SunnudagsMogginn - 20.06.2010, Side 35

SunnudagsMogginn - 20.06.2010, Side 35
20. júní 2010 35 Ferðalög Þ ó að fólk sem byggir eyjar þakki oft sínum sæla fyrir að vera ekki með misgóða nágranna, sem stundum orsaka deilur og misklíð, þá er eyjabúum það nauðsynlegt að geta brugðið sér í heimsókn til annarra landa,“ segir Þorsteinn Baldursson, sem er á miðjum áttræðisaldri og hefur ásamt fjölskyldu sinni gert víðreist um heiminn á húsbíl undanfarna fjóra áratugi. „Við vorum ung hjón með þrjú börn og lang- aði til að ferðast, en hvernig gátum við fjár- magnað það,“ segir hann. „Jú, við fundum ráð, frá árinu 1970 höf- um við ekki eytt krónu í tóbak eða áfengi, en í staðinn höfum við ferðast á hverju ári.“ Fyrstu ferðina fóru þau til Kaup- mannahafnar árið 1971, með stuttu stoppi í Noregi. „Við tókum svo lest til Brussel og keyptum þar ódýran Peugeot og ódýrt hjólhýsi, ókum síðan suður og enduðum í Napólí á Ítalíu. Við lentum í alls konar ævintýrum og eigum dásamlegar minn- ingar frá þessari ferð. Eitt af því sem stendur upp úr var vikudvöl á stað sem nefnist Union Lido og liggur við hvíta sandströnd, en þaðan er 40 mínútna sigl- ing með bát til Feneyja, sem við heim- sóttum nokkrum sinnum. Næstum fjór- um áratugum síðar er þetta enn einn af okkar uppáhaldsstöðum og við höfum oft farið þangað síðan.“ Þau hafa farið á hverju ári í mislangar ferðir, akandi um Evrópu, Bandaríkin og Kanada, ýmist með tjöld eða hjólhýsi, á bílaleigubíl eða á pallbíl með litlu húsi á pallinum. „Nú erum við svo heppin að eiga vin í Þýskalandi, sem á með okkur yndislegan húsbíl, sem búinn er öllum þægindum og er eins og lítið heimili,“ segir Þorsteinn. „Þannig ferðalög kosta lítið meira en að búa í sinni eigin íbúð, hótelkostnaður er enginn, matur er keyptur í verslunum og matreiddur í húsbílnum og olíu- eyðslan er svipuð og heima á Íslandi.“ Reisan eftir bankahrun Eftir bankahrunið fóru Þorsteinn og Katrín í sjö vikna ferð vítt og breitt um Evrópu, sem hófst í apríl árið 2009. „Ástæðan var sú að okkur langaði að heyra hljóðið í almenningi í Evrópu, en á ferðalögum okkar höfum við samskipti við fjölda fólks sem er á svipuðu ferðalagi og við. Húsbílafólk gistir mikið á ódýrum svæðum eða ókeypis við bensínstöðvar, þar sem hægt er að fá ýmsa þjónustu, þar með talið veitingar.“ Þar sem húsbíllinn er merktur Íslandi voru þau mikið spurð út í ástandið á Ís- landi. „Við bárum okkur vel og vorum hin hressustu, en notuðum tækifærið og spurðum á móti hvað fólki fyndist um aðildina að Evrópusambandinu, en lang- flestir þeirra sem við töluðum við voru frá löndum innan ESB,“ segir Þorsteinn. „Við báðum fólk líka að ráðleggja okk- ur, hvort við ættum að ganga í ESB. Það kom okkur mjög á óvart að langflestir sögðust í upphafi hafa verið jákvæðir og kosið með ESB, en að nú væru þeir reynslunni ríkari og sæju eftir að hafa kosið með ESB vegna þess að loforð póli- tíkusanna hefðu ekki staðist. Fólk nefndi ofboðslegan kostnað við ferlíkið í Brussel og að ófrelsi, boð og bönn gerðu því lífið erfiðara og dýrara en áður. Þess má geta að fólkið sem við töluðum við var al- menningur, fólk eins og ég og þú, sem er allt annað en þegar embættismenn tala við kollega sína eða pólitíkusar tala við pólitíkusa.“ Á vit næsta ævintýris Þorsteinn segir að húsbílaferðalög séu dásamleg og einn aðalkosturinn sé hreyf- anleikinn. „Ef þú ert búinn að fá nóg af einum stað eða skýin skyggja á sólina, þá skellirðu hurðinni aftur, setur í gang og keyrir á vit næsta ævintýris. Þú ert alltaf með það sem til þarf, rúmið, klósettið og eldhúsið. Maturinn er í ísskápnum eða frystihólfinu, þarna eru borð og stólar, og sjónvarp með tugum stöðva í gegnum gervihnattaloftnetið.“ Þorsteinn og Katrín hafa ferðast nánast um öll lönd Evrópu og heimsótt marga yndislega staði. „Nýjasti uppáhalds- staðurinn er Lago Maggiore á landamær- um Sviss og Ítalíu. En svo má nefna fjöl- marga staði, sem við komum á aftur og aftur, eins og til dæmis Kitzbühel og Li- enz í Austurríki, Berlín, París og Vín. Við erum að enduruppgötva Frakkland, vor- um í Norður-Frakklandi í vor, til dæmis Pampól á Bretagne-skaga, og Normandí, þeim sögufrægu ströndum Omaha, Utah, Juno, Sword og fleirum þar sem örlög styrjaldarinnar réðust. Alls staðar eru þessi fallegu þorp og fallegu blóm. Núna í vor höldum við til í Suður-Frakklandi, Antibes og Mónakó.“ pebl@mbl.is Ferð án fyrirheits Fyrir fjórum áratugum ákváðu hjónin Þorsteinn Baldursson og Katrín Magnúsdóttir að ferðast um heiminn. Þau höfðu ráð með að fjármagna ferðalögin – að snerta hvorki tóbak né áfengi. Bílstjórinn fær sér verðskuldaða hvíld og sólbað á heimatilbúnum sólpalli. Lagt að í Locarno eftir siglingu á vatninu. Bærinn er í ítölskumælandi hluta Sviss. Katrín tekur lífinu rólega á tjaldsvæði í svissneska bænum Tenero.Sundsprettur í Lago Maggiore er við hæfi í sumarhitunum í Evrópu. Katrín nýtur allra helstu nútímaþæginda í húsbílnum sem er eins og lítil íbúð. Þorsteinn Baldursson ’ Þannig ferðalög kosta lítið meira en að búa í sinni eigin íbúð. Hótelkostnaður er enginn og matur er keypt- ur í verslunum og mat- reiddur í húsbílnum.

x

SunnudagsMogginn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.