Saga - 1989, Page 238
236
RITFREGNIR
hvort áhrif bæjarins á þingið séu fremur góð en vond, - ég fyrir mitt
leyti tel þau fremur spilla en bæta ..." (BIs. 57)
Þessi klausa er enn sem komið er skiljanleg, en sama verður ekki sagt um
framhaldið strax á eftir:
Þetta [?] var eitt meginágreiningsefni Alþýðuflokks og Framsóknar,
því að bændur unnu gegn hagsmunum verkafólksins í þessu [?] efni.
Hins vegar áttu jafnaðarmenn sömu hagsmuna að gæta og önnur
stjórnmálaöfl í Reykjavík á þessu [?] sviði. Þetta [?] var „borgaraleg-
um" þingmönnum bæjarbúa ljóst, ekki síður en öðrum. (Bls. 57-8)
Ekki er ljóst hér að ofan hvort ágreiningurinn snerist um áhrif bæjarins á
þingið eða hvort fjölga bæri þingmönnum eða ekki.
Á bls. 65 er Ólafur enn sem oftar að túlka „sveitó" skoðanir leiðtoga jafn-
aðarmanna:
Jón Baldvinsson taldi jarðræktarfrumvarpið [1923] merkilegt mál en
hafði áhyggjur af forræði Búnaðarfélags Íslands. Það myndi svipta
þorp og bæi yfirráðum eigin landa og hætta væri á að bæirnir gætu
ekki tryggt íbúum sínum land til ábúðar. Þetta er enn eitt dæmi um
þá trú sem Jón hafði á að búskapur bæjarbúa gæti orðið til lausnar á
atvinnuvandanum." (Bls. 65)
Þegar Alpingistíðindi eru skoðuð er hér um s.k. erfðafestulönd að ræða en
það eru jarðir sem sveitarfélög áttu en voru í reynd leigð bændum og niðjum
þeirra svo framarlega sem sveitarfélagið ráðstafaði ekki landinu til annarra
þarfa svo sem mannvirkjagerðar og þess háttar. Þá mátti nota slíkt land und-
ir garðrækt þéttbýlisbúa til búdrýginda. Ég skil ekki hvers vegna Ólafi er
tamt að lýsa slíkum áhuga Jóns sem afturhvarfi bæjarbúa til sveitabúskapar.
Slæm er einnig meðferðin á Magnúsi Jónssyni dósent en í því sambandi
ritar Ólafur:
. . . má tína til kostuleg dæmi um oftrú þingmanna á möguleika
íslensks landbúnaðar. Magnús Jónsson þingmaður Reykvíkinga
sagðist hafa það eftir fróðum mönnum að leita þyrfti suður til Nílár-
ósa til að finna jafngóðan jarðveg og þann íslenska, en hann tók
einnig fram að íslenskir bændur hefðu hag af blómlegum sjávarút-
vegi. (Bls. 63-4)
í Alþingistíðindum á þeim stað sem höfundur vitnar til segir Magnús svo:
Ég hygg, að allir verði að viðurkenna, að Iandbúnaðurinn er sterk-
asta stoðin, sem menningargrundvöllur og menningarberi. Þetta
frumvarp virðist stefna í þá átt að hleypa nýju fjöri í ræktun landsins
(. . .) Það er ekki lítill „idealismi", sem liggur að baki ýmsu í þessu
frumvarpi (...) Hér kemur hið sama fram, sem ég sá haldið fram i
riti einu, er nýlega var útbýtt hér á þingi, hve góður jarðvegurinn er
hér á landi. Er haft eftir fróðum mönnum, að hvergi sé betri jarðveg-
ur fyrr en suður við Nílárósa. (Alþingistíðindi B 1582)
Hér er Magnús Jónsson að vísa með varfærni til skoðana annarra, en lesa
mætti af bók Ólafs að ofangreindar skoðanir kæmu beinustu leið frá Magnúsi
sjálfum.