SunnudagsMogginn - 11.04.2010, Blaðsíða 50
50 11. apríl 2010
Á
dögunum kom út í aukinni og bættri útgáfu
bókin Íslenskt vættatal eftir Árna Björnsson
þjóðháttafræðing. Bókin kom fyrst út fyrir
tuttugu árum en hefur verið ófáanleg um
skeið. Í henni er greint frá hinum fjölbreytilegustu ís-
lensku vættum og er þeim raðað í stafrófsröð – huldu-
fólki og álfum, draugum, landvættum, vatnaskrímslum,
goðverum, tröllum, fornmönnum og meira að segja
jólasveinum. Höfundur sýnir á kortum hvar á landinu
þessir íbúar huliðsheima hafa birst og haldið sig.
„Ég hef af og til fengið ábendingar um ýmis fyrirbæri
sem ekki rötuðu í fyrri útgáfu bókarinnar,“ segir Árni
þegar við ræðum um hinar margbreytilegu vættir lands-
ins. „Maður er aldrei búinn að leita af sér allan grun
hvað svona verk varðar. Það nægir ekki að leita bara í
þjóðsagnasöfnum, upplýsingar um vættir má til að
mynda finna í endurminningabókum, árbókum Ferða-
félagsins og í minningagreinum. Já, fólk var stundum að
nefna við mig að sinn álf eða sinn draug vantaði, það vill
ekki að þeir verði útundan“ segir hann og brosir.
Skilyrði fyrir því að vættir kæmust í bók Árna var að
þær hefðu nafn eða væru kenndar við tiltekinn stað.
„Ekki er nóg að segja að eitthvað óhreint hafi verið á
sveimi einhvers staðar; rétt eins og í lögfræðingatali þarf
að koma öllum í stafrófsröð,“ segir hann.
Þegar við ræðum um hvaða fyrirbæri þetta séu, segist
Árni skilgreina vættir sem yfirnáttúrlegar verur, sama
hvernig þær eru til orðnar. Þar séu álfar og huldufólk
áberandi en af þessu tvennu segist hann kunna betur við
heitið huldufólk. „Ég geri í bókinni grein fyrir því hvaða
munur var á huldufólki og álfum. Álfar eru nefndir í
goðafræðinni en það er eins og huldufólk sé alþýðlegra
en álfarnir sem eru stundum kóngafólk. Með tímanum
hefur þetta þó orðið eitt og hið sama.“
Síðan eru þarna til að mynda tröll og skrímsli, sem eru
eins og huldufólk og álfar náttúrlegar vættir en sumir
vilja gera greinarmun á þeim og draugum, sem verða til
af mannavöldum. Það eru ekki annað en nafngreindir
draugar í bókinni, sumir mjög krassandi.
Þrátt fyrir að upplýsingar um nýjar vættir berist Árna
af og til segir hann að það hafi dregið úr því að fólk þyk-
ist rekast á þessi fyrirbæri.
„Nú á dögum er fólk eðlilega hræddara við glæpa-
menn. Þéttbýlismyndunin hefur eflaust haft mikið að
segja um þá þróun. Um aldamótin 1900 bjuggu um átta-
tíu prósent þjóðarinnar í sveit, nú eru það innan við tíu
prósent. Flestir búa því í þéttbýlinu, þar sem ljósin hafa
að einhverju leyti ýtt vættum í burtu, en það er samt
merkilegt að sjá að einhverjar verða þó til í bæjum og
þéttbýli á okkar tímum. Ég get nefnt drauginn sem á að
vera við Sogsvirkjun, en elsti hluti hennar er frá árinu
1937. Þessi draugur hefur skrýtið nafn, Stíflugjóli. Hann
er gott dæmi um fyrirbæri sem krakkar áttu að gæta sín
á. Margar af þessum vættum eru búnar til sem varúðir
fyrir börn. Börn gátu verið að þvælast nærri stíflunni og
virkjuninni og farið sér að voða, þau tóku meira mark á
banni sem var tengt draug. Eins áttu krakkar víða um
land að gæta sín á tjörnum sem voru vaxnar ígulstör.
Þær gátu verið þeim hættulegar og þá urðu til sögur um
nykur eða ófreskjur sem hétu Ígull eða Ygla.
Ef krakkar vildu klifra í klettum sem þau gátu slasað
sig í, þá urðu til sögur um huldufólk í klettunum sem
vildi ekki láta ónáða sig. Það er ólíkt áhrifaríkara en ein-
föld boð og bönn,“ segir Árni.
Þetta er skáldskapur fólksins
Í eftirmála Íslensks vættatals gerir hann grein fyrir hug-
myndum sínum um það hvernig trúin á vættirnar hefur
orðið til. „Þetta er skáldskapur fólksins,“ segir hann.
„Þetta er dægrastytting, eitthvað spennandi. Áður en
við fengum fjölmiðlana, sjónvarp og kvikmyndir, þá
gegndu þessar sögur sama hlutverki og spennusögur og
spennumyndir í dag, og líka sem varúðir.
Fólk man alltaf sögur sem það lærir á barnsaldri.
Amma sagði þetta og amma sagði alltaf satt, segir fólk.“
Árni ólst upp á Þorbergsstöðum í Dölum og eflaust
hefur hann sjálfur heyrt svona sögur þar.
„Já já. Þar sem ég ólst upp voru tveir klettar sem full-
yrt var að huldufólk byggi í. Þar var líka álagablettur
sem ekki mátti slá. Sögð var saga um mann sem óhlýðn-
aðist því boði. Ég heyrði þessa sögu sem barn og þetta
var nafngreindur maður sem hafði verið vinnumaður
hjá langafa mínum. Langafi bannaði honum að slá þenn-
an blett en þetta var grösug brekka og vinnumaðurinn
hlýddi ekki heldur tók að slá hana. Þá sótti á hann svefn
við orfið. Hann lagði sig í slægjuna og dreymdi að til
hans kæmi huldukona sem kleip í handlegginn á hon-
um. Við það vaknaði hann. Það endaði á því að mað-
urinn fékk berkla í handlegginn. Já, þetta var þekkt
saga.
Ég spurði móður mína einu sinni að því hvort huldu-
fólk væri til. Hún svaraði á mjög diplómatískan hátt: Ef
það hefur einhvern tímann verið til, þá er það til enn,
sagði hún.“
Börn og unglingar hafa ekki síst sótt í sögur af ógn-
vekjandi og illskýranlegum fyrirbærum. „Krakkar sækja
í spennu,“ segir Árni. „Þetta má sjá í barnabókum og
kvikmyndum í dag. Þeirri spennuþörf hefur þurft að
fullnægja. Svo hafa menn alltaf haft gaman af að búa til
og segja sögur. Hefði Halldór frá Laxnesi verið uppi fyrir
tíma prentlistar, þá hefði hann örugglega komið ein-
hverjum sögum af stað. En þá hefði nafn hans sennilega
verið óþekkt.“
Hví skyldi maður vera alveg viss?
Vættatal er óvenjulegt innlegg í flóru ferðahandbóka og
innlegg í sögutengda ferðaþjónustu. Þessi nýja útgáfa er
þannig kjörinn ferðafélagi þegar flakkað er um landið. Í
henni er kort af öllum svæðum landsins þar sem vísað er
á vættirnar, auk staðarnafna- og vættaskrár. Árni veit
ekki til þess að álíka safn hafi verið tekið saman í ná-
grannalöndunum.
„Það er til fullt af bókum um vættatrú en ég veit ekki
til þess að samskonar uppsláttarbók hafi verið gerð um
vættirnar sjálfar. Við Íslendingar höfum vissa sérstöðu
hvað það varðar að við erum ófeimin við að tala gáleys-
islega um þessar vættir,“ segir hann og brosir. „Það ger-
Þjóðfræði
Einar Falur Ingólfsson
efi@mbl.is
Sannkölluð
sagnagleði
Þófarkútur, Skroppa, Rassbeltingur og Gellivör eru meðal
fjölmargra vætta sem greint er frá í nýrri útgáfu Íslensks
vættatals sem Árni Björnsson hefur tekið saman. Dregið hef-
ur úr því að fólk þykist rekast á slík fyrirbæri en Árni segir
sögurnar hafa áður fyrr verið dægrastyttingu og varúðir.
Árni Björnsson þjóðháttafræðingur við
Höfða en þar eiga að vera heimkynni
frægs draugs. Í bók Árna segir að um
1950 þótti breska sendiherranum vera
svo reimt í húsinu að hann fékk leyfi til
að selja það. Draugurinn varð heims-
frægur þegar Gorbatsjof og Reagan
funduðu í Höfða í október 1986.
Lesbók