Saga - 1989, Page 245
RITFREGNIR
243
Þrátt fyrir þann umtalsverða byggingargalla sem ég tel á ritinu, fagna ég
útkomu þess. Hér er miklum fróðleik komið á framfæri við lesendur og
sagnfræðingar munu ugglaust nýta sér ritið við margvíslegar rannsóknir
sem tengjast tímabilinu. Framsetning efnisins er fræðileg og fátt um
stílbrögð. Stundum gætir nokkurra hnökra í framsetningu. Um þetta má t.d.
nefna eftirfarandi dæmi:
„. . . að nú var skreið skipt niður í fimm verðflokka og raunar enn fleiri."
(Bls. 121)
„Áhrif Bernstorffs í ríkisstjórninni voru að vísu mest og víðtækust meðan
hans naut við . . .". (Bls. 303)
„Hinar tvær síðastnefndu tegundir starfsmanna . . .". (Bls. 104)
„Hélzt þetta þannig fram um 1780, er ákveðið var að 6 stærstu skúturnar,
sem haft höfðu ásamt hinum minni skútum, bækistöð í Hafnarfirði, skyldu
framvegis annast flutninga milli Kaupmannahafnar og íslands ásamt dugg-
unum". (Bls. 68)
„Þar við bættist svo mjög aukin mannekla eftir móðuharðindin". (Bls. 75)
Bókin er prýdd nokkrum myndum, m.a. nokkrum litmyndum, sem eru
prentaðar á sérstakar síður. Myndir eru smekklega valdar. Tilvísanir eru aft-
an við hvern undirkafla. Sigfús Haukur vísar skilvíslega til heimilda sinna og
gerir þar oft góðar athugasemdir. Af þessum sökum hefði ég kosið að tilvís-
anirnar væru neðanmáls, en þetta er að sjálfsögðu smekksatriði. Prentvillur
eru tiltölulega fáar og oftast auðvelt að ráða í þær.
Gísli Ágúst Gunnlaugsson
Sigurður A. Magnússon: SIGURBJÖRN BISKUP. ÆVIOG
STARF. Setberg. Reykjavík 1988. 384 bls. Heimilda- og
nafnaskrár.
Alkunna er, að persónusaga og ættfræði mynda uppistöðuna í almennum
söguáhuga „söguþjóðarinnar" Islendinga, en sagnfræði í eiginlegum skiln-
ingi gegnir þar mun veigaminna hlutverki. Ævisagan sem bókmenntaform
hefur því skipað áberandi sess í bókmenntahefð þjóðarinnar um aldaraðir
eða allt frá því að konungasögur og biskupasögur voru færðar í Ietur á síðari
hluta 12. aldar til miðrar þeirrar 14. Sérstakt afbrigði ævisögunnar er sjálfs-
*visagan, sem einnig á sér langa hefð hér á Iandi. Jón Ólafsson Indíafari (d.
1679) mun fyrstur manna hérlendra hafa fært endurminningar sínar í letur
°g rúmri öld síðar rituðu prestarnir séra Þorsteinn Pétursson á Staðarbakka
(d. 1785) og séra Jón Steingrímsson á Prestsbakka (d. 1791) sjálfsævisögur
sínar, sem báðar hafa orðið klassískar með þjóðinni. Á síðustu áratugum
hefur þróast eins konar millistig ævisögunnar og sjálfsævisögunnar, sem
hyggist á því, að endurminningar eru skráðar eftir forsögn söguhetju. Guð-