Saga - 1989, Page 202
200
RITFREGNIR
IV
Við val á bréfum segist Bríet Héðinsdóttir ekki hafa getað látið sögulega
atburði ráða ferðinni. Bókin er byggð upp sem ævisaga og mikil áhersla er
lögð á persónuleg atriði, sérstaklega mæðgnanna Laufeyjar og Bríetar. í
bréfunum er auk þess minnst á margvísleg mál sem fróðlegt er að skoða með
augum samtímamanns og sýna aðra hlið á málunum en við höfum úr öðrum
tegundum heimilda. Bríet var lifandi þátttakandi í þjóðlífinu og fylgdist vel
með og þess vegna er margt einkar athyglisvert fyrir sagnfræðinga sem fram
kemur í þessu úrvali.
Mannréttindabarátta kvenna fær allítarlega umfjöllun í bókinni. Má ætla
að flest það sem Bríet hefur skrifað um hana í bréfum sínum hafi verið birt,
einmitt vegna áherslunnar á ævisögu kvenréttindakonunnar Bríetar. Nokk-
uð mörg bréf til Laufeyjar fjalla um kvenréttindi, og svo eru varðveitt nokkur
uppköst að bréfum Bríetar til útlendra kvenréttindakvenna, þar sem hún
fræddi þær um stöðu þeirra mála á íslandi.
Bríeti verður líka tíðrætt um pólitíska umræðu í kringum sambandsmál
íslendinga og Dana innan og utan alþingis, sem og pólitísku fylkingarnar á
þessum tíma. Laufeyju skrifar hún aðallega um stjórnmálin þegar þau tengj-
ast kvenréttindamáiunum. Héðinn fékk oftar pólitísk bréf, en þó virðist sem
mörg þeirra hafi ekki verið birt í bókinni. Bríet fylgdist nákvæmlega með
afgreiðslu frumvarpsins um jafnrétti kvenna og karla til náms í þinginu.
Svona lýsir hún atkvæðagreiðslunni í bréfi til Laufeyjar á vordögum 1911:
Eg var bæði heit og köld, fékk svo mikinn hjartslátt þegar eg sá að
fleiri voru með og þegar eg athugaði að Bjarni frá Vogi, Björn Sigfús-
son og Pétur Gauti voru ekki inni þá hélt eg, sem og var rétt, að tekið
væri að agitera móti málinu og það yrði máske fellt. Eg þaut niður að
leita í kaffisalnum til að fá þá inn að greiða atkvæði. Peir voru ekki í
þinghúsinu. Eg upp, með ákafan hjartslátt og bjóst við því versta. En
þá var frumvarpið, guði sé lof, samþykkt með 16 gegn 5. (118)
I þessu máli átti Bríet sitt strá og segir við Laufeyju í sama bréfi:
Húrra fyrir okkur konum! Og dálítið húrra fyrir okkur Hannesi Haf-
stein! - Mér sem átti upptökin og fékk hann til að flytja það og hon-
um einkum sem gerði það svona vel. (117)
Fer það ekki framhjá Iesandanum að Bríet er að berjast fyrir að opna dyrnar
sem henni voru luktar á sínum tíma, dyrnar að menntun fyrir konur jafnt
sem karla. Hún reynir að láta æskudrauma sína rætast með því að styðja
dóttur sína með öllum ráðum til framhaldsnáms. Laufey varð fyrsta stúlkan
til að sitja alla bekki menntaskólans og draumur Bríetar var að hún yrði einn-
ig fyrsta kona á íslandi til að ljúka háskólaprófi, en það rættist þó ekki.
Bríet tók einnig þátt í bæjarpólitíkinni. Hún sat í bæjarstjórn um árabil og
auk þess í ýmsum nefndum. Oft eru fregnir af framboðsmálum í bréfunum
og ítarlega er greint frá því hvernig konur stóðu að framboðum sínum og
hvernig þær skipuðu sér í fylkingar. En kvenfélögin stilltu upp listum þegar
kjósa átti til bæjarstjórnar og niðurjöfnunarnefndar. Hér gefst gott tækifæri
til að athuga þá starfsemi, en lítið hefur áður verið fjallað um átökin sem áttu