist 1935. En mörg önnur börn dvöldu um
lengri eða skemmri tíma á Þingeyrum - fósturbörn, sumarbörn og vetrar-
börn. Hún telur, að milli 40 og 50 börn og unglingar komi þar við sögu. Auk
þess voru þar á vetrum unglingsstúlkur, sem nutu einhverrar tilsagnar, og
síðustu þrjú árin hennar á Þingeyrum hafði hún þar unglingaskóla. Ein-
hverjar mestu samfélagsbreytingar sem orðið hafa undanfarna áratugi eru
þær, að umönnunarstörf, sem konur unnu inni á heimilunum, eru nú í
höndum opinberra stofnana. Heilbrigðis-, uppeldis- og þjónustustörf eru
störf af þessu tagi, og enn eru það konur, sem sinna þeim. Það bættist við
umsvifamikil heimilisstörf Huldu, að hún var í mörg ár organisti í Þingeyra-
kirkju og æfði kórinn, sem um þær mundir var eingöngu skipaður körlum.
Oft var leitað til hennar að spila við messur eða jarðarfarir í öðrum sóknum.
Hulda leiðir lesanda um sögufrægt hérað og segir frá fólki í Sveinsstaða-