SunnudagsMogginn - 18.07.2010, Blaðsíða 26
26 18. júlí 2010
Í
hinum merku alþýðufyrirlestrum
Jóns Jónssonar Aðils sagnfræðings
sem gefnir voru út í bókinni Ís-
lenzkt þjóðerni árið 1903 (og fullt
tilefni er til að gefa út á ný) segir hann
m.a.:
„Með stofnun allsherjarríkis á Íslandi
var lagður grundvöllurinn undir nýtt
þjóðfélag. Upp frá þeim tíma kenna Ís-
lendingar sig sem sérstaka, sjálfstæða
þjóð. Hver einstaklingur kennir sig sem
lið í þjóðfélagsheildinni með sérstökum
skyldum og sérstökum réttindum. Það er
eins og tilveran fái alveg nýjan svip eða
réttara sagt: Þetta er upphaf alveg nýrrar
tilveru. Það vakna til lífs hjá þeim nýir
kraftar og nýjar vonir og nýjar tilfinn-
ingar, einhverjar þær fegurstu og háleit-
ustu, sem mannkynið á til í eigu sinni –
ættjarðarástin og þjóðernistilfinningin.
Þegar þessar tilfinningar vakna fyrst hjá
þjóðunum táknar það ætíð nýtt tímabil í
sögu þeirra.
Það þarf ekki annað en fletta upp Ís-
lendingasögum til að finna ljós merki um
ættjarðarást og þjóðernistilfinningu for-
feðra vorra. En menn verða illa sviknir ef
þeir vænta að finna þar hrókaræður og
háfleygar klausur um þetta. Það lá ekki í
eðli forfeðra vorra að vera fjölorðir eða
hámæltir um tilfinningar sínar. Þeir voru
hvorttveggja í senn tilfinningaríkir en þó
um leið dulir. Þeir sýndu fremur í atvik-
um en í orðum hvað þeim var innan-
brjósts. Það er eins og einhver sérstök
blygðunarsemi hamli þeim frá að láta
sterkar og djúpar tilfinningar í ljósi með
beinum og berum orðum. Sagnaritararnir
gera það örsjaldan. Þeir tæpa aðeins á
þeim og gefa þær í skyn með því að skýra
frá þeim atvikum, sem stýrðu þeim eða
stóðu í sambandi við þær. Þetta er einmitt
grundvallarlögmálið í þeirri óviðjafn-
anlegu sögulist. Þess vegna er það, að þótt
hvergi sé berum orðum minnst á ættjarð-
arást og þjóðernistilfinningu þá er samt
þetta tvennt svo innilega samvaxið allri
frásögunni að heita má, að Íslendinga-
sögur séu einn samfelldur ættjarðar-
óður.“
Guðmundur Hálfdánarson prófessor
hefur fært sannfærandi rök fyrir því að
sjálfsmynd Íslendinga nú á tímum tengist
meir landinu sjálfu og náttúru þess en
sögunni og menningararfleifð þjóðar-
innar. Þetta er skemmtileg kenning. Á
síðustu áratugum hefur orðið vakning
meðal þjóðarinnar að standa vörð um
náttúru hennar og þá ekki sízt hinar
ósnortnu auðnir og óbyggðir. Þessi vakn-
ing lýsti sér m.a. í margra ára átökum og
deilum um Kárahnjúkavirkjun.
Sumir hafa haft tilhneigingu til að líta á
náttúruverndarsinna sem öfgahópa. Það
er misskilningur þótt auðvitað séu ein-
hverjir í þeirra röðum sem kannski
vilja ganga fulllangt. Mesti nátt-
úruverndarsinni, sem ég hef kynnzt hét
Birgir Kjaran (móðurafi Birgis Ármanns-
sonar alþm.) og var kjörinn á þing fyrir
Sjálfstæðisflokkinn fyrir rúmum fjórum
áratugum. Hann hafði frá unga aldri
ferðast um landið og fylgdi áhuga sínum
eftir í verki annars vegar með bókaskrif-
um og hins vegar á hinum pólitíska vett-
vangi. Birgir Kjaran var brautryðjandi í
náttúruvernd og mættu flokkssystkini
hans minnast þess. Í kjölfarið fylgdi Ey-
steinn Jónsson, einn helzti forystumaður
Framsóknarflokksins, sem helgaði nátt-
úruverndarmálum krafta sína eftir að
hann lét af pólitískum afskiptum.
Það er til mjög einföld aðferð til að
styrkja og efla þá sjálfsmynd Íslendinga,
sem Guðmundur Hálfdánarson telur
tengjast náttúru landsins svo mjög. Hún
er sú að hvetja til þess, að fólk ferðist um
landið og þá ekki sízt óbyggðir þess,
hvort sem er um miðhálendið og tengd
svæði eða Hornstrandir og aðrar óbyggðir
Vestfjarða. Þeir eru fáir sem koma
ósnortnir frá slíkum ferðum. Og flestir
sammála því að aldrei, aldrei, verði þar
frekari framkvæmdir, hvort sem um er að
ræða virkjanir eða vegi. Hraðbrautir eiga
ekki heima á hálendi Íslands – og ekki
heldur fjallahótel.
En þótt vera megi að sú vakning, sem
orðið hefur meðal þjóðarinnar um nátt-
úruvernd hafi orðið til þess að þjóðin
tengi sjálfsmynd sína meira við náttúru
landsins en sögu sína og fornan menning-
ararf getur verið ástæða til að gefa tengsl-
unum við söguna og arfleifðina nýtt líf.
Sigurður Líndal prófessor hefur stjórn-
að ritun Sögu Íslands með glæsibrag á
fjórða áratug, frá því að Alþingi tók
ákvörðun um hana á þjóðhátíðarárinu
1974. Nú er því mikla verki að ljúka. Með
Sögu Íslands er búið að leggja alveg nýjan
grundvöll að þekkingu og skilningi þjóð-
arinnar á sögu sinni.
Nú er mikilvægt að sú saga gleymist
ekki og geymist í nokkur þúsund eintök-
um í bókaskápum áhugamanna. Nú þarf
að nota hina nýju fjölmiðlunartækni til að
koma henni til skila til nýrra kynslóða,
sem hentar kannski betur að fá aðgang að
þeim upplýsingum sem er að finna í verki
Sigurðar og fjölmargra samstarfsmanna
hans með margmiðlunartækni nútímans.
Þess vegna á Alþingi sem tók ákvörðun
um þessa söguritun ekki að líta svo á að
verkinu sé lokið heldur ber að taka
ákvörðun um nýjan kafla í þeirri sögu-
miðlun.
Þetta er mikilvægt á öllum tímum en
ekki sízt nú, þegar þeir eru til sem telja að
Íslendingar geti ekki lengur staðið á eigin
fótum sem sjálfstæð þjóð í þessu fagra
landi.
Það er ekkert neikvætt við það að þjóð
finni til þeirrar sterku þjóðerniskenndar,
sem Jón Jónsson Aðils lýsir í alþýðufyr-
irlestrum sínum um íslenzkt þjóðerni,
hvort sem þær tilfinningar tengjast sögu-
legum menningararfi eða ósnortinni
náttúru eyjunnar hvítu, sem Jónas Hall-
grímsson orti um.
Það er sú tilfinning sem mun tryggja að
Íslendingar búi um ár og aldir, sjálfstæð
þjóð í eigin landi – en verði ekki lítill
hreppur í Sambandsríki Evrópu.
Vakningin um eyjuna hvítu
Af innlendum
vettvangi ...
Styrmir Gunnarsson
styrmir@mbl.is
B
lað var brotið í sögu fimleika á Ólympíuleikum
á þessum degi fyrir 34 árum. Fullkomnar æf-
ingar voru framkvæmdar á tvíslá. Svo óvænt
voru tíðindin að stigataflan í Montréal, þar
sem leikarnir voru haldnir, gerði ekki ráð fyrir þeim – í
stað þess að sýna hina eiginlegu einkunn, 10.0, sýndi
hún af tæknilegum ástæðum í staðinn einkunnina 1.00.
Keppandinn sem vann þetta einstaka afrek var fjórtán
ára gömul stúlka frá Rúmeníu, Nadia Comãneci að nafni.
Hún lét raunar ekki þar við sitja heldur fékk sex tíur í
viðbót á leið sinni að Ólympíutitlinum í samanlögðum
greinum. Yfirburðir hennar voru fáheyrðir. Comãneci
vann einnig gull á tveimur áhöldum, tví- og jafnvægislá.
Comãneci er yngsti Ólympíumeistarinn í fimleikum
frá upphafi og met hennar verður að óbreyttu ekki sleg-
ið vegna þess að búið er að hækka aldursmörkin. Þegar
hún keppti í Montréal var nóg fyrir þátttakendur að vera
orðnir fjórtán ára þegar mótið hófst en í dag þurfa þeir
að verða sextán ára á almanaksárinu.
Comãneci varð að vonum ein af skærustu stjörnum
Ólympíuleikanna 1976, breska ríkissjónvarpið BBC valdi
hana íþróttamann ársins og Associated Press íþrótta-
konu ársins, svo eitthvað sé nefnt. Heima í Rúmeníu var
Comãneci tekið með kostum og kynjum og hún sæmd
heiðursnafnbótinni „Hetja hinnar sósíalísku alþýðu“,
yngst allra á valdatíma Nicolaes Ceausescus.
Vinsældir stúlkunnar náðu líka langt út fyrir greinina
og birtust þær í ýmsum myndum. Má þar nefna að
þemalag bandarísku sápuóperunnar „The Young and
the Restless“ var leikið undir myndum af Comãneci í
þættinum „Wide World of Sports“ á sjónvarpsstöðinni
ABC með þeim afleiðingum að það komst inn á topp tíu á
vinsældalistum vestra haustið 1976. Umskýrði höfund-
urinn, Barry De Vorzon, það þá umsvifalaust „Nadias
Theme“. Sjálf gerði Comãneci þó aldrei gólfæfingar
undir téðu lagi, kunni betur við píanóútsetningu á syrpu
með „Yes Sir, That’s My Baby“ og „Jump in the Line“.
Flúði frá Rúmeníu
Comãneci freistaði þess að verja Ólympíutitil sinn í
Moskvu árið 1980 en tapaði naumlega fyrir Yelenu
Davydovu í samanlögðum æfingum. Vann þó gull í
tveimur greinum, jafnvægisslá og á gólfi. Ári síðar hætti
hún keppni enda komin á aldur (í skilningi fimleika).
Goðsögnin lifir þó góðu lífi enda er Nadia Comãneci lík-
lega frægasta fimleikakona sögunnar, engin hefur gert
jafnmikið fyrir íþróttina, það er helst að Olga Korbut
komist með tærnar þar sem hún hefur hælana.
Comãneci sneri sér að þjálfun heima í Rúmeníu en
flúði land árið 1989, skömmu fyrir byltinguna. Hún
settist upphaflega að í Montréal og vann meðal annars
fyrir sér sem fyrirsæta, auk þess að kynna eróbikk-tæki.
Fljótlega flutti hún til Oklahoma að áeggjan fimleika-
kappans Barts Conners og urðu þau síðar par. Comãneci
og Conner gengu í heilagt hjónaband í Rúmeníu árið
1996 og var athöfninni sjónvarpað beint um gjörvallt
landið. Veislan var haldin í gömlu forsetahöllinni.
Comãneci gerðist bandarískur ríkisborgari árið 2001
en hefur eigi að síður haldið rúmenska vegabréfinu. Þau
Conner eignuðust sitt fyrsta barn fyrir fjórum árum,
soninn Dylan Paul Conner. Ætli hann sjái ekki sæng sína
upp reidda þegar kemur að vali á íþróttagrein.
Comãneci hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum
fyrir fimleikahreyfinguna gegnum tíðina, er heiðurs-
konsúll Rúmeníu í Bandaríkjunum og er eina mann-
eskjan sem hlotið hefur æðstu viðurkenningu Ólympíu-
hreyfingarinnar í tvígang, 1984 og 2004. Þá hafa þau
Conner verið dugleg við að lýsa fimleikakeppnum í
sjónvarpi, auk þess sem Comãneci kom fram í sérstakri
útgáfu af þætti Donalds Trumps, The Apprentice, sem
helgaður var frægu fólki.
orri@mbl.is
Nadia
Comãneci
fær tíu í
einkunn
Nadia Comãneci fagnar tíunni á Ólympíuleiknum í Montréal.
Í stað þess að sýna hina eiginlegu ein-
kunn, 10.0, sýndi hún af tæknilegum
ástæðum í staðinn einkunnina 1.00.
Comãneci eins og hún lítur út í dag. Hún er 48 ára gömul.
Á þessum degi
18. júlí 1976